Nord Stream 2 – Valdatafl, pólitískir öxlar
Grein/Linkur: Nýir möndlar
Höfundur: Bjarni Jónsson
.
.
Febrúar 2021
Nýir möndlar
Á þessu vefsetri hefur verið fjallað um nýju gaslögnina Nord Stream 2, sem liggur frá Síberíu til Þýzkalands á botni Eystrasalts án viðkomu í öðrum löndum. Nú virðist þetta verkefni munu verða að stórpólitísku bitbeini, sem valda muni klofningi á meðal Vesturveldanna og myndun nýrra pólitískra öxla. Lögnin markar þáttaskil í Evrópu fyrir 21. öldina.
Undir hinum írsk- og þýzkættaða Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, versnaði sambúð Þýzkalands og Bandaríkjanna til muna, en stirðleikinn hófst fyrr og má rekja aftur til forsetatíðar Ronalds Reagans. Í tíð Trumps sannfærðust þýzk stjórnvöld um, að Evrópa gæti ekki lengur treyst á skilyrðislausan vilja Bandaríkjanna til varna, og fóru að taka undir málflutning Frakka, sem allt frá Charles de Gaulle, stofnanda 5. lýðveldis Frakka, hafa þann steininn klappað, að Evrópa yrði að vera sjálfri sér nóg á flestum sviðum og ekki sízt í varnarmálum. Í þeim anda vinna nú Þjóðverjar, Frakkar og Spánverjar sameiginlega að þróun næstu kynslóðar orrustuflugvélar, sem ætlað er að veita þeim yfirburði í lofti.
Fyrir NATO er þessi klofningur grafalvarlegt mál, þar sem grundvallarregla þessa varnarbandalags er, að árás á eitt aðildarlandann verður í höfuðstöðvum þessa hernaðarbandalags skoðuð sem árás á öll aðildarlöndin og á bandalagið sjálft. Bandaríkjamenn telja Þjóðverja stefna Evrópu í hættu með því að gera hana háða eldsneytisgasviðskiptum við Rússa. Þjóðverjar hafa áreiðanlega unnið heimavinnuna sína og gert sínar áhættugreiningar. Hafa ber í huga, að þessi gaskaup munu ekki standa til eilífðarnóns, heldur aðeins á meðan á orkuskiptunum (die Energiewende) stendur.
Frakkar eru hins vegar algerlega á móti Nord Stream 2, og þar krystallast munurinn á Þjóðverjum og Frökkum varðandi sjálfstæði gagnvart Bandaríkjunum. Þjóðverjar láta verkin tala, en Frakkar tala mikið og oft fylgja ekki gerðir orðum. Austur-Evrópa og Eystrasaltslöndin eru líka algerlega á móti Nord Stream 2, og þing Evrópusambandsins (ESB) ályktaði eftir handtöku og dómsuppkvaðningu yfir Alexei Navalny, rússneska stjórnarandstöðuleiðtogans, að stöðva skuli vinnu við þessa lögn, sem er 95 % tilbúin. Skellt var skollaeyrum við þeirri samþykkt.
Þjóðverjar sitja við sinn keip og neita að bregðast Rússum, enda sitja ýmsir þekktir Þjóðverjar í stjórn verkefnisins, og skal fyrstan frægan telja Gerhard Schröder, fyrrum kanzlara og formann SPD (Jafnaðarmannaflokksins). Forseti Sambandslýðveldisins, Walter Steinmeier, sósíaldemókrati, hefur opinberlega sagt, að Þjóðverjar hafi valdið Rússum miklu tjóni með því að rjúfa griðasáttmálann frá ágúst 1939 með „Operation Barbarossa“ 1941 og beri nú að treysta þeim og efla við þá viðskiptin. Í Bundestag er mikill meirihlutastuðningur við Nord Stream 2.
Í Bandaríkjunum er nú til endurskoðunar, hverja beri að líta á sem trausta bandamenn í Evrópu. Nú er talið, að Bretar muni verða valdir mikilvægustu og traustustu bandamenn Bandaríkjamanna í Evrópu og að myndaður verði möndullinn Washington-London, þótt forkólfar í Biden-stjórninni hafi ekki verið hrifnir af BREXIT. BREXIT er hins vegar afgreidd nú. Þrátt fyrir gildandi viðskiptabann ESB-BNA á Rússland og gagnkvæmt virðist vera jarðvegur fyrir myndun mönduls á milli Berlínar og Moskvu. Það er stórpólitísk nýjung, sem sýnir í raun og veru miklu nánari og vinsamlegri samskipti Þýzkalands og Rússlands en flestir gerðu sér grein fyrir.
Ástæðuna fyrir gashungri Þjóðverja má rekja til 2011, þegar Angela Merkel beitti sér fyrir því á þýzka þinginu í Berlín, að starfsemi þýzkra kjarnorkuvera yrði bönnuð frá árslokum 2022. Jarðvegur fyrir þetta myndaðist eftir Fukushima-kjarnorkuslysið í Japan, en var mesta óráð og hefur valdið gríðarlegu umróti í orkumálum Þýzkalands og nú einnig hjá Svíum, sem urðu í vetur að loka einu kjarnorkuvera sinna vegna hertra öryggisreglna ESB. Þetta gerðist á kuldaskeiði og olli gríðarlegri hækkun raforkuverðs í Svíþjóð vegna ójafnvægis á milli framboðs og eftirspurnar. Þess má geta, að árið 2011 var sænska orkufyrirtækið Vattenfall neytt til að loka 2 kjarnorkuverum sínum í Þýzkalandi.
Sú leið, sem Þjóðverjar sjá vænsta til að forða sér frá orkuskorti, er að halda ótrauðir áfram með orkusamstarfið við Gazprom, hvað sem tautar og raular í Brüssel, París, Washington eða Varsjá. Þessi stefnufesta Þjóðverja er afrakstur „kalds mats“ þeirra. Bandaríkjamenn hafa boðizt til að sjá þeim fyrir jarðgasi, t.d. af leirbrotssvæðum sínum (fracking zones), sem þeir mundu flytja til þeirra yfir Atlantshafið á LNG-skipum (Liquid Natural Gas). Þetta gas er talsvert dýrara komið í þýzka höfn en rússneska gasið, og Þjóðverjar treysta því einfaldlega betur, að rússneska viðskiptasambandið haldi en það bandaríska. Þjóðverjar vita sem er, að Rússa bráðvantar gjaldeyri, en Bandaríkjamenn hafa ekki mikla hagsmuni af slíkum gasútflutningi, þótt hann sé vissulega búbót. E.t.v. mun Evrópa fá jarðgas bæði úr austri og vestri sem einhvers konar málamiðlun.
Bandaríkin hafa bannfært fyrirtæki, sem eiga viðskipti við Nord Stream 2, og lokað fyrir viðskipti á þau. Þetta hefur hrifið. Svissneska sælagnafyrirtækið Allseas dró sig út úr samningum við Nord Stream 2, en þá hönnuðu og smíðuðu Rússar lagnaskipið Akademik Cherskiy. Það lagði fyrir rúmum 2 mánuðum úr höfn á þýzku eyjunni Rügen til að klára gaslögnina.
Þingmaður Republikanaflokksins, Ted Cruz, hefur reyndar sagt, að 95 % kláruð lögn sé 0 % tilbúin, og Bandaríkjamenn eru teknir að beita talsverðum þrýstingi til að koma í veg fyrir það, sem að þeirra mati gerir Evrópu allt of háða Rússum. Zürich Insurance endurtryggingafélagið og dönsk og norsk tryggingafélög hafa dregið sig út úr viðskiptum við Nord Stream 2 vegna þessa.
Þjóðverjar beittu krók á móti bragði Bandaríkjamanna. Fylkisstjórn Mecklenburg-Vorpommern, þar sem gaslögnin verður tekin í land, stofnaði félag með kEUR 2 stofnfé í því augnamiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nord Stream 2 hefur lagt MEUR 20 til þessa fyrirtækis og skuldbundið sig til að hækka framlagið í MEUR 60. Þetta félag er leppur fyrir Nord Stream 2, og um það fara öll viðskipti vestrænna fyrirtækja við Nord Stream 2. Þannig reyna þau að sneiða hjá refsiaðgerðum Bandaríkjamanna, sem annars mundu bíta illilega. Er bæði hægt að éta kökuna og eiga hana áfram ?
Angela Merkel hefur samúð með Alexei Navalny, en hún er ekki tilbúin til að fórna pólitískri innistæðu Þjóðverja hjá Rússum fyrir Navalny eða Krím. Valdhafar í stjórnmálum og á vinnumarkaði Þjóðverja styðja þessa stefnu, því að orkuhagsmunirnir eru ríkir, og rússneski markaðurinn getur tekið við miklu meiru af afurðum þýzks iðnaðar, ekki sízt bílaiðnaðarins, vélaiðnaðarins og efnaiðnaðarins. Armin Laschet, arftaki Annegret Kramp Karrenbauer í formannsstóli CDU, flokks Angelu Merkel, er Rússavinur, þótt ekki sé hann persónulegur vinur Pútíns, eins og Gerhard Schröder, sem kveður Pútin vera „óaðfinnanlegan lýðræðissinna“. Þetta er dæmigert oflof, sem Snorri Sturluson jafnaði við háð.
Sagan hangir yfir okkur. Einn pólskur ráðherra hefur líkt samstarfi Rússa og Þjóðverja um Nord Stream við hinn alræmda Mólotoff-Ribbentrop griðasamning á milli ríkisstjórnanna í Berlín og Moskvu í sumarið 1939. Það er ósanngjarn samanburður, en sá neisti er í honum, að Þjóðverjar fórna nú hagsmunum Austur-Evrópu og treysta á stuðning Rússa í viðureigninni við Vesturveldin. Hér er um algeran vendipunkt að ræða í Evrópusögunni.
Það er athyglisvert í þessu ljósi að virða fyrir sér bóluefnafarsann vegna C-19. Þjóðverjar hallmæltu nýlega hinu brezk-sænska bóluefni frá AstraZeneca, og bönnuðu það fyrir 65 ára og eldri í Þýzkalandi. Jafnframt hældu þeir Sputnik V og hafa falazt eftir samvinnu um það við Rússa. Efnafræðilega eru þetta svipuð bóluefni, og virknin þar af leiðandi væntanlega keimlík.
Nýleg skoðanakönnun í Þýzkalandi um afstöðu manna til Evrópusambandsins sýnir, að traust Þjóðverja til ESB undir forystu Þjóðverjans Úrsúlu von der Leyen hefur beðið hnekki. „Der Zeitgeist“ – tíðarandinn – er mjög mótdrægur Evrópusambandinu. Fyrir okkur Íslendinga er þessi þróun mála í Evrópu mjög lærdómsrík. Til að tryggja hagsmuni okkar eigum við að rækta sambandið við allar þjóðirnar, sem hér koma við sögu, við Breta o.fl. og nýta fullveldisrétt okkar í hvívetna. Þannig mun oss bezt vegna.