Sagan, spá olíukreppu – Gas, sólarorka

Grein/Linkur:  Carter, Chris og Hirsch

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

September 2009

Carter, Chris og Hirsch

cartoon_oil-economy.jpg

cartoon_oil-economy- SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Bölmóðarnir segja okkur að alvarleg olíukreppa sé handan við hornið. Alveg að bresta á. Jafnvel innan 5 ára, kannski innan 10 ára og örugglega innan 20 ára.

Okkur er sagt að sá tímapunktur sé að renna upp að olíuframleiðsla muni ekki lengur geta annað eftirspurninni. Allar stærstu olíulindirnar séu að komast á hnignunarstigið og ekki hafi tekist að finna nógu margar smærri lindir til að fylla upp í skarðið. Þess vegna sé ójafnvægi óumflýjanlegt. Og þá muni olíuverðið rjúka upp – með skelfilegum afleiðingum fyrir efnahagslífið allt og kaupmáttur almennings hrynja. Peak Oil í seinni dekkstu mynd.

Það er sossem ekkert nýtt að menn álíti olíuna vera á þrotum. Yfirvofandi endalokum olíuvinnslu hefur verið spáð allt frá því skömmu eftir að olíuöldin byrjaði fyrir meira en hundrað árum! Þessi grýla hefur rumskað reglulega. Spár um yfirvofandi Peak Oil hafa þó aldrei verið jafn áberandi eins og núna, enda þykir mörgum óvenjusterkar vísbendingar um að við séum komin upp á framboðs-hásléttuna og héðan af hljóti leiðin að liggja niður við.

carter-bw.jpg

carter

En þó svo sjaldan hafi meira verið talað um Peak Oil en einmitt allra síðustu árin, má samt segja að hápunktinum í slíkum dómsdagsspám hafi verið náð strax á áttunda áratug liðinnar aldar! Þegar sjálfur forseti Bandaríkjanna birtist ítrekað á sjóvarpsskjáum allra landsmanna þar í Westrinu og boðaði að brátt myndu skelfilegar afleiðingar olíuskorts steypast yfir bandarísku þjóðina.

Jamm – það var blessaður ljúflingurinn Jimmy Carter sem þar var á ferð. Í huga Orkubloggarans, sem einmitt byrjaði 13 ára gamall að fylgjast með orkumálum í tengslum við „litlu orkukreppuna“ í lok 8. áratugarins og valdatöku Klerkanna í Íran, standa tvær ræður hnetubóndans góða þarna upp úr. Þær eru að mati bloggarans ævarandi áminning þess að maður á að fara varlega í spádóma og gæta hófs.

Fyrri af umræddum ræðum Carter er frá 18. apríl 1977. Þar sagði forsetinn m.a. eftirfarandi (leturbreyting er Orkubloggarans): „Tonight I want to have an unpleasant talk with you about a problem that is unprecedented in our history. With the exception of preventing war, this is the greatest challenge that our country will face during our lifetime. The energy crisis has not yet overwhelmed us, but it will if we do not act quickly. It's a problem that we will not be able to solve in the next few years, and its likely to get progressively worse through the rest of this century“ [þarna er vel að merkja átt við 20.öldina].

„The oil and natural gas that we rely on for 75 percent of our energy are simply running out… Unless profound changes are made to lower oil consumption, we now believe that early in the 1980 the world will be demanding more oil than it can produce. Inflation will soar; production will go down; people will lose their jobs. Intense competition for oil will build up among nations and also among the different regions within our own country. This has already started.“

carter-time-cover-1979.jpg

carter-time-cover-1979

Sem sagt allt að fara fjandans til vestur í Bandaríkjunum árið 1977. Ekki nóg með að ýjað sé að milliríkjaátökum, heldur jafnvel líka borgarastyrjöld innan Bandaríkjanna. Vegna olíuskorts.

Sérstaklega er athyglisvert að þarna lýsti sjálfur forseti Bandaríkjanna þeirri skoðun sinni, að olíuframleiðsla heimsins myndi ná endanlegu hámarki snemma á 9. áratugnum (early in the 1980's). Þessi orð voru sögð árið 1977 og það ár framleiddi veröldin um 60 milljón olíutunnur á dag. Núna næstum þrjátíu árum eftir að framleiðslan átti skv. Carter senn að ná hámarki, eru framleiddar um 85 milljón tunnur á dag (þar af um 72 milljón tunnur af hráolíu, en afgangurinn er aðallega NGL). Framleiðslan núna er sem sagt samtals rúmlega 40% meiri en þegar Carter fullyrti að toppurinn væri að bresta á.

Þetta var m.ö.o. bull hjá Bandaríkjaforseta. En við megum samt ekki gleyma því að Carter meinti vel. Hann vildi stórauka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og þessi dökka mynd hafði kannski bara þann tilgang að afla tillögum hans um græna orkubyltingu stuðnings meðal þjóðar og þings. Sólarsellur voru settar á Hvíta húsið og fyrstu speglasólarorkuverin (CSP) byggð í Mojave-eyðimörkinni fyrir tilstilli almannafjár. En þessi tækni gat ekki keppt við lágt olíuverð og allt hrundi þetta og svaf svo værum svefni í um þrjátíu ár – allt þar til Washington komst aftur á þá skoðun að græn orka væri góð. Með kjöri Barack Obama sem forseta.

carter-_crisis_of_confidence_speech.jpg

carter-_crisis_of_confidence_speech

Ekki síður áhugaverð er önnur sjónavarpsræða Carter's, sem hann flutti tveimur árum síðar (15. júlí 1979 – sú ræða er reyndar miklu frægari en sú sem nefnd var hér að ofan og oftast nefnd The Crisis of Confidence Speech). Þar sagði Carter m.a. eftirfarandi – og kreppti hnefann svolítið hallærislega orðum sínum til áhersluauka (leturbreyting er sem fyrr Orkubloggarans):

The energy crisis is real. It is worldwide. It is a clear and present danger to our Nation… Beginning this moment, this Nation will never use more foreign oil than we did in 1977 – never. The generation-long growth in our dependence on foreign oil will be stopped dead in its tracks right now and then reversed as we move through the  for I am tonight setting the further goal of cutting our dependence on foreign oil by one-half by the end of the next decade – a saving of over 4 1/2 million barrels of imported oil per day. To ensure that we meet these targets, I will use my Presidential authority to set import quotas. I'm announcing tonight that for 1979 and 1980, I will forbid the entry into this country of one drop of foreign oil more than these goals allow“ [sjá u.þ.b. 20. mínútu ávarpsins og áfram].

us_oil_imports_1910-2010.jpg

us_oil_imports_1910-2010

Það fór reyndar svo að næstu árin snarminnkaði olíuinnflutningur Bandaríkjanna. Það fór meira að segja svo að árið 1985 fluttu Bandaríkin einungis inn rétt rúmlega 3 milljón tunnur af olíu pr. dag! En það gerðist ekki vegna afskipta Carter-stjórnarinnar – sem hafði orðið að víkja fyrir hernaðarmaskínu og Stjörnustríðsáætlunum Reagan Samdrátturinn varð vegna þess að sífellt meiri olía barst frá nýju vinnslusvæðunum í Alaska og innflutningsþörfin minnkaði líka vegna heldur slapprar stöðu í efnahagslífinu.

En olíuverðið hrapaði líka. OPEC missti öll tök á að stýra olíuframboði og eftir 1980 lækkaði olíuverð jafnt og þétt. Loks kom að því að olíueftirspurn í Bandaríkjunum vaknaði á ný og loksins árið 1993 fluttu Bandaríkin inn jafnmikið af olíu eins og verið hafði 1979, sem var um 6,5 milljón tunnur pr. dag (og þess vegna algjörlega óskiljanlegt hvað Carter var að þvaðra um að 50% samdráttur í olíuinnflutningi myndi jafngilda 4,5 milljón tunnum, en það er önnur saga).

oildrowning_1029672.jpg

oildrowning

En þrátt fyrir að eftirspurnin ykist á ný hélt sjálft olíuverðið áfram að lækka. Á umræddu ári 1993, þegar olíuinnflutningur Bandaríkjanna hafði loks aftur náð því sama sem hann var 1979, var olíuverð einungis þriðjungur af raunvirði þess sem það hafði verið 1979, þegar Carter spáði öllu fjandans til.

Og olían hélt áfram að lækka í verði; undir aldamótin 2000 var sullið nánast orðið ókeypis! Enda voru sumir farnir að halda að jörðin hreinlega sykki í allt olíusullið sem streymdi á markaðinn.

Frægt varð þegar tímaritið Economist talaði um það árið 1999 að heimurinn væri að drukkna í olíu. Loksins um aldamótin kom að því að olíuverð fór að skríða upp á við á ný – eftir nánast tuttugu ára samfellt lækkunartímabil! Það var svo á árunum 2004-05 sem verðstíflan brast, enda fór þá saman mikill efnahagsuppgangur í Bandaríkjunum OG geggjunin í Kína. Auk þess sem spákaupmennskan varð yfirgengileg.

Um dökka spá Carter's árið 1979 er sem sagt með góðu móti hægt að segja að hún kolféll. Nema hún sé loksins að rætast núna meira en 30 árum síðar! En það telst varla mjög nákvæm spá.

us_oil_production_and_imports_1920-2005.png

us_oil_production_and_imports_1920-2005

Kannski má samt segja að það hefði verið gott fyrir Bandaríkin að byrja strax 1979 að vinna að því að verða orkusjálfstæðara land. En hvað sem því líður – spádómarnir um að olíuframleiðsla væri komin á krítískan punkt árið 1979 og að olíuverð myndi rjúka upp voru einfaldlega alrangir. Og í huga Orkubloggarans klingja nú bjöllur um að dökku spárnar núna séu svolítið af sama toga – eins og var hjá Carter fyrir meira en 30 árum. Að óttast sífellt hið versta og vanmeta jafnvægisleitnina í efnahagslífinu. Mun kannski heimurinn sjá það árið 2040 að svartsýnisrausið í sumum árið 2010 hafi hreinlega verið hlægilegt?

Í dag flytja Bandaríkin inn um 9 milljón tunnur af olíu á dag (var um 10 milljón tunnur í góðærinu 2007). Á þeim tíma sem liðinn er frá volæðisræðu Carter's árið 1979 hefur olíuverð vissulega hækkað umtalsvert og Bandaríkin þurft að flytja sífellt meira inn af olíu. Samt hefur aldrei borið á olíuskorti eða ónógu framboði. Markaðslögmálin hafa alltaf að mestu virkað og olíuframboð og eftirspurn verið í þokkaleg jafnvægi.

Eins og dyggir lesendur Orkubloggsins vita, er Orkubloggarinn ekki í trúarhópi Peak-Oil-Bölmóðanna. Bloggarinn er á því að sáralítil hætta sé á alvarlegri olíukreppu (framboðsskorti) næstu áratugina. Fyrir því eru ýmis rök; það hægir á olíueftirspurn bæði í Bandaríkjunum og Evrópu vegna sparneytnari bíla og breytts neyslumynsturs, stórar olíulindir eru að finnast á svæðum sem lengst af hafa ekki verið álitleg vegna of lágs olíuverðs, miklir möguleikar eru á olíuvinnslu úr kolum og gasi o.s.frv.

EF hefðbundin olíuframleiðsla nær ekki að standa undir eftirspurninni munu myndast mjög sterkir fjárhagslegir hvatar til að vinna olíu úr olíusandinum (oil sand) í Venesúela, olíugrýtinu (oil shale) í Bandaríkjunum og að vinna olíu úr æpandi kolaauðlindum heimsins. Slík vinnsla mun leiða til þess að lengi enn verður unnt að fullnægja olíueftirspurn. Þó svo vissulega verði umhverfisáhrifin ferleg – en það er bara annað mál.

shale-gas-basins-usa.jpg

shale-gas-basins-usa

Þar að auki hefur gasframboð vaxið hratt undanfarin ár og fyrir vikið hefur gas lækkað í verði. Það mun líklega leiða til þess að við sjáum þróun í þá átt að gas leysi hluta olíunnar af hólmi í samgöngum. Loks mun olíuverð um eða yfir 70-90 dollurum gera margs konar lífmassaeldsneyti, metanól og DME hagkvæmt í framleiðslu, þ.a. enginn skortur verður á fljótandi kolvetniseldsneyti. Blessaðar kolvetniskeðjurnar!

Það eru sem sagt ýmsar ástæður fyrir því að það er einfaldlega ólíklegt – að mati Orkubloggarans – að alvöru olíu- eða orkukreppa skelli á heiminum á allra næstu áratugum. Vissulega munu geta myndast tímabundnar stíflur, eins og stundum áður, sem leiða til verulegra verðhækkana í smá tíma. En það er ekki það sama og raunverulegur langvarandi skortur á olíu.

Hvað svo sem Orkubloggarinn segir um framtíðina á olíumörkuðunum er auðvitað aðalatriði fyrir hvern einasta lesanda bloggsins að taka ekki nokkurt mark á því sem bloggarin segir um þróun olíuverðs í framtíðinni. Af því nobody knows nuthin! En mikið skelfing er hressandi að fá peak-oil-spá, sem er í reynd ekki bölsýnisspá heldur fyrst og fremst góðar ábendingar um hvað gæti gerst og að skynsamlegt sé að reyna að takmarka áhættu vegna erfiðleika sem kunna að vera framundan. Hógværa peak-oil spá!

chris-martenson-silfur-egils.png

chris-martenson-silfur-egil

Hér er Orkubloggarinn að vísa til viðtals við Christopher nokkurn Martenson í viðtali í Silfri Egils um síðustu helgi. Sérstaklega var ánægjulegt þegar Chris Martenson sagði orðrétt: Energy is everything! Hitti mig í hjartastað og er ennþá meyr og með tilfinningatár á hvarmi. Snöft.

Að vísu álítur Orkubloggarinn Chris vera á villigötum þegar hann segir að aldrei verði unnt að vinna meira en 90 milljón olíutunnur á dag í heiminum. Svona tala er útí bláinn. Það er aftur á móti sennilega alveg hárrétt hjá Chris Martenson að ef olíunotkun heldur áfram að aukast, er líklegt að smám saman muni draga úr útflutningi á olíu. Olíuútflutningsríkin munu sjálf þurfa æ stærri hlut af olíunni sinni og þá myndast verðþrýstingur. Upp á við. Þetta gæti valdið umtalsverðum verðhækkunum. Hugsanlega.

En Chris Martenson ætti að fara varlega í að spá orkukreppu e.h.t. á næstu tveimur áratugum, eins og hann virðist álíta eða a.m.k. gefur í skyn að sé sennilegt. Ekki má gleyma því að olíuverð var lengi alveg svakalega lágt miðað við hækkun kaupmáttar t.d. í Bandaríkjunum – allt þar til allra síðustu árin. Það var eiginlega orðið alveg nauðsynlegt að verðið hækkaði – eða a.m.k. afar logískt.

oil_deepwater_golden-triangle.gif

oil_deepwater_golden-triangle

Þetta hækkandi olíuverð síðustu árin er hvati til að fara í leit og vinnslu á svæðum sem allt fram yfir aldamótin 2000 voru álitin alltof dýr (m.v. þáverandi olíuverð). Það er t.d. eingöngu út af olíuverðhækkunum að menn hafa lagt útá Djúpið mikla.

Og þarna er af talsverðu að taka. Munum að ennþá er allt landgrunnið bæði vestan og austan Bandaríkjanna nánast ósnert. Og það sama á við um fjölmörg önnur svæði á jörðinni, sem eru álitleg olíusvæði. Olíuverð upp á t.d. 70-90 dollara tunnan til langframa skapar olíuiðnaðinum allt önnur skilyrði, heldur en þegar verðið var undir 30-40 dollurum, eins og almennt tíðkaðist allt þar til fyrir fáeinum árum. Haldist olíuverð í þessum hæðum mun það örugglega leiða til þess að nýjar olíulindir finnist á svæðum, sem aldrei hefði verið ráðist í að kanna meðan verðið var max. 40 USD.

Þar að auki er engan veginn víst að olíunotkun muni halda áfram að aukast eins og verið hefur; það er ekki víst að heimurinn þurfi sífellt að auka olíuneyslu sína. Jafnvel þó að energy sé everything. Núna eru t.d. komnar fram sterkar vísbendingar um að olíunotkun hafi náð hámarki í nokkrum löndum ESB. Og svo kann jafnvel líka að vera í Bandaríkjunum. Það gæti þýtt minnkandi eftirspurn eftir olíu – ekki vegna lítils framboðs heldur vegna breytinga á neyslumynstri.

Það er algerlega útilokað að spá með viti fyrir um það hvenær ekki verður lengur unnt að viðhalda olíuframboði. Alveg jafn gott að kasta upp teningi eins og hlusta á masið í „sérfræðingunum“ um þetta. Raunveruleikinn er sá að aldrei hefur orðið olíuskortur vegna þess að framleiðsla hafi ekki geta fylgt eftirspurn. Aldrei! Og þó svo það sé kannski freistandi að álykta sem svo, að þessi tímapunktur hljóti að nálgast með hverjum degi sem líður, er algerlega ómögulegt að fullyrða hvort hann renni upp á næsta ári, eftir 5 ár eða eftir 30 ár. Svo getur líka verið að þessi tímapunktur sé nú þegar að baki – að Peak Oil sé í reynd runnið upp í formi hámarkseftirspurnar – en að aldrei verði olíuskortur af því að heimurinn sé í reynd byrjaður á aðlögunarferli. Að olíueftirspurn minnki jafnvel hraðar en olíuframboð. Peak Oil Demand!

chris-martenson_energy-cliff_oil.png

chris-martenson_energy-cliff_oil

Jafnvel þrátt fyrir það hversu yfirgengilega mikil orka er notuð í olíuvinnslu nútímans, hefur gengið nokkurn veginn snurðulaust að útvega heiminum þá olíu sem hann þarf og vill. Þær olíukreppur sem einstaka sinnum hafa skollið á, hafa allar komið til vegna þess að framleiðendur hafa takmarkað framboðið eða að markaðurinn hafi fengið stresskast. En framleiðendur hafa aldrei lent í neinum erfiðleikum með að uppfylla þörf markaðarins, þegar vilji til þess hefur verið fyrir hendi. Það hefur alltaf verið næg olía í heiminum – stundum hefur hún bara ekki komist alveg nógu greiðlega á markaðinn.

Gerum samt ráð fyrir því að this-time-it's-different. Að Peak Oil sé að skella á. Eða sé jafnvel komið nú þegar. Að aldrei framar verði innt að framleiða jafn mikla olíu eins og síðustu árin (um 85 milljón tunnur á dag). Þarf það óhjákvæmilega valda stórkostlegum efnahagslegum hamförum?

Það er vissulega staðreynd að orkunotkun og hagvöxtur hafa haldist í hendur. Energy is everything! Þess vegna er óneitanlega freistandi að álykta sem svo að heimurinn geti ekki staðið undir hagvexti, nema sífellt meiri olía komi á markaðinn. En jafnvel þó svo orka sé undirstaða efnahagsvaxtar, verða menn að muna að það er enginn einn allsherjar orkugjafi. Mannkynið hefur gengið í gegnum viðarbrunaöld, kolaöld og olíuöld. Og nú blasir við að gasöld sé framundan. Kannski verður svo 22. öldin sólaröld, þar sem sólarorkan verður bæði notuð til að framleiða raforku og eldsneyti á samgöngutæki (t.d. úr þörungum).

carter_solar_panels.jpg

carter_solar_panels

Sólarorkuöldin mun endast ansið lengi. Í millitíðinni gæti jafnvel runnið upp touch af jarðhitaöld – ef djúpborunartækni og niðurdæling á vatni verður hagkvæm leið til orkuframleiðslu. Í reynd er líklegast að enginn einn orkugjafi verði allsráðandi í framtíðinni. Efnahagslífið mun nýta sér allt litróf orkugjafanna og aðlagast þeim breytingum sem kunna að verða vegna minna framboðs af sumum orkugjöfum og meira framboðs af öðrum.

Það er enginn dómsdagur að skella á okkur. Og það er fátt sem bendir til þess að raunverulegur olíuskortur verði meðan þessi aðlögun á sér stað. Ennþá er svo mikið eftir af kolvetniseldsneyti í jörðu að líklega verður öll 21. öldin sannkölluð kolvetnisöld. Þar mun gas líklega leika mun stærra hlutverk en verið hefur og olíuframleiðsla verða nægjanlega mikil til að standa undir olíueftirspurn – og það á viðráðanlegu verði. Við munum áfram af og til upplifa tímabil sem einkennast af orkukreppu. En spádómar um stórkostlegar efnahagshamfarir vegna orkuskorts eru spár sem byggja á veikum grunni, bölsýni og mikilli vantrú á getu mannsins til að aðlaga sig að breyttum aðstæðum.

Nebb – dómsdagsspárnar virðast barrrasta ekki geta ræst. Jafnvel þó þær komi úr munni valdamesta manns heimsins, sbr. ræður Carter's forseta sem nefndar voru hér fyrr í færslunni. En allt eru þetta bara spár – líka hjá Orkubloggaranum! Auðvitað gæti allt farið á versta veg – auðvitað er skynsamlegast að sýna ábyrgð og hæfilega fyrirhyggju.

Við eigum að sjálfsögðu ekki að leggjast í afneitun heldur undirbúa okkur fyrir morgundaginn. Það kann að verða sól og blíða – en það gæti líka skollið á blindbylur. Því má ekki gleyma og þess vegna hefði heimurinn í reynd strax átt að fara að ráðum Jimmy's Carter. Í stað þess að detta aftur í það um leið og „brennivínið“ varð ódýrt á 9. áratugnum, hefðum við átt að gæta hófs og leita að heilsusamlegri „drykkjum“. En þeir Reagan og Bush stöðvuðu allt slíkt með ofurvinsamlegri skattastefnu gagnvart olíuiðnaðinum. Þannig fór nú það.

james-schlesinger_time-cover_april-1977.jpg

james-schlesinger_time-cover_april-1977

Orkubloggarinn bíður nú spenntur eftir nýrri bók, sem kemur út eftir fáeina daga og er eftir fyrrum olíumálaráðgjafa sjálfs George W. Bush. Sá heitir Robert Hirsch, en Orkubloggið hefur einmitt áður sagt frá svartsýnum spádómum Hirsch.

Sjálfur orkumálaráðherra Carter-stjórnarinnar, James Schlesinger, skrifar formála að bókinni, sem bera mun titilinn Impending World Energy Mess. Hvíslað hefur verið að Orkubloggaranum að þarna sé dregin upp ófögur mynd af framtíðinni og sett fram sú forsögn að við lendum í orkusnörunni innan einungis fimm ára! Olíuöldin sé að niðurlotum komin og ekkert fyrir hendi sem muni geta tekið við keflinu. Hversu skelfilegar afleiðingarnar verða veit bloggarinn ekki. En hann veit hver er jólabókin í ár. Og sefur rólegur. En munum samt að framtíðin er að sjálfsögðu alltaf óviss!

Fleira áhugavert: