Carbfix – Öll losun heimsins í berggrunn Íslands
Grein/Linkur: Gætu komið allri losun mannkyns fyrir í berggrunni Íslands
Höfundur: Rósa Margrét Tryggvadóttir
.
.
Maí 2022
Gætu komið allri losun mannkyns fyrir í berggrunni Íslands
Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Carbfix gæti, fræðilega séð, komið allri losun mannkyns fyrir í íslenskum berggrunni með aðferð sem vinnur að því að fanga koltvísýring og breyta því í stein í jörðinni. Þetta bendir Dr. Kári Helgason frá Carbfix á viðtali í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 en þar ræddi hann á mannamáli um fyrirtækið sem á ófáa sigrana að baki.
Elon Musk, auðugasti maður jarðar, tilkynnti á degi jarðar í apríl að Carbfix væri einn þeirra fimmtán þátttakenda sem hafi unnið Milestone-verðlaun á XPRIZE Carbon Removal-verðlaununum fyrir tæknilausn til að fjarlægja koltvísýring úr andrúmsloftinu. Fyrirtækið vann ekki ein heldur tvenn verðlaun í þessari fyrri umferð keppninnar, sem Elon Musk og Musk Foundation standa að en yfir þúsund teymi voru skráð til leiks. Fyrirtækið fær tvær milljónir dollara fyrir verðlaunin sem Kári segir að muni koma sér vel fyrir fyrirtækið en sjálfur sér hann um rannsóknir og nýsköpun hjá því.
En hvernig virkar Carbfix-aðferðin?
„Carbfix er tækni sem Íslendingar þróuðu og eru búnir að þróa síðastliðin 15 ár, sem gengur út á að taka koltvíoxíð, vondu lofttegundina sem veldur gróðurhúsaáhrifum, og breyta henni í stein neðanjarðar,“ útskýrði Kári í viðtalinu en hann segir að jarðlögin hér á landi séu mjög hentug fyrir aðferðina en um er að ræða gljúpt basalt. Ísland er nánast allt úr þeirri bergtegund.
Kári lýsti því hvernig hægt er að fanga gasið til dæmis úr útblæstri virkjana eða einfaldlega beint úr andrúmsloftinu í samstarfi við önnur tæknifyrirtæki. Koltvíoxíðið er síðan leyst í vatni og því dælt niður í jörðina þar sem það breytist í stein.
Upphaflega var það bandarískur vísindamaður sem kom með hugmyndina að aðferðinni og „henti henni í fang Íslendinga,“ að sögn Kára, en ástæðan er þessi sérstaki berggrunnur, basaltið, sem finnst um allt Ísland.
„Þessi aðferð Carbfix hefur gríðarlega möguleika. Við getum fræðilega séð bundið alla losun mannkyns í berggrunni Íslands í hundrað ár ef við vildum. Ef við hefðum koltvíoxíðið og gætum komið því hingað þá geymir íslenski berggrunnurinn bara þvílíkt mikið koltvíoxíð,“ sagði Kári sem segir að stækkunarmöguleikar Carbfix væri mjög miklir bæði hér á Íslandi og erlendis.
.