Baðker – Úr Steypujárni í akrílplast

Heimild: 

.

Baðkar úr steypujárni

Janúar 1996

Akrýlplastið á fullri ferð inn í baðherbergið

Plastið hefur haldið innreið sína í baðherbergið. Það eru fyrst og fremst baðker og sturtubotnar, sem eru framleidd úr akrýlplasti, en einnig handlaugar og vaskar.

Það er ekki svo ýkja langt síðan að öll baðker voru úr steypujárni, þungir og traustvekjandi gripir. Síðan komu léttu baðkerin úr plötustáli og þau hafa verið nær allsráðandi hérlendis á síðustu tímum, en það örlar á því að steypujárnskerin sjáist oftar undanfarið, einkum eru það ker sem ætlað er að standa frítt á gólfi, oft á skrautlegum fótum. En þessir gripir eru dýrir, kosta á annað hundruð þúsunda króna.

En plastið hefur haldið innreið sína í baðherbergið og það eru fyrst og fremst baðker og sturtubotnar sem eru framleidd úr akrýlplasti, handlaugar og vaskar eru einnig fáanleg úr akrýl.

Baðkar úr akrílplasti

Hverjir eru kostirnir?

Akrýlbaðker er auðveldara að framleiða í mismunandi formum og gerðum, það er auðveldara að sveigja þetta efni undir vilja hönnuða en stálplötur eða steypujárn. Litun efnisins er einnig auðveldari og margir telja það mikinn kost að akrýlplastið er „heitara“ viðkomu en málmurinn, þó húðaður sé.

Það er talið að í Vestur-Evrópu séu framleidd árlega 5 millj. baðkera, helmingur þeirra er ennþá úr þungu steypujárni. Hinn helmingurinn skiptist á milli baðkera úr stálplötum og baðkera úr akrýlplasti. Það sem kemur á óvart er að akrýlbaðkerin hafa náð forskoti, þau hafa 30% af heildinni þegar stálplötukerin eru ekki með nema 20% markaðshlutdeild.

Annað kemur mjög á óvart í þessari könnun, en það er hvar akrýlbaðkerin hafa náð mestri útbreiðslu. Það orð liggur á Bretum að þeir séu ekki nýjungagjarnir en í þessu tilfelli reynist svo. Baðkeramarkaðurinn í Bretlandi er talinn 1 millj. baðker á ári og 80% eru akrýlker þegar hlutfallið í Þýskalandi er aðeins 20-30%.

Ennþá eru akrýlkerin álitinn lúxus víða um lönd og er það ef til vill af því að fleiri og fleiri framleiðendur senda þau frá sér með margskonar aukabúnaði og eru dælur sem framkalla freyðingu og ólgu vinsælastar.

Litaúrvalið er einnig mikið og formið fjölbreytt. Hverjir eru ókostirnir og hver verður framtíðin?

Þeir eru ekki margir, en þó má nefna að yfirborðið er ekki eins slitsterkt og á steypujárns- eða stálplötubaðkerum. Á móti kemur hinsvegar að það brotnar ekki upp úr þeim eins og fyrir kemur á hinum kerunum, en flestir vita að glerjungurinn á þeim þolir illa högg.

Það er fáum gefið að vera spámenn, en er það svo ósennileg framtíðarsýn að hér eftir verði meira lagt upp úr baðherberginu, að þar verði stórt baðker (fyrir tvo að minnsta kosti) þar sem unnt verður að rétta vel úr sér og láta sér líða vel, baðker með margskonar búnaði til að fá freyðingu og ólgu í vatnið.

Það er ekki ósennilegt að fermetrafjöldi stofunnar eða flennigluggar verði minna atriði í framtíðinni en stórt og þægilegt baðherbergi.

Norðmenn framleiða baðker úr akrýlplasti, með baðkerinu fylgir magskonar aukabúnaður.

Við framleiðslu á baðkerum úr akrýlplasti hafa hönnuðir fengið að leika listir sínar og ef til vill verður sérdeilis góðum gestum boðið í framtíðinni til baðs frekar en stofu.

Fleira áhugavert: