Snjóbræðsla – Nokkur ráð

Grein/Linkur: Er snjóbræðsla á dagskrá hjá þér?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

snjóbræðsla

.

Maí 2006

Er snjóbræðsla á dagskrá hjá þér?

Það þýðir ekki að missa móðinn þó hitastigið sé rétt um 0°C morgun eftir morgun. Vissulega er það óþolandi þegar komið er fram til loka maímánaðar og aðeins mánuður til Jónsmessu þegar sólargangur er hæstur. Það liggur við að hægt sé að hugsa hlýlega til kolamistursins frá Póllandi sem lagðist hér yfir fyrir skömmu, það var þó sæmilega hlýtt á meðan það varði.

En burtséð frá gróðri og blómum, sem baráttan stendur um í kuldakastinu, má búast við að margir hyggi á framkvæmdir utanhúss.

Ekki ólíklegt að ofarlega á þeim lista séu hellulagnir á gangstéttir og heimreiðar. Þá kemur auðvitað sú spurning hvort ekki eigi að leggja snjóbræðslurör undir hellurnar. Í þessum pistlum hefur oftar en einu sinni verið fjallað um snjóbræðslukerfi, gefin ráð og leiðbeiningar um hvernig standa skuli að verki til að góður árangur náist án þess að sóa peningum að óþörfu. En það eru alltaf nýir húseigendur að bætast í hópinn, þeir hafa eðlilega ekki verið að soga að sér tæknilegar upplýsingar um snjóbræðslukerfi, áhuginn á því vaknar ekki fyrr en til alvörunnar kemur.

Þess vegna skulum við fara skref fyrir skref yfir það hvaða ákvarðanir þarf að taka og hvernig staðið skal að verki. Vissulega orkar allt tvímælis í þessu sem öðru en sá sem hefur þrjátíu ára reynslu í snjóbræðslulögnum segir aðeins það sem reynsla og þróun hefur kennt honum.

snjóbræðsla´1

Snjóbræðslulögn í gamlar tröppur, snjóbræðslurörin dregin í barka

Þessi pistill og það sem þar kemur fram er miðað við þig sem átt einbýlis- eða raðhús, þó geta vonandi miklu fleiri haft gagn af.

Fyrsta spurningin er auðvitað sú hvort leggja eigi snjóbræðslulögn eða ekki. Því er til að svara að á hitaveitusvæðum hefur enginn fundist sem hefur séð eftir því að hafa gert það, en hinsvegar þó nokkrir súrir yfir að hafa sleppt tækifærinu.

Niðurstaðan er; já, rétt að leggja snjóbræðslukerfi.

En í hvað stórt svæði? Það er ekki hægt að gefa nein fyrirmæli um það. Algeng stærð svæðis með snjóbræðslukerfi við einbýlishús er svona um 50 fm. En það eru til kerfi sem eru miklu stærri og þá þarf húseigandi að gera sér ljóst að hann þarf nokkru til að kosta til að hita svæðið.

Afrennslisvatn frá húsinu nægir kannski ekki nema í 20 fm. En að leggja í stærra svæði og bæta við beinu rennsli er engin goðgá.

Hvaða snjóbræðslurör á að velja? Líklega hafa flestir séð stór snjóbræðslukerfi lögð úr gráum plaströrum. Þetta snjóbræðslurör eru uppáhald verkfræðinga og hönnuða. Þó hafa þeir aldrei getað fært fram nein rök fyrir vali þessara röra. Þessi gráu rör eru úr plastefninu polypropylen, sem er úrvalsefni til þeirra nota þar sem það hæfir. En til snjóbræðslulagna eru þau engan veginn heppileg, mjög stíf og þau má vart hreyfa þegar útihitastig er komið niður fyrir frostmark.

Heppilegustu snjóbræðslurörin eru rör úr polyetylen plasti, þau nefnast PEM, eru svört á lit, íslensk framleiðsla, ódýr gæðarör, sveigjanleg og þægilegt að leggja, má vinna við utanhúss niður í -40°C frost! Hversvegna eru þá verkfræðingar svona hrifnir af gráu rörunum? Auðvitað eiga þeir að svara því.

Á hvaða dýpi eiga rörin að vera? Höldum okkur við að þau liggi í sandi undir hellum, sem er algengasta slitlag á gangstéttum og heimreiðum. Þarna er tvennt mjög mikilvægt; að dýpið sé rétt og umfram allt jafnt.

Heildarmassi ofan á rörum á að vera sem næst 80 mm eða 8 cm sem að sjálfsögðu er það sama, athugið að þarna er átt við allt sem ofan á rörin kemur, frá röri upp á efri brún hellu.

En hvernig á að ganga frá svæðinu undir rör, áður en þau eru lögð? Umfram allt að nota „stabílt“ efni undir rörin, efni sem tekur þjöppun en verður samt svo slétt að það skaðar ekki rörin.

Munið; aldrei að setja lausan sand undir rörin, þá geta þau orðið á mismunandi dýpi og þá verður bræðslan á yfirborðinu ójöfn.

Undirlagið undir rörin er einhver mikilvægasti hlekkur þessa verks.

Það verður að þjappa vel, í réttri hæð, má hvergi vera gróft.

Hve langar mega slöngur vera? Þarna er erfið spurning, en við einbýlishús má segja að í 50 fm svæði væri lögð ein slanga 200 m löng, en í 100 fm svæði tvær slöngur jafnlangar.

En þá inn fyrir vegg, þá kemur stóra spurningin, á að nota varmaskipti eða ekki? Höfum það fyrir reglu að nota aldrei varmaskipta nema fyrir liggi óyggjandi rök fyrir að svo verði að vera. Þau rök er sjaldnast hægt að finna og það eru til fjölmörg snjóbræðslukerfi án varmaskiptis, yfir 30 ára gömul, sem hafa gengið eins og klukka án nokkurra vandræða. Það væri fróðlegt ef hægt væri að benda á jafngömul snjóbræðslukerfi með varmaskipti sem gengið hafa án truflana svo lengi.

Hversvegna þá þessi mikli áróður fyrir varmaskiptum? Eflaust fær húseigandi oft þá ráðleggingu ef hann kemur í lagnaverslun að hann verði að hafa varmaskipti og frostlög á snjóbræðslukerfi. Síðan er honum selt „únít“ sem menn kalla svo með varmaskipti, dælu, stjórnlokum og öllu saman, svaka flott græja, kúnninn borgar fyrir þetta á annað hundrað þúsund krónur, flott sölumennska.

Ef menn vilja henda slíkum fjárhæðum út um gluggann þá er hver og einn frjáls að því.

En þetta er sölumennska, ekki tæknileg ráðgjöf.

En hvað þá um tröppur, má steypa snjóbræðslurör beint inn í steypuna? Nei, það á aldrei að gera. Einn sérvitringur tók upp á því að draga rörin í barka og steypa þau síðan inn, sérvitringunum hefur fjölgað sem betur fer. Ef notuð eru 25 mm PEM-snjóbræðslurör, dregin í 35 mm barka og það síðan lagt í steypuna verður hvorki skaði á rörum né tröppum þó í rörunum frjósi, sem er óþarfi að láta gerast. Og það merkilega gerist að við þessa útfærslu verður bræðslan í tröppunum skarpari og betri en ef rörin er lögð beint inn í steypuna.

Og tengingin innan húss verður einföld; afrennsli af hitakerfi rennur beint út í snjóbræðslukerfið, hitastýrður loki, sem vinnur eftir hitastigi vatnsins þegar það kemur til baka, bætir við eftir því hvernig hann er stilltur. Gæta þarf þess að hafa magnstillingu á beina rennslinu svo ekki geti runnið allt of mikið heitt vatn út á kerfið.

En það er margs að gæta og öruggast er að fá kunnáttumann eða menn til að skoða hvert einstakt verkefni og vinna það, það er margt fleira sem þarf að vara sig á, það er auðvelt að misstíga sig í þessu eins og í flestri lagnavinnu.

Fleira áhugavert: