Gas ferðavögnum – Kerfisbundið eftirlit?
Júlí 2016
Engin skoðunarskylda er á gasbúnaði í ferðavögnum eða húsbílum en slíkur búnaður getur verið hættulegur ef honum er ekki viðhaldið eða leiðbeiningar virtar að vettugi. Nauðsynlegt er að koma á fót kerfi sem tryggir að eigendur láti skoða búnað sinn af og til. Það er í það minnst skoðun þingmanns og einnig deildarstjóra tæknideildar Vinnueftirlitsins.
Reykjavík Síðdegis hefur fjallað um þessi mál að undanförnu og veitt því sérstaka athygli að á meðan bremsu-, hjóla- og annars konar búnaður er skoðaður sérstaklega gildir það ekki um gasbúnað.
Eini opinberi aðililinn sem hefur í raun eftirlit með þessum búnaði á einhvern hátt er Vinnueftirlitið. Eða hvað?
„Já og nei. Við höfum markaðseftirlit með þessum búnaði. Það er að segja, þegar hann er fluttur til landsins. Þá er það reglugerð um tæki sem brenna gasi sem við erum að fara eftir,“ útskýrir Ágúst Ágústsson, deildarstjóri tæknideildar Vinnueftirlitsins.
„Við höfum lítið eftirlit eftir að þetta er komið á markað nema náttúrulega ef þetta er á vinnustöðum. Þá höfum við ákveðið eftirlit með því.“ En um gasbúnað í einkaeign gilda önnur lögmál.
Þyrfti ekki að vera sérstakt eftirlit með þessum búnaði?
„Jú, ég er sammála því en þetta er svosem sett í hendurnar á eigendunum eins og svo margt annað. Eigendurnir eiga að sjá til þess að það sé farið yfir þennan búnað. Það er vert að hvetja menn til þess að gera það. Við höfum ekki sérstakt kerfi hér sem setur mönnum skorður um það að fara með þetta í eftirlit á einhverjum tímapunkti. Það myndi þá liggja hjá Samgöngustofnun, Eldvarnareftirliti eða Brunamálastofnun að gera það,“ segir Ágúst. Hann var í viðtali hjá Reykjavík síðdegis í gær. Hægt er að hlusta á viðtalið við Ágúst hér að ofan.
Ágúst segir að passa verði upp á að loftræsting í kringum búnað sem þennan verði að vera í lagi og einnig að nota verði viðurkenndar koparleiðslur eða vottaðar lagnir sem tengibúnað.