Er blöndunartækið nógu öruggt fyrir mig, barn mitt eða barnabarn?

Grein/Linkur: Er blöndunartækið í lagi?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

.

Nóvember 1999

Er blöndunartækið í lagi?

Algengasta orsök bruna af heitu vatni er ófullnægjandi eða úr sér genginn búnaður. Skyndilegar sveiflur í þrýstingi vatnsins geta breytt hæfilegri blöndun í skaðvænlegan hita á svipstundu.

Það kann að virðast sérkennilegt að senda út litskreyttan og vandaðan bækling til að vara við vöru sem útgefandinn selur.En þetta er ekkert einsdæmi og ofur eðlilegt.

Orkuveita Reykjavíkur selur okkur á höfuðborgarsvæðinu heitt vatn á vægu verði til að hita upp vistarverur og til hreinlætis eða réttara sagt; til þæginda.

Eins og svo mörg gæði hafa þau tvær hliðar, eru einstaklega þægileg meðan allt leikur í lyndi, en ef eitthvað fer úrskeiðis getur gamanið kárnað. Bíllinn er flestum ómissandi, flytur okkur um okkar fagra land farþegum og stjórnanda til yndisauka, en ef ekki er nógu varlega farið getur förin endað með örkumlum, jafnvel dauða.

Það er því gott framtak hjá Orkuveitu Reykjavíkur að gefa út þennan litla fræðslubækling, sem líklega er nú kominn inn um lúguna hjá flestum ef ekki öllum viðskiptavinum veitunnar.

Sjálfsagt mál

Nú á tímum þykir sjálfsagt að rafmagnið komi úr veggnum og heita vatnið upp úr kjallaragólfinu eins og það kalda. Það virðist hins vegar hafa slitnað þráðurinn; heil kynslóð er að vaxa úr grasi sem gerir sér enga grein fyrir hvaðan þessi gæði koma frekar en hráefnið í hamborgarann, þetta er hættuleg þróun.Það er stórkostlegt að koma með erlenda gesti í orkuverið að Nesjavöllum, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur og sér okkur hér við innanverðan Faxaflóann fyrir stórum hluta þess heita vatns sem við fáum svo fyrirhafnarlítið. Þetta orkuver byggir á íslensku hugviti þar sem ofurkraftur jarðgufunnar er nýttur til hins ýtrasta, fyrst til að framleiða rafmagn og síðan til að hita upp örlítið brot af Þingvallavatni, sem fossar heitt og þægilegt í baðkerin öllum til þæginda og heilsubótar.

Þegar hugsað er til baka er ekki annað hægt en að þakka, fyrst og fremst Jóhannesi Zoega fyrrverandi hitaveitustjóra, fyrir þá þrautseigju sem þurfti til að gera þetta glæsilega orkuver að veruleika. Eins og tíðarandinn er í dag liggur ljóst fyrir að ef það væri á byrjunarreit yrði það líklega ekki reist, allavega ekki nema eftir harðvítuga andstöðu ýmissa sjálfskipaðra páfa og ekki vafi á að nú myndu spetta upp einhver samtök svo sem „Fyrir austan sól og sunnan mána í Grafningi“ eða álíka fyrirbrigði.

En Nesjavallavirkjun er staðreynd sem betur fer, þess vegna höfum við gnægð af rennandi heitu vatni á ótrúlega hagkvæmu verði.

Varúðar þörf

Vatnið sem rennur úr krönunum hjá okkur er 70-75°C heitt og það þýðir að ef óvarlega er farið geta orðið slys og dæmin sanna það.Það kemur oft fyrir að bakari er hengdur fyrir smið og það er rétt að hafa í huga þegar slys verða af of heitu vatni.

Vissulega er það heita vatnið sem brennir en orsökin, hver er hún?

Algengasta orsök bruna af heitu vatni er ófullnægjandi eða úr sér genginn búnaður, fyrst og fremst gömul handvirk og slitin blöndunartæki.

Það eru ekki ýkjur að segja að þessi gömlu lúnu tæki séu ekkert annað en slysagildrur og ef slys verða er heita vatninu kennt um, nema hvað, það er jú það sem brennir.

Það þarf í rauninni ekki gömul blöndunartæki til, ný handvirk blöndunartæki geta líka verið slysavaldar. Skyndilegar sveiflur í þrýstingi vatnsins geta breytt því sem var hæfileg blöndun í það að verða skaðvænlega heitt á svipstundu. Og þá er skaðinn skeður.

Það ætti hvergi að vera til handvirkt blöndunartæki í baði eða sturtu, aðeins sjálfvirk hitastýrð blöndunartæki. Það gildir jafnt þó vatnið sé ekki heitara en 60-65°C heitt, það er líka hægt að brenna sig á því.

Í bæklingi Orkiveitu Reykjavíkur eru settar fram aðvaranir og upplýsingar á einfaldan en skýran hátt.

Vonandi verður hann til þess að hver og einn líti nú gagnrýnum augum á sinn búnað, á sín gömlu blöndunartæki og hugsi sem svo; er þessi búnaður nógu öruggur fyrir mig eða barn mitt eða barnabarn?

Fleira áhugavert: