Baðherbergið – Fyrirhyggja, hreinlætistæki

Heimild: 

.

Febrúar 1997

Konur, takið málið í ykkar hendur

Heppilegt er að velja öll baðtæki, áður en skófla er rekin í jörð. Þannig má oft spara talsverða fjármuni.

Unga aldri eru flestir bjartsýnir og hafa kjark til að takast á við lífið. Við stofnun fjölskyldu er eitt fyrsta og erfiðasta verkefnið að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Flestir byrja á blokkaríbúð en eftir því sem fiskur vex um hrygg er húsnæði fjárfrekara og það er furðulegt hve margir ráðast í byggingu einbýlishúss á eigin vegum þótt fjárútlát séu oft ótrúlega mikil áður en skóflu er stungið í jörð. En það var ekki ætlunin að fjalla um alla höllina, einbýlishúsið eins og það leggur sig, heldur afmarkað rými.

Það er baðherbergið.

Það er ekki nokkur vafi á að baðherbergið er sá hluti byggingarinnar sem væntanlegir eigendur veita mesta athygli en því miður oft á tíðum of seint. Húsbyggjendur ættu að hafa það í huga að við búum á eyju út í Atlantshafi, fámenn þjóð í strjálbýlu landi. Af því leiðir að við höfum ekki eins greiðan aðgang að vörum og tækjum í hús og heimili og fjölmennari þjóðir í þéttbýlli löndum, meðal þess eru margskonar tæki í böð.

Fyrirhyggja

Þetta þarf hins vegar engan veginn að verða til þess að hver og einn húsbyggjandi geti ekki fengið þau tæki sem hann óskar og pyngja hans leyfir, það krefst hinsvegar fyrirhyggju.

Það ætti að vera eitt af því fyrsta sem hver húsbyggjandi fer að huga að við undirbúning húsbyggingar hvaða tæki hann ætlar að fá sér í baðið. Þar er framboðið gífurlegt, hver framleiðandi reynir að komast fram fyrir aðra í frumleika og flottheitum. En þar er margt að varast, á þessu sviði er til ruslframleiðsla eins og á öðrum sviðum og enn sem komið er flæðir inn í landið léleg vara jafnt sem gæðavara.

Ef þannig er að verki staðið, að ákveða og jafnvel kaupa inn öll baðtæki áður en skófla er rekin í jörð, er oft á tíðum hægt að spara talsverða fjármuni. Ef það er gert er hægt að hanna og leggja öll lagnakerfi miðað við ákveðin tæki, það getur komið í veg fyrir niðurrif á lögnum og brot á veggjum með fjárútlátum og leiðindum síðar meir.

Þó úrval hreinlætistækja sé takmarkað hérlendis miðað við framboðið hjá milljónaþjóðum er hægt að mæta því með fyrirhyggju. Hjá seljendum hreinlætistækja er hægt að fá víðtækar upplýsingar um hvað í boði er, mikið er gefið út í veröldinni af tímaritum sem veita upplýsingar og hugmyndir, víða um lönd eru reknar upplýsingaþjónustur um byggingavörur og gleymum ekki alnetinu.

Allt sem þarf er að hugsa í tíma en því miður er það sjaldnast gert, hreinlætistæki ekki valin fyrr en byggingin er risin.

Við þurfum nýtt tæki í baðherbergið

Það hefur ekki orðið nein bylting í gerð baðherbergisins á síðastliðnum áratugum, en mikil þróun. Tækin hafa tekið framförum, bæði tæknilega og í útliti, sjálfvirku hitastýrðu blöndunartækin eru ekki aðeins til þæginda, þau eru tvímælalaust slysavörn. Fleiri og fleiri hafa bæði baðker (í öllum bænum útrýmið orðskrípinu baðkar) og sturtuklefa, handlaugin er oftar en ekki sett í borð sem er til mikils hagræðis. Eitt tæki, sem var þó nokkuð algengt fyrir áratug eða svo, er nú að mestu horfið. Það var kallað“bidett“ , ýmist kallað á íslensku rassbað eða fótabað og var einkum ætlað konum til hreinlætis. Þessi þróun, að þessi tæki séu að hverfa, er líklega tilkomin vegna hitastýrðu blöndunartækjanna og þess að sturtan verður algengari.

En það vantar eitt tæki í baðherbergið, eða forstofusalernið ef menn vilja heldur. Það er þvagskál fyrir karlmenn. Þetta tæki er á öllum opinberum samkomustöðum og fjölmörgum vinnustöðum en hvers vegna ekki í heimahúsum? Vegna þess bara mun einhver segja og það er vissulega rétt svar, það hefur einfaldlega ekki tíðkast í heimahúsum en þörfin er ótvíræð, að þau eru ekki til þar veldur beint út sagt sóðaskap. Ekki kæmi á óvart þó flestar konur séu þessu sammála enda lendir það líklega á þeim að þrífa baðherbergin eins og annar þrifnaður á heimilum. Þetta nauðsynjamál verða konur að taka í sínar hendur því ekki munu karlar gera það. Fyrir þá er þetta feimnismál.

Fyrir tuttugu árum var gerð rannsókn á því í Þýskalandi hvað gerðist þegar karlmaður kastar af sér vatni í salernisskál á hefðbundinn hátt og mörgum brá við niðurstöðurnar. Því verður best lýst með dæmisögu; flestir þekkja hinn tignarlega Seljalandsfoss sem fellur fram af Eyjafjöllum. Margir gera sér það til gamans að ganga á bak við hann, fossinn fellur ekki á þá en hver og einn kemur holdvotur til baka.

Fleira áhugavert: