Álverið Bakka – Sagan, orkan, skammsýni?

Heimild: 

.

Nóvember 2010

Porter og skammsýnir Alþingismenn

Álit Skipulagsstofnunar birtist um mat á umhverfisáhrifum álvers á Bakka við Húsavík ásamt tilheyrandi virkjunum við Þeistareyki og Kröflu og háspennulínum. Niðurstaða Skipulagsstofnunar var m.a. sú að mikil óvissa sé um það hvort fyrirhugaðar jarðhitavirkjanir vegna álversins verði innan marka sjálfbærni.

Að baki þessu umhverfismati eru áætlanir um að reisa allt að 346 þúsund tonna álver á Bakka. Eigi þau áform að ganga eftir þarf orkuver með samtals u.þ.b. 570-580 MW afl. Umhverfismatið sem nú hefur farið fram miðaði að því að sýna fram á að þarna séu fyrir hendi 440 MW (Kröfluvirkjun II með 150 MW og Þeistareykjavirkjun með 200 MW, auk þess sem nú þegar liggur fyrir að Bjarnarflagsvirkjun verði 90 MW). Þessi 440 MW áttu að nægja álbræðslu með ca. 270 þúsund tonna framleiðslugetu. Hugmyndin var svo að þau nettu 135-140 MW sem uppá vantar til að unnt verði að byggja álverið í fullri stærð komi frá öðrum virkjunum

En nú liggur fyrir það álit Skipulagsstofnunar að ekki hafi verið sýnt fram á að Kröfluvirkjun II og Þeistareykjavirkjun geti skilað þeirri orku sem haldið hefur verið fram. Eða eins og segir í áliti Skipulagsstofnunar: „Ljóst er að engin vinnslusaga er til staðar á Þeistareykjasvæðinu og þrátt fyrir 30 ára reynslu af vinnslu jarðhita á Kröflusvæðinu með yfir 40 borholum hefur ekki tekist að útbúa reiknilíkan sem hermir jarðhitakerfið af einhverri nákvæmni vegna þess hve flókið kerfið er.“

bakki-alver-umhverfismat-2.png

bakki-alver-umhverfismat ..SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Það er sem sagt óvíst hversu mikil virkjanleg orka er þarna fyrir hendi. Verði farið í virkjanauppbyggingu með þeim hætti að byggja 150 MW virkjun við Kröflu (Krafla II) og 200 MW virkjun á Þeistareykjum, eru að mati Skipulagsstofnunar meiri líkur en minni á að orkuvinnslan verði ágeng. Sem þýðir að brátt kæmi að því, að ekki yrði unnt að viðhalda raforkuframleiðslunni á svæðunum. Það myndi hafa í för með sér hnignun jarðvarmasvæðanna við Kröflu og Þeistareyki og að leita þyrfti á ný svæði til að útvega álverinu raforku.

Framkvæmdin er samkvæmt þessu ekki ennþá fullhugsuð og því væri glapræði að fara að byggja álver á Bakka nú. Fyrst þurfa að fara fram meiri rannsóknir á umræddum jarðvarmasvæðum, svo menn viti hversu mikil virkjanleg orka er þarna í reynd og hversu hratt unnt er að virkja þá orku. Þannig að ekki sé gengið of nærri auðlindinni.

lv-ha_haust-2010_na-land.png

lv-ha_haust-2010_na-land

Jafnvel þó svo gríðarleg orka kunni að vera á svæðinu eru jarðvarmasvæði þess eðlis að það verður að fara varlega að þeim. Að öðrum kosti er hætt við ofnýtingu og að svæðið skili ekki þeirri stöðugu orku sem álverið þyrfti næstu áratugina.

Þetta er einmitt ein helsta ástæða þess að Landsvirkjun hefur ekki ennþá viljað skuldbinda sig til að afhenda orku handa álbræðslu við Húsavík. Þess í stað hefur fyrirtækið sagt að það geti samþykkt að sýna bestu viðleitni til að finna orkuna. Þetta viðhorf hefur t.a.m. komið mjög skýrt fram í nokkrum kynningum Landsvirkjunar á árinu sem er að líða (2010). M.a. á haustfundi fyrirtækisins snemma núna í nóvember. Þar útskýrði forstjóri Landsvirkjunar með skýrum og einföldum hætti hvernig uppbygging virkjana á jarðhitasvæðunum á NA-landi þurfi að fara fram í mörgum skrefum. Þar sem hvert skref verði helst alls ekki meira en 50-100 MW.

En það eru ekki allir sem eru sáttir við svona raunsæja stefnu og vísindalegar staðreyndir. Allra síst sumir íslenskir stjórnmálamenn. Fyrir fáeinum vikum lögðu hvorki meira né minna en 26 þingmenn fram tillögu á Alþingi, þar sem gert er ráð fyrir því að ríkisstjórnin grípi fram fyrir hendur Landsvirkjunar og ljúki samningum um byggingu álvers við Húsavík. Þessi þingsályktunartillaga kom fram snemma í október og þar segir: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar viðræður við Alcoa á Íslandi og kínverska álfyrirtækið Bosai Mineral Group (BMG) með það að markmiði að ljúka samningum um uppbyggingu orkufreks iðnaðar við Húsavík…“

krafla_geothermal_power_station_2_1044831.jpg

krafla_geothermal_power_station

Í greinargerð með þessari tillögu þingmannanna eru svo leidd rök að því að nóg sé af orku á svæðinu fyrir álver. Þar segir t.a.m. orðrétt [leturbreyting er Orkubloggarans]: Mikil orka finnst á svæðinu og hefur það komið fram í svörum við fyrirspurnum hér á Alþingi… að varlega áætlað séu virkjanleg um 600 MW í Þingeyjarsýslum. Rannsóknir eru hins vegar alltaf að batna og Þeistareykjasvæðið er nú talið öflugra en áður.“

Samkvæmt þessu virðast umræddir 26 þingmenn álíta borðleggjandi að virkja megi 600 MW í Þingeyjarsýslum og að sú tala sé jafnvel varlega áætluð. M.ö.o. að þarna sé jafnvel ennþá meiri virkjanleg orka. Og þess vegna engin ástæða til að staldra við, heldur barrrasta ljúka samningum um uppbyggingu álvers á Bakka. Slíkir samningar þýða auðvitað að samið yrði um afhendingu orkunnar á tilteknum tíma og að Landsvirkjun tæki á sig þá skuldbindingu. Fólk getur svo ímyndað sér hvað myndi gerast ef Landsvirkjun næði ekki að útvega orkuna á áætluðum tíma! Bótakrafa Alcoa eða annars eiganda álversins gæti jafnvel slegið út Icesave-upphæðina.

theistareykir-2.jpg

theistareykir

Fyrri umræða um þessa þingsályktunartillögu fór fram þann 11. nóvember s.l. – eða um viku eftir að svo skilmerkilega var útskýrt á haustfundi Landsvirkjunar að fara þurfi varlega í að lofa orku frá svæðinu. Ekki virðast þingmenn hafa áhyggjur af svoleiðis smámunum. Í umræðum um þingsályktunartillöguna má finna ýmis athyglisverð ummæli. Eins og t.d. að „gerð hafi verið góð grein fyrir um 440 megavöttum í Þingeyjarsýslum“ [ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar]. Annar þingmaður bætti við: „Það er mikil orka í iðrum jarðar á þessu svæði og enda þótt menn greini á um það held ég að ljóst sé að sú orka í megavöttum sem komin er í gegnum skipulagsferlið sé um 525 megavött“ [ummæli Sigmundar Ernis Rúnarssonar].

Eitthvað er brenglað við þekkingu umræddra þingmanna. Og það var ekki nóg með að þingmenn fullyrtu að þarna séu 440, 525 eða jafnvel 600 MW tiltæk fyrir stóriðju. Einn þeirra bætti um betur og skammaðist útí Landsvirkjun fyrir að vilja ekki lofa orku. Sagði það vera „algerlega ljóst að Landsvirkjun leikur lausum hala og fer þvert á stefnu stjórnvalda“ – og spurði „hvort stjórnvöld ætli að láta Landsvirkjun algjörlega óáreitta í þessari stefnu sinni eða hvort til standi að stjórnvöld, sem eigendur, skipti sér af að því hvaða stefnu fyrirtækið taki“ [ummæli Tryggva Þórs Herbertssonar].

althingi-vetur.jpg

althingi-vetur

Já – þingmönnum þótti einkennilegt að Landsvirkjun væri ekki tilbúin að skuldbinda sig til að afhenda orku sí sona. Og þeir gefa bersýnilega lítið fyrir það sjónarmið að skynsamlegt sé að kanna fyrst hvort orkan sé örugglega til staðar. Virðist þar engu skipta þó það sé alkunn staðreynd að erfitt eða jafnvel útilokað er að áætla nákvæmlega virkjanlega orku á jarðvarmasvæðum eins og við Kröflu eða Þeistareyki, nema hægt og sígandi með rólegri uppbyggingu. Væntanlega munu þingmennirnir nú skammast útí niðurstöðu Skipulagsstofnunar, sem nú hefur sagt hæpið að virkjanirnar geti staðið undir jafn mikilli raforkuframleiðslu eins og sumir hafa viljað halda fram.

Þetta er hið einkennilegasta mál. Það hlýtur hver maður að sjá að það væri algerlega galið ef Landsvirkjun færi að lofa orku, sem kannski er ekki fyrir hendi. Jafnvel þingmenn ættu að skilja þetta! Menn verða að horfa á staðreyndir málsins og ekki láta byggðastefnuna og atkvæðaveiðarnar gjörsamlega blinda sig. Álver verður ekki byggt við Húsavík fyrr en öllum efa hefur verið eytt um orkuöflunina. Taka þarf hvern virkjunarkost fyrir sig, rannsaka hann betur og virkja svæðið smám saman. Líklega best í u.þ.b. 50 MW skrefum. Þetta eiga menn að viðurkenna í stað þess að tala eins og álfar og segja að Landsvirkjun „leiki lausum hala“.

Þetta er satt að segja grafalvarlegt mál. Það er líka alveg sérstaklega athyglisvert, að hvergi í umræddri þingsályktunartillögu, greinargerð með henni né í ræðum þingmanna er einu orði minnst á arðsemi framkvæmdanna! Hvergi er minnst á mikilvægi þess að raforkusala til álversins þurfa að skila tilteknum arði. Ekki eitt orð.

porter-haskolabio-1nov-2010.jpg

porter-haskolabio-1nov-2010

Það leiðir hugann að því að nýverið var prófessor Michael Porter hér á Íslandi og flutti þá erindi á ráðstefnu um jarðvarmageirann. Þar fjallaði Porter m.a. um gríðarlegt mikilvægi þess að Íslendingar kanni vel hvernig fá megi sem mestan arð af nýtingu raforkunnar. Í erindi sínu varaði Porter við því að Íslendingar selji ennþá meiri raforku til álvera. Hann álítur álverin hér mikilvæga stoð í efnahagslífinu, en að tímabært sé að huga að öðrum möguleikum. Möguleikum sem séu líklegir til að skila mun betri arðsemi og meiri þjóðhagslegum ávinningi heldur en álverin gera.

Porter gagnrýndi það sérstaklega að hér skuli ekki hafa verið gerður almennilegur samanburður á mismunandi kostum í orkufrekum iðnaði. Hvergi er t.d. að finna úttekt eða aðgengilegar upplýsingar í íslenska stjórnkerfinu um það hvort ný gagnaver eða nýtt álver skili þjóðarbúinu meiri arði. Porter undraðist þetta mjög. Hann lýsti einnig eftir opinberri orkustefnu. Þar sé um að ræða afar þýðingarmikið mál – bæði fyrir stjórnvöld og þjóðina alla. Slík langtímastefna sé ekki síður mikilvæg fyrir erlend fyrirtæki og fjárfesta til að auðvelda þeim að átta sig á því að Ísland sé áhugaverður fjarfestingakostur. Skýr langtímastefna í orkumálum á Íslandi sé m.ö.o. lykillinn að því að vekja áhuga nýrra iðngreina á Íslandi og þannig skapa hér meiri fjölbreytni í atvinnulífi og auka arðsemi í raforkusölunni.

icesave_clear-difference_1044833.jpg

icesave_clear-difference

Nú er Michael Porter auðvitað ekki óskeikull fremur en aðrir menn. En þessar ábendingar hans eru allrar athygli verðar og kannski upplagt að flutningsmenn áðurnefndrar þingsályktunartillögu kynni sér sjónarmið Porter's. Minnumst þess að árið 2006 varaði hann við ofþenslu í íslenska hagkerfinu. Ekki sá ríkisstjórnin eða meirihluti Alþingis ástæðu til að bregðast við þeim varnaðarorðum. Þess í stað horfðu menn þegjandi upp á bankakerfið halda áfram að blása í blöðruna og leyfðu henni áfram að þenjast út með dyggri aðstoð opinberra stofnana eins og Seðlabankans og Íbúðalánasjóðs.

Kannski finnst sumum Alþingismönnum okkar heldur engin ástæða til að bregðast við ábendingum Porter í þetta sinn. Ábendingum hans um að varast of mikla áherslu á álbræðslur. Margir þingmanna virðast vilja keyra á fullt í enn eitt álverið án þess að skoða af alvöru hvað skynsamlegast sé fyrir íslensku þjóðina að nota orkuna í. Þeir vilja ekki einu sinni byrja á því að ganga almennilega úr skugga um það hvort nóg orka er fyrir hendi handa álverinu. Bara æða af stað. Er Alþingismönnum gjörsamlega ómögulegt að hugsa lengra en fram að næstu kosningum?

Fleira áhugavert: