Kenía – Nakuru stíflan brast
Maí 2018
Stífla brast í Kenía í kjölfar mikilla rigninga með þeim afleiðingum að tuttugu manns hið minnsta létu lífið. Eyðileggingin var mikil og fleiri en 2.000 íbúar eru sagðir hafa misst heimili sín.
Talið er að fjöldi látinna gæti hækkað, en íbúar segja að margra sé enn saknað. Hörmungarnar áttu sér stað í Nakuru-sýslu, nærri bænum Solai, sem er um 190 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Naíróbí. Rauði krossinn í Kenía segist hafa fært um 40 manns á spítala.
Vitni segjast hafa heyrt háan hvell áður en stíflan brast og vatnið flæddi yfir ræktað svæði, þar sem margir búa og starfa, en stíflan var í eigu stórbónda á svæðinu. Óttast er um ástand tveggja annarra stíflna á svæðinu, sem eru í eigu sama bónda.
Mikið hefur rignt í Kenía undanfarna tvo mánuði og samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum má rekja 152 dauðsföll beint til vatnsveðursins. Þá hafa 220.000 manns misst heimili sitt vegna rigninga og flóða.