Eflun rannsóknir – Eiröldin 1960

Grein/Linkur: Íslenskar rannsóknir eru nauðsyn

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Febrúar 1997

Íslenskar rannsóknir eru nauðsyn

Það þarf að efla innlendar rannsóknir á lagnaefnum. Íslenskar aðstæður eru sérstæðar og ekki sama, hvar er á landinu. Stundum er erfitt að sigla á milli skers og báru, það á einnig við þegar við hérlendis erum að taka til okkar nýjungar frá hinum tæknivædda heimi, sama hvaða tækni á í hlut.

Það verður engin framþróun hérlendis í lagnamálum ef við lokum landinu, eða hluta af því, fyrir öllum nýjungum. Á hinn bóginn er það jafn skaðlegt að taka við öllum nýjum lagnaefnum og tækninýjungum gagnrýnilaust.

Já, það er erfitt að sigla á milli skers og báru, hinn skynsamlegi meðalvegur er vandrataður.

En það er ekki síður fáránlegt að loka fyrir allar nýjungar og halda dauðahaldi í gamlar lausnir sem árum saman hafa valdið skaða sem telst ekki aðeins í hundruðum milljóna heldur í milljörðum.

Tæring röra kemur úr tveimur áttum, annarsvegar utanaðkomandi eða að rörin tærast að innanverðu vegna þess að þau þola ekki vatnið sem um þau rennur.

Ef við tökum höfuðborgarsvæðið til skyndiskoðunar, eða réttara sagt veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur, eru það snittuð, skrúfuð stálrör sem hafa verið helsta lagnaefnið allt frá því röraöldin hófst um síðustu aldamót. Í hitakerfi, miðstöðvarlagnir, hafa verið notuð óhúðuð svokölluð svört rör og þau þola hitaveituvatnið mjög vel, engar sögur fara af því að þessi rör tærist innanfrá, þessvegna getum við treyst þeim þunnveggja stálrörum sem komin eru á markaðinn, þau munu ekki tærast innanfrá vegna hitaveituvatnsins. Heitt og kalt neysluvatn hefur verið lagt úr samskonar rörum þó galvaniseruðum, þau hafa verið í lagi fyrir hitaveituvatn í kranana en ekki fyrir kalda vatnið, þar er mikið vandamál á ferð vegna innri tæringar. En þrátt fyrir það hafa þessi rör tærst og það hefur haft í för með sér gífurlegan skaða, sú tæring hefur komið utanfrá vegna raka sem komið hefur inn í gegnum veggi og upp í gegnum gólfplötur.

Samt höldum við áfram að nota þessar lagnir og troða þeim inn í einangrun á útveggjum þó við vitum betur; við eigum ekki að halda áfram að skemmta skrattanum.

Eiröldin

Hún gekk í garð uppúr 1960, þá áttu eirrör að vera allra meina bót. En það hefur komið í ljós að eir er líklega það lagnaefni sem síst skal nota á svæði Hitaveitu Reykjavíkur, en víða úti á landi er eirinn heppilegt lagnaefni, þar er efnasamsetning heita vatnsins öðruvísi en á höfuðborgarsvæðinu.

Síðan hefur raunar komið í ljós að það má ekki búast við að eirrör hafi mikið lengri endingartíma en 30-40 ár hvar sem er og hver sem skilyrðin eru. Það er allt önnur ending á svörtum snittuðum rörum, við bestu skilyrði sér vart á rörum eftir 50-60 ár, ef engin utanaðkomandi raki hefur komist að þeim.

En fram á þennan dag er verið að endurnýja lagnir með eirrörum þrátt fyrir að við vitum að þau á alls ekki að nota á höfuðborgarsvæðinu.

Það verður að efla rannsóknir

Það er höfuðnauðsyn að efla innlendar rannsóknir á lagnaefnum, við getum ekki og megum ekki taka allt sem sjálfgefið, íslenskar aðstæður eru sérstæðar, íslenska vatnið er fjölbreytt flóra, það er ekki sama hvar við erum stödd á landinu.

En það vantar peninga segja menn.

Það er bull, það er nóg til af peningum.

Stærstu hitaveiturnar eru orðin stöndug fyrirtæki, allavega sumar hverjar og þær geta auðveldlega lagt fram peninga til rannsóknastarfa ef til er vilji hjá pólitískum stjórnendum þeirra, hjá sveitarstjórnamönnum.

Það var mjög athyglisverð grein hér í Morgunblaðinu 11. febr. sl. eftir merkan Hafnfirðing. Þar mótmælir hann því að borgarsjóður Reykjavíkur hirði af Hitaveitu Reykjavíkur 32,5 milljónir kr. í arðgreiðslu, fyrirtæki sem hefur einkaleyfi til sölu á heitu vatni, ekki aðeins í Reykjavík, heldur einnig í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Bessastaðahreppi. Á það má einnig benda að Hitaveita Reykjavíkur borgaði Perluna eins og hún lagði sig og það munar um minna.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig þessari deilu um arðgreiðsluna reiðir af en þetta vekur ekki síður athygli á öðru.

Fyrst og fremst því að Hitaveita Reykjavíkur er arðsamt fyrirtæki og fleiri veitur eru það tvímælalaust einnig en ekki síður hlýtur þessi spurning að eiga rétt á sér:

Er það ekki réttlátara að arður veitustofnana, sem eru með einkaleyfi á hverjum stað, renni til rannsókna á lagnaefni og lagnatækni í stað þess að verða aukaskattur á íbúana? Það verður að auka íslenskar rannsóknir á íslenskum forsendum, þær gætu skilað miklum beinum arði til allra.

Það er ekki nema sjálfsögð krafa að vellauðugar veitur standi undir þeim kostnaði, það kemur þeim sjálfum til góða ekki síður en almenningi.

Við verðum að vita hvaða rör henta á hverjum stað, þessvegna eru innlendar rannsóknir nauðsyn.

Fleira áhugavert: