Legíónella – Með andardrætti í lungun..

Heimild:  

 

Febrúar 2006

Legíónella gerði strandhögg hérlendis

Hvarvetna í iðnvæddum löndum eru menn á varðbergi gegn bakteríu nokkurri sem almennt er kölluð legíónella. Í flestum löndum Vestur- Evrópu verða þó nokkur dauðsföll á ári hverju af hennar völdum og á síðasta ári varð a. m. k. eitt dauðafall hér á landi, líklega vegna smits erlendis. Fleiri áttu í höggi við þessa bakteríu, þó menn lifi af getur það tekið nokkuð langan tíma að vinna bug á veikinni.

Ekki er þó þessi baktería á nokkurn hátt lík hinni mjög svo skelfilegu fuglaflensubakteríu, sem virðist eiga að skelfa landslýð með í hverjum fréttatíma, einkanlega í sjónvarpi. Ekki loku fyrir það skotið að í þessum fréttum finni sjónvarpsmenn svo mikið af krassandi myndum þar sem hvít- og grímubúnir menn ganga hraustlega fram í því að troða lifandi fiðurfé í poka og æða síðan um með sótthreinsandi sprautur, úðandi yfir allt og alla.

Legíónellan er af allt öðru sauðahúsi, hefur tryggan þegnrétt á Íslandi og er enginn nýbúi. Hún finnst í lækjum, vötnum og mýrum hérlendis og það er engin áhætta að leggjast flatur út í náttúrunni og teyga tært og kalt vatn úr lækjarsprænu eða tjörn. Þó nokkrar legíónellur fylgi með skaðar það engan, efalaust hafa margir hérlendis svolgrað fjölmargar legíónellur.
Nú kann að vera að sumir lesendur hafi svo gott minni að þeir muni eftir því að áður hefur verið fjallað í þessum pistlum um þetta sama litla kvikindi, legíónellu pneumophila eins og hún heitir fullu nafni. Í íslenskri þýðingu mætti kalla þessa bakteríu „lítinn her sem elskar lungu“. Þar erum við einmitt komin að kjarna málsins, þessi baktería gerir engan skaða nema hún komist í lungun, þar er hennar uppáhaldsstaður og þar getur hún látið til sín taka svo um munar. Staðreyndin er sem sagt þessi; þó hún fari í maga með vatni má hún sín einskis, en ef hún fer með andardrætti í lungun er hætta á ferðum. En það er ástæða fyrir því að enn og aftur er fjallað um legíónellu hér er að sí og æ er verið að finna nýjar varnir gegn henni, ekki síst í þeim löndum þar sem hún er skæðust. Og það kanna að virka sem þversögn þegar sagt er að hún er skæðust á sjúkrahúsum, þar þarf helst að varast hana. Hún tekur sér oft bústað í heita vatninu, eða réttara sagt í leiðslunum og getur dafnað þar og fjölgað sér við viss skilyrði. Tæplega þarf að óttast hana í heimahúsum vegna þess hvað heita vatnið hjá okkur er heitt, nánast alltaf yfir 70°C. Þó er þar að verða breyting á því þeim fjölgar sem ekki vilja hafa kranavatnið svo heitt og talsvert er um að húsbyggjendur láti setja varmaskipta í sín hús til að fá ekki hitaveituvatn í kranana. Þá er kalt vatn hitað upp með hitaveituvatni, stundum ekki meira en upp í 50 – 60°C og þá fer það að nálgast að vera lífvænlegt fyrir legíónellu.Hennar kjörhiti er 37°C en hún getur sem best lifað og jafnvel fjölgað sér í vatni frá 20°C upp í 50°C.
En hvernig kemst hún í lungun og af hverju er hún varasömust á sjúkrahúsum? Hún kemst helst í lungun þegar farið er í sturtu ef menn anda að sér fínum vatnsúða. Vegna þessarar hættu hafa framleiðendur sturtubúnaðar dregið úr eða hætt framleiðslu á örfínum sturtuhausum sem sundra baðvatninu í örsmáa dropa, þess vegna er „ömmuhausinn“ grófi orðinn vinsælastur aftur. Á sjúkrahúsum er reynt að halda vatnshita frekar lágum til að fólk skaði sig ekki og þar eru að sjálfsögðu þeir sem eru veikastir fyrir, það getur skipt sköpum.

En þetta allt er nú aðeins formáli að því sem hér átti að kynna. Það merka fyrirtæki Tour & Andersson í Svíþjóð þekkja flestir lagnamenn, þaðan hefur komið úrvalsvara, aðallega ventlar og mælitæki. Nú er komið þaðan nýtt tæki, legíónellubani. Þetta er tæki sem er sett á inntak neysluvatns og vinnur ekki beint á bakteríunni heldur eyðileggur „hagann“ og drepur hana úr hor. Í öllu vatni eru margskonar efni og í öllum leiðslum myndast lífræn himna innan í rör og rörahluta. Það er vitað að þetta gerist enn frekar í plastleiðslum en þó í málmleiðslum einnig. Þetta nýja tæki frá T & A vinnur þannig á vatninu að þessi lífræna himna myndast ekki í rörunum. Og þar með er ekki lengur um tún og engi að ræða fyrir legíónelluna, bakteríur þurfa svo sannarlega að afla sér ætis eins og aðrar lifandi verur. Hafi hún komist inn í kerfið verður henni ekki langra lífdaga auðið og getur hún þar með ekki aukið kyn sitt.

Þetta tæki er kjörið til að setja á vatnsinntök sjúkrahúsa og stofnana þar sem hætta er á að þetta kvikindi geti komist inn og fjölgað sér og þar sem fjölmargt fólk með skert ónæmiskerfi getur orðið fórnarlömb.

Tækið er til í tveimur stærðum, annars vegar stóra tækið fyrir stofnanir, það getur afkastað 25 rúmmetrum af vatni á klukkustund, og hinsvegar það litla sem afkastar 5 rúmmetrum.

Veikindi af völdum legíónellu voru fyrst skilgreind í Fíladelfíu í Bandaríkjunum árið 1976, en legíónella hefur eflaust valdið mörgum dauðsföllum áður og þá hefur það verið skilgreint sem einhverskonar inflúensa. Í Fíladelfíu sýktust á einu bretti 182 einstaklingar, flestir uppgjafahermenn á ráðstefnu á hóteli, en þó nokkrir veiktust einnig sem í sakleysi sínu gengu fram hjá hótelinu. Þess vegna var þessi veiki í upphafi kölluð hermannaveiki og um 15% þeirra sem þarna veiktust dóu.

En hvers vegna veiktust einhverjir sem gengu eftir gangstéttinni fyrir framan hótelið? Það kom í ljós að bakterían lifði í loftræsikerfinu sem var með rakagjafa. Þar fann legíónellan kjöraðstæður til lífs og tímgunar. Tók sér síðan far með loftinu sem úr kerfinu kom og í lungu viðstaddra. Útblástur kerfisins var beint yfir gangstéttinni þar sem fólk kom og fór eða gekk framhjá og það andaði að sér loftinu og því sem það flutti, þessum örsmáu kvikindum sem elska lungu.                                  

Fleira áhugavert: