Nord stream 2 – Rússnest gas til þýskaland

Grein/Linkur:  Navalny, Novichok og Nord Stream 2 

Höfundur: Róbert Jóhannsson RUV

Heimild:

.

.

September 2020

Navalny, Novichok og Nord Stream 2 

Eitt stærsta pólitíska deilumál síðari tíma á alþjóðavísu varð enn stærra eftir að rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny var byrlað taugaeitrið Novichok í flugvél á leið frá Síberíu til Moskvu. Hann liggur nú á sjúkrahúsi í Berlín í Þýskalandi þar sem hann vaknaði til meðvitundar í gær. Þjóðverjar kalla eftir ítarlegri rannsókn yfirvalda í Moskvu á því hver eitraði fyrir Navalny.

Mynd með færslu

Mynd: en.kremlin.ru

„Ég vona að Rússar neyði okkur ekki til að breyta afstöðu okkar varðandi Nord Stream 2,“ sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, við þýska sunnudagsblaðið Bild am Sonntag fyrr í mánuðinum. Stjórnvöld í Kreml neita því alfarið að hafa átt nokkurn hlut í veikindum Navalnys. Þau segja að fölskum upplýsingum og geðshræringu sé beitt til að réttlæta viðskiptaþvinganir í garð Rússa.

Tvöföldun á beinni flutningsgetu gass frá Rússlandi til Þýskalands

Gasleiðslan Nord Stream 2 liggur frá Ust-Luga í Rússlandi, rétt við landamærin að Eistlandi, í gegnum Eystrasalt, þaðan sem hún er lögð meðfram Nord Stream 1 til Lubmin á norðurströnd Þýskalands. Alls liggur leiðslan um 1.230 kílómetra leið. Flutningsgeta hennar er 55 milljarðar rúmmetra af fljótandi jarðgasi á ári, sem er jafnmikið og Nord Stream 1 flytur. Það jafngildir tæplega 12 prósentum gasnotkunar í Evrópusambandsríkjunum á ári. Framkvæmdin er talin kosta um 11 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði um 1.500 milljarða króna.

Fyrri Nord Stream-leiðslan var tekin í notkun árið 2012 og var þá þegar byrjað að leggja drög að Nord Stream 2. Samningar orkufyrirtækja lágu fyrir sumarið 2015 og í lok janúar 2018 veitti Þýskaland leyfi fyrir lagningu Nord Stream 2 á þýsku hafsvæði og landi. Í maí sama ár hófust framkvæmdir í Þýskalandi. Reiknað er með að hægt verði að taka leiðsluna í notkun í lok þessa árs eða byrjun þess næsta.

Þegar haustið 2018 hóf Bandaríkjaþing að blanda sér inn í framkvæmdina. Tillaga var lögð fyrir þingið í ágúst það ár um að beita fimm stærstu orkufyrirtækjum Evrópu, sem taka þátt í framkvæmdinni, viðskiptarefsingum láti þau ekki af fjárfestingu. Gagnrýnendur sögðu gasleiðsluna styrkja enn frekar tök Rússlands á Evrópu og auka á einangrun Úkraínu. Nærri 45 prósent af því gasi sem flutt er frá Rússlandi til Evrópuríkja fara í gegnum Úkraínu, segir á vef Nord Stream 2, eða um 87 milljarðar rúmmetra af alls 200 milljörðum. Nýja leiðslan dugar því ekki til að koma í stað alls þess.

Sterkari staða Þjóðverja

Í New York Times segir að Þjóðverjar séu í sterkari pólitískri stöðu en Rússar varðandi Nord Stream 2. Evrópa þurfi í raun ekki á nýrri gasleiðslu að halda þar sem þær leiðslur sem þegar liggja til Evrópu eru ekki nýttar að fullu. Ekki lítur út fyrir að það þurfi að nýta þær að fullu næstu áratugina hið minnsta.

Kaupa orku til að halda Rússum í skefjum

Rök þýsku stjórnarinnar fyrir því að kaupa meira af gasi frá Rússlandi virðast því vera pólitísks eðlis. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur réttlætt stuðning sinn við leiðsluna sem lið í víðtækari viðskiptastefnu ríkisins í garð Rússa og Kínverja. Með orkukaupunum séu Þjóðverjar með fleiri vopn í búri sínu en viðskiptarefsingar.

Stuðningsmenn úr flokki hennar segja Rússa háðari því að selja orkuna en Þjóðverja að sækja hana. Rússar verði ólíklegri til að gera eitthvað af sér um leið og búið verður að skrúfa frá leiðslunni, hefur New York Times eftir Kirsten Westphal, sérfræðingi við Alþjóða- og öryggisstofnun Þýskalands. Eins benda stuðningsmenn á að við orkuskipti úr kjarnorku sé náttúrugas umhverfisvænna en kol. Eins myndi nýja leiðslan tryggja Þjóðverjum nægt eldsneyti ef stríðsátök í Úkraínu aukast eða ef dregur úr orkuflutningi af öðrum ástæðum.

Pólitískar flutningsleiðir Rússa

Rússar nota náttúrugasútflutning sinn í pólitískum tilgangi, segir í greininni. Þar skiptir ekki máli hversu mikið gas fer til Evrópu, heldur hvernig það kemst þangað. Flutningsleiðir skipta Rússa því mestu máli. Þar sem leiðtogar í fyrrverandi Sovétlýðveldum og öðrum ríkjum Austur-Evrópu eru hliðhollir stefnu Rússlands eiga þeir möguleika á hlut í hagnaði af orkuútflutningi Rússlands. Ef leiðtogarnir leita hins vegar til vesturs geta þeir átt von á því að klippta sé á eldsneytisflutning til þeirra. Það hefur tvisvar gerst í Úkraínu. Vandamálið við það hefur verið að með því að skrúfa fyrir Úkraínu eða Búlgaríu, verður einni orskuskortur í vesturevrópskum ríkjum.

Nord Stream vopn gegn Úkraínu

Svar Vladimir Pútíns við því var að reisa Nord Stream 1 á sínum tíma, og nú Nord Stream 2 og TurkStream. Þannig kemst hann fram hjá Úkraínu, og getur til að mynda skrúfað fyrir gasið sem rennur í gegnum Úkraínu og Hvíta-Rússland tímabundið, án þess að það bitni á gasflutningi til Vestur-Evrópu.

Á vef Nord Stream 2 er sagt af og frá að Rússar noti gasleiðsluna í pólitískum tilgangi. Rússland og Evrópa séu háð hvort öðru hvað gasið varðar og unnið sé með Evrópuríkjum að því að tryggja öryggi á gasmarkaði í Evrópu til lengri tíma. Evrópa sé stærsti markaður Rússa og Rússar helsti flutningsaðili gass til Evrópu.

Fjölþjóðleg andstaða

Þjóðverjar og Frakkar styðja leiðsluna en flest önnur Evrópuríki eru andvíg henni. Í Bandaríkjunum er pólitísk samstaða um afskaplega fátt. Þar standa stjórnmálamenn þó saman í andstöðu sinni við Nord Stream 2. Ríkisstjórn Baracks Obama lýsti andstöðu sinni við áhuga Merkel á verkefninu á sínum tíma. Þá segja þeir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, báðir að hætta eigi við verkefnið. Litið er á leiðsluna sem leið Rússa til þess að hafa enn frekari áhrif í Evrópu.

Merkel tekur undir orð Haas

Nú virðast Þjóðverjar tilbúnir að endurskoða afstöðu sína. „Kanslarinn er sammála ummælum utanríkisráðherrans um helgina,“ sagði talsmaður Merkel í síðustu viku. Þar til í síðustu viku vildu þýsk stjórnvöld aðskilja eitrun Navalnys og deilur um leiðsluna en afstaðan þeirra er orðin harðari.

Sex leiðir Þjóðverja gegn Nord Stream 2

Stjórnmálavefurinn Politico greindi í síðustu viku frá sex mögulegum leiðum sem Þjóðverjar geta farið til þess að loka á Nord Stream 2.

  1. Draga leyfi til baka
    Í fyrsta lagi geta þýsk stjórnvöld dregið byggingaleyfi til baka. Þau eru tvö, annars vegar frá námuvinnsluyfirvöldum í Stralsund og hins vegar Sjávarútvegsstofnun þýska sambandsríkisins. Yfirvöld í Stralsund eru í sambandsríkinu Mecklenburg-Vorpommern. Þar á bæ eru stjórnvöld afskaplega hlynnt gasleiðslunni. Þau svöruðu tilraun Bandaríkjaþings til harðra viðskiptarefsinga í garð hafnaryfirvalda í Mukran með þingsályktunartillögu um að hótanir ættu engan rétt á sér í alþjóðaviðskiptum. Sjávarútvegsstofnunin er óháð ríkisstjórninni, sem gerir kröfu stjórnvalda flóknari.

     Bæði tilfelli geta svo leitt til þess að svissneska fyrirtækið Nord Stream 2 AG, sem er yfir framkvæmdinni, kæri þýska ríkið á grundvelli orkusamnings. Skaðabótakrafan gæti verið nærri kostnaðinum við lagningu leiðslunnar.

    .

  2. Láta náttúruverndarsamtök um málið
    Politico bendir á að þýska stjórnin geti líka dregið sig í hlé og fylgst með náttúruverndarsamtökum berjast gegn framkvæmdinni. Samtökin Deutsche Umwelthilfe hafa til að mynda krafist þess að leyfi námuvinnslustofnunarinnar í Stralsund verði endurskoðuð út frá loftslagssjónarmiðum. Málið er enn fyrir dómi eftir að stofnunin hafnaði því að endurskoða leyfið sjálf.
  3. Beita lögbanni
    Utanríkisviðskiptalöggjöf Þýskalands veitir stjórnvöldum leyfi til þess að setja hömlur á utanríkisviðskipti til þess að tryggja öryggishagsmuni ríkisins. Eins má beita löggjöfinni til að bregðast við hættu sem lýtur að einstöku máli. Þar gæti byrlun Navalnys átt við. Það verður þó að vera hægt að réttlæta beitingu löggjafarinnar með fullnægjandi hætti. Þannig gæti dómstóll snúið slíkri ákvörðun ef ekki liggja fyrir næg gögn. Þá er óvíst hvort Þjóðverjar geta einir komið í veg fyrir gasflutning til Evrópusambandsins.
  4. Láta viðskiptarefsingar Bandaríkjanna afskiptalausar
    Þjóðverjar geta einnig leyft viðskiptarefsingum Bandaríkjanna að hafa sín áhrif. Stjórnvöld í Washington hótuðu hörðum refsingum sem leiddu meðal annars til þess að verktakafyrirtækið Offseas hætti við að leggja síðustu 150 kílómetra leiðslunnar. Á fjárlögum sem kosið verður um á Bandaríkjaþingi fyrir árslok eru ákvæði um refsingar sem gætu beinst að þeim 120 fyrirtækjum eða svo sem munu eiga viðskipti við Nord Stream 2.
  5. Samevrópskar refsingar
    Öruggasta leiðin fyrir Þjóðverja er að þrýsta á samevrópskar viðskiptarefsingar. Leiðtogaráð Evrópusambandsins yrði að samþykkja slíkar refsingar einróma, og einörð afstaða Þjóðverja með leiðslunni hefur verið helsta ástæða þess að það hefur ekki tekist. Breytt afstaða Þjóðverja gæti því breytt miklu þar um.
  6. Ekkert rekstrarleyfi
    Ef ekki verður gripið til aðgerða til þess að stöðva framkvæmdina gæti ein hindrun til viðbótar verið í vegi hennar. Til að mynda þarf að finna fyrirtæki sem er reiðubúið að mæta bandarískum viðskiptarefsingum og sjá um rekstur leiðslunnar. Þá verður rússneska gasfyrirtækið Gazprom að hlíta reglum Evrópusambandsins og slíta gassölu sína frá rekstri gasleiðslunnar. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur þegar varað Gazprom við því að reyna að fara framhjá þeim reglum. Tilraunum til þess að færa rekstur leiðslunnar til dótturfyrirtækis Gazprom verði hafnað.

Fleira áhugavert: