Í dag er alþjóðlegi klósettdagurinn 19.nóvember
Markmið alþjóðlega klósettdagsins, sem haldinn er 19. nóvember ár hvert, er að vekja athygli á þeim vanda sem felst í skorti á hreinlætisaðstöðu en þriðji hver maður í heiminum hefur ekki aðgang að mannsæmandi hreinlætisaðstöðu samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.
7.500 manns deyja á hverjum degi að meðaltali af völdum skorts á hreinlætisaðstöðu og þar af fimm þúsund börn áður en þau ná fimm ára aldri. Þá fara á hverju ári 275 milljónir skóladaga forgörðum vegna sjúkdóma sem smitast í gegnum óhreint vatn eða vegna þess að hreinlætisaðstaða er ekki fyrir hendi.
„Það er hægt að berjast gegn ójöfnuði á ólíklegasta stað: á klósettinu,“ segir Catarina de Albuquerque sem er sérstakur erindreki SÞ þegar kemur að þeim mannréttindum að hafa aðgang að drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu.