Fjársjóðaleit Líbýa – Bretar, Gaddafi, sagan

Grein/Linkur:  Olíulindir Salómons konungs

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Október 2009

Olíulindir Salómons konungs

Enn eru Evrópumenn í fjársjóðsleit í Afríku. Og enn er miklu kostað til í því skyni að komast í fjársjóðinn. Hvorki réttlætið né samviskan eru látin standa í vegi fyrir því að Vesturlönd geti svalað þorsta sínum eftir olíu og gasi.

Lockerbie_flight_2

Lockerbie_flight

Stutt er síðan bresk dómsmálayfirvöld ákváðu að sleppa Líbýumanninum Abdelbaset Al Megrahi, sem dæmdur hafði verið fyrir að sprengja risaþotu Pan Am hátt yfir Skotlandi þann 21. desember 1988. Þar fórust alls 270 manneskjur. Margir munu hafa látist nær samstundis við sprenginguna, þegar loftþrýstingurinn féll svo snögglega að fólk sogaðist út og lungu þess féllu saman. Aftur á móti er talið að þeir sem voru með öryggisbeltin spennt hafi margir hverjir rankað við sér þegar þeir hröpuðu niður og súrefnið jókst. Fólk á jörðu niðri vitnaði meira að segja um að einhverjir hefðu verið með lífmarki eftir að hafa skollið á jörðinni eftir rúmlega 10 km fall. Fullorðnir og börn lágu eins og hráviði á við og dreif þar sem þau féllu niður við skoska bæinn Lockerbie. Rannsóknarskýrslurnar eru vægast sagt óhugarleg lesning.

Al Megrahi  var framseldur frá Líbýu 1999 í kjölfar viðskiptabanns sem var á góðri leið með að senda Líbýumenn aftur á steinöld. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir aðild sína að tilræðinu. En fyrir örfáum vikum var Al Megrahi skyndilega látinn laus af mannúðarástæðum (compassionate grounds). Var sagður dauðvona af krabbameini. Það er svo væntanlega bara rosaleg tilviljun að um sama leyti gekk Líbýustjórn frá risastórum olíu- og gasvinnslusamningum við bæði breska BP og bresk-hollenska Shell.

UK_OIL_1970-2020

UK_OIL_1970-2020

Bretum er kannski vorkunn. Gamla stórveldið er á brauðfótum. Olían þeirra og gasið í Norðursjó er á hraðri niðurleið og ekki verður gaman að þurfa að stunda olíu- og gaskapphlaup í framtíðinni við Kína, Bandaríkin, Þýskaland, Ítalíu, Indland…

Með samningi Líbýu við Shell er tryggt að næstu árin munu tanksskip streyma í röðum frá gamla fiskiþorpinu Brega  á Miðjarðarhafsströnd Líbýu, hlaðin fljótandi gasi. Gasið kemur úr risalindunum Marsa el-Brega á hinu ævintýralega Sirte-svæði og er ætlað að vera hlekkur í framtíðarorkukeðju Bretlandseyja og knýja breskt efnahagslíf.

Búist er við að Shell muni setja 20 milljarða dollara í svæðið á næstu árum og fá afar góðan arð af þeirri ljúfu fjárfestingu. Þessi niðurstaða fær auðvitað „snillingana“ í bæði Whitehall og City til að brosa út að eyrum. Enda mikilvægt að gamla breska ljónið geti ornað sér á elliheimilinu þegar ævafornar stórveldisminningarnar eru ekki nóg til að halda hita á kvikyndinu.

Gaddafi_uniform_Rome_June_2009

Gaddafi_uniform_Rome_June_2009

Þessi samningur Shell við Gaddafi  hershöfðingja og félaga hans er ekki eini risasamningurinn sem gerir Bretana káta þessa dagana. Einnig BP var að ganga frá æpandi olíusamningi við Líbýumenn. Blekið á þeim snotra samningi var varla þornað á pappírnum þegar líbýski sprengjumaðurinn lenti heima í Trípólí.

Risalindirnar sem BP fær nú aðgang að eru líka á Sirte-svæðinu  í nágrenni hafnarborgarinnar Bengazi í norðanverðri Líbýu. Þaðan liggja lindirnar bæði úti á landgrunninu og langt inn undir fastalandið og af nógu að taka. Þetta verður einhver allra stærsta fjárfesting BP og þeir Tony Hayward  (forstjóri BP) og félagar eru strax stokknir berfættir útí sjóinn skríkjandi af kæti – enda sandurinn 50 stiga heitur.

Það er sem sagt búið að tryggja að líbýskt gas og líbýsk olía flæði hindrunarlaust til hins gamla stórveldis Betu Bretadrottningar næstu árin og jafnvel áratugina. Hvað Gaddafi og kumpánar hans ætla að gera við aurana veit enginn – nema kannski þeir sem taka við pöntunum í nýjar herflugvélar og eldflaugakerfi. Þó aldrei að vita nema líbýska þjóðin fái að njóta góðs af. Ekki veitir af; atvinnuleysi í Líbýu er hroðalegt (meira en 20%) og líbýskur almenningur almennt þjáður af verulegri fátækt. Þó svo ofsalegar olíulindir Líbýu ættu auðveldlega að geta gert þessar 6,5 milljónir íbúa að einhverri efnuðustu þjóð veraldar.

Africa_Oil_Reserves_2009

Africa_Oil_Reserves_2009

Sem kunnugt er, varð Obama ekki par kátur þegar hann og aðrir í Washington DC fréttu af lausn sprengjumannsins frá Líbýu. Enda fórust 190 Bandaríkjamenn þegar þotan sprakk 31 þúsund fetum yfir Lockerbie, í þann mund sem hún var að beygja til vesturs í átt til New York. Reyndar kann raunveruleg ástæða fyrir megnri óánægju bandarískra stjórnvalda að vera af allt öðrum toga en minning fórnarlamba Flugs 103. Það er nefnilega svo að gaslindirnar við Marsa el-Brega voru i höndum bandarískra olíufélaga allan 7. og 8. áratuginn. Þegar Gaddafi hrifsaði völdin 1969 var hann snöggur að þjóðnýta olíuiðnaðinn í landinu og upp úr því misstu bandarísku félögin hverja lindina af fætur annarri.

Libya_Sirte_basin

Libya_Sirte_basin

Þetta hefur ExxonMobil og félögum þótt heldur súrt, enda eru Sirte-lindirnar meðal hinna stærstu í heiminum. Þær eru sagðar hafa að geyma meira en 40 milljarða tunna af sannreyndri olíu (proven reserves)! Til samanburðar er áætlað að sambærilegt magn í gjörvöllum Bandaríkjunum sé einungis sem nemur helmingi af þessu. Það var því ekkert sérstaklega skemmtilegt fyrir bandarísku félögin að sjá hin evrópsku Shell og BP tryggja sér aðganginn að Sirte. Það svíður enn meira að hugsa til þess að þarna er hægt að skella borpöllum rétt utan við ströndina á sáralitlu dýpi – gumsið er bæði mikið OG aðgengilegt.

Svona risasamningar verða auðvitað ekki til bara upp úr þurru. Bæði Shell og BP hafa staðið í stífum samningaviðræðum við Líbýumenn síðustu 4-5 árin. Reyndar er talað um að heilinn á bak við dílinn sé „félagið“ Blair Petroleum. Það er nefnilega sjarmörinn Tony Blair  sem á stærsta heiðurinn af því að samningarnir tókust. Hann hefur verið óþreytandi við að taka flugstrætóinn til Trípólí og setið þar langdvölum í bedúínatjaldinu hjá Gaddafi. Blaðrandi, brosandi og smjaðrandi.

Blair_Gaddafi_1

Blair_Gaddafi

Bæði stjórnendur Shell og BP hljóta að vera stráknum Tony ævarandi þakklátir fyrir þennan ljúfa greiða. Sem hefur líklega tryggt þeim öllum dágóðan kaupauka til framtíðar. Í huga annarra eru þeir silfurpeningar litaðir blóði fólksins sem fórst með Pan Am risaþotunni.

Þetta er kannski ekkert undarleg forgangsröðum hjá breskum stjórnvöldum. Allt í veröld okkar er drifið áfram af olíu. Eins og Andri Snær minnti okkur vel á í fyrrakvöld í hinum stórgóða þætti; Kiljunni. Olían stjórnar leikriti mannkyns. Það er ekkert flóknara.

Fleira áhugavert: