Frárennslislagnir – Rætur og rottur
Grein/Linkur: Frárennslislagnir – Rætur og rottur
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
September 2005
Frárennslislagnir – Rætur og rottur
Þá er enn eitt haustið gengið í garð með lægðum og stormum, en einnig undurfögrum haustlitum í náttúrunni og fallegum kvöldum þegar beljandi rigningin gerir hlé af sinni miskunnsemi. Garðarnir eru enn grænir og stutt síðan unnið var í moldinni og bletturinn sleginn. Engin ástæða er að síta komu haustsins og veturs komandi, það verður aftur komið vor áður en varir, tíminn er svo fljótur að líða.
Þetta eru ekki neinar skáldlegar grillur, því eldri sem hver einstaklingur verður finnur hann fyrir þessum hraða, eða var ekki sumarið fljótt að líða? Að sjálfsögðu var svo, það er efalaust tilfinning flestra. Það er komið að þeim tíma, sem kemur á hverju ári, að hugsa til alls þess sem ekki tókst að koma í framkvæmd. Sleppum slíkum hugsunum, við gerum það næsta sumar sem ekki tókst að koma í verk. Þeir eru margir garðarnir sem skarta háum og blómlegum trjám, við sjáum styrka stofna og laufskrúðið eða grænt barrið, fylgjumst með víðirunnum sem voru klipptir og snyrtir, þeim sem það gerðu til mikillar ánægju.
En það gerist margt fleira hjá einni plöntu en það sem sést ofan jarðar. Í moldinni heyja jurtirnar styrjöld um viðurværið, harðvítuga styrjöld þar sem margar harðskeyttar jurtir svífast einskis til að ná í næringu og vatn, þetta er sama stríðið og hjá mannfólki víða um heim.
Í Finnlandi eru tré óteljandi sem og vötnin. Þaðan kemur sú litla saga sem hér verður sögð. Í lítilli borg á suðurströnd landsins, nokkru fyrir austan höfuðborgina Helsingfors, er bær einn sem ber nafnið Borgå, þetta sænska heiti er að sjálfsögðu arfur frá því Svíar drottnuðu þar í landi og síðan eru bæjarbúar þar flestir sænskumælandi. Þar eru tré mörg og afgömul mörg hver og af mörgum tegundum og fjölbreytt í útliti.
Einn húseigandi í Borgå uppgötvaði sér til skapraunar að frárennslið frá húsi hans var stíflað. Auðvitað kallaði hann til menn með tól og tæki sem takast á við stífluð skólprör og þeir réðust til atlögu, sendu inn í rörið snigla og slöngur en þau tæki komust ekki langt og bættu ekki úr vanda. Að lokum var ekki annað til ráða en að grafa upp leiðsluna og taka hana í sundur, en að var hægara sagt en gert því rörin héngu saman á ógurlegum göndli sem lá eins og Miðgarðsormur eftir skólplögninni endilangri.
Stóðu nú allir ráðlausir yfir þessum ósköpum og gátu á engan hátt skilið hvernig fjandi þessi gat skriðið inn í rörið, því síður hvaðan kvikindið kom. Að lokum var aldinn garðyrkjumeistari kallaður til og hann réð gátuna. Hann rakti orminn að afgömlum silfurvíði sem stóð þar keikur í nánd og hafði komist í þessa líka veisluna þegar honum tókst að koma rótum sínum inn í gallað steinrör og linnti ekki vexti fyrr en ræturnar voru búnar að teygja sig tíu metra eftir rörinu og stífla það alfarið.
En það lifir fleira en rætur af silfurvíði í lélegum og lekum skólprörum, gömlum steinrörum sem farin eru að morkna og gefa sig. Ferfætlingar eru þar á ferð og seint verða rottur vinir mannsins héldu flestir. En dag skal lofa að kveldi því hérlendis sem erlendis er farið að rækta rottur til heimilishalds en förum ekki frekar út í þá sálma.
Rottur eru heimakærar í skolprörum en þó helst ef lagnir eru gamlar og götóttar. Ef svo er eiga rottur greiða leið inn í skólplögnina en það sem verra er; ekki síður út úr þeim aftur. Komið hefur fyrir að rottur hafa sést skoppa um stéttar við gömul virðuleg hús í eldri bæjarhverfum og það veit aðeins á eitt. Þá eru skólplagnir á fallandi fæti og það er mjög eðlilegt í húsum sem eru hálfrar aldar gömul eða eldri.
Skólplagnir í grunnum þessara eldri húsa eru nær alfarið úr steinrörum og líftími þeirra er liðinn. Því miður virðast húseigendur ekki gera sér grein fyrir þessum vanda. En það er betra að vera á verði og það ætti að hefjast handa um endurlögn ef hús eru komin á þann aldur sem að framan var nefndur. Oft hefur ekki verið brugðist við vandanum fyrr en neðsta hæð eða kjallari eru orðin stórskemmd og þá hefjast oft verstu nágrannaerjur sem upp koma hérlendis.
Sá sem býr neðst, á neðstu plötu, verður fyrir barðinu á raka upp eftir veggjum, skordýraplágu og illum þef. Stundum láta þeir sem ofar búa sig þetta engu varða þótt það sem frá þeim kemur renni eftir hrörnandi rörum undir gólfi nágrannans.
Með nútímatækni er hægt að láta skoða og taka myndir af skolplögnum í grunnum og skoða ástand þeirra að innan, betra fyrr en seinna.