Saurgerlastrákurinn – “Góður nýji rakspírinn þinn“
Um helgina fór ég í ferðalag á stað sem mér þykir mjög vænt um. Stað þar sem náttúran er í fyrirrúmi, fjöllin voldug og lækirnir tærir. Óspillt náttúra eins og hún gerist best.
Ég bý nefnilega í miðri stórborginni. Í Reykjavík þar sem maður getur maður varla andað fyrir mengun. Þú getur ekki ræktað svo mikið sem einn tómat út í glugga án þess að hann deyji úr gróðurhúsaáhrifum. Og þú getur gleymt því að fá þér göngutúr á Miklubrautinni á morgnana, þú ert nefnilega svo rosalega mikið “fyrir öllum“. Allir eru að drífa sig – enginn að njóta.
Þess vegna gat ég ekki beðið eftir því að komast í sveitina. Að njóta kyrðarinnar og náttúrunnar. Anda að mér hreina loftinu og drekka tæra vatnið – njóta.
Ég gleymdi samt tannburstanum mínum. Það var það eina pirrandi við þessa ferð. Það er samt mikill misskilningur að það eigi að bursta sig daglega. Tannlæknar hafa alltaf talað um að það eigi að bursta sig 30 sinnum í mánuði. Allir sem þekkja tannlækna vita að þeir hafa aldrei sagt neinum að bursta tennurnar einu sinni á dag. Það væri jafn steikt og að segja að það þyrfti að bursta tennurnar í 12 sekúndur á klukkutíma fresti. Reglan er 30 sinnum í mánuði hvort sem þú gerir það allt sama daginn eða ekki. Og ég var búinn að bursta mig svona 47 sinnum fyrstu þrjá dagana í júlí þannig mér var slétt sama.
Ég tók mér stöðu fyrir framan vaskinn og virti það fyrir mér. Ég hef aldrei séð neitt glærara. Meira að segja vatnið í klósettinu var girnilegt. Svo hallaði ég mér fram og byrjaði að þamba. Ég hef örugglega drukkið tvo lítra. Ég hætti ekki. Ég drakk vatn í öllum stellingum. Þetta var örugglega besta vatnsdrykkja sem bæði ég og þessi vaskur höfðum stundað. Þegar ég var búinn að ljúka mér af lokaði ég munninum og fór niður.
Það var samt eitthvað skrítið bragð.
Þegar ég kem niður er fólk út um allt. Sumir eru að borða og aðrir eru inn í skólastofu. En það sem allir eiga sameiginlegt er að þeir eru með vatnsflösku við hendina. “Hvað eru allir komnir í bland?” hugsaði ég og settist niður. Tara kærasta bróður míns sat á móti mér og ég spurði:
Ég: Ertu með bland?
Tara: Nei ég er bara með vatn.
Ég: Afhverju ertu með það í flösku?
Tara: Af því að það þarf að sjóða vatnið hérna áður en maður drekkur það.
Sjóða vatnið? Þarna var ég alveg “Nei um hvað er hún að tala?”
Tara: Þú veist að það eru saurgerlar í vatninu hérna…
Ég: Ha?
Tara: Það eru saurgerlar í vatninu hérna.
Ég: Saurgerlar í vatninu??
Tara: Já, var enginn búinn að segja þér?
Ég: Nei það er enginn búinn að segja mér!!
Tara: Ó, ég hélt að allir vissu það…
Svo byrjaði hún að hlægja. Og ég var að drekka svona 2 lítra af þessu.
Næst fór fleira fólk að blanda sér í málið:
Guðrún frænka: Þú veist það eru miðar út um alla veggi…
Ég: Já ég kom ekkert hingað til að skoða einhverja miða!!
Svo byrjuðu allir að hlægja, nema ég. Og ég var ekki einu sinni með tannbursta.
Og ég var á leiðinni ball. Saurgerlastrákurinn. “Góður nýji rakspírinn þinn Pálmar“. “Er þetta ný tegund af extra tyggjó?“.
Oft heyrir maður að það að kyssa stelpur sem reykja sé eins og að sleikja öskubakka. En mig langar ekkert að heyra hvað er sagt um stráka sem drekka saurgerla. Og mér finnst eiginlega bara rangt að gera grín að því.
Og fyrir þá sem vita ekki hvernig saurgerlar líta út þá eru þeir einhvern veginn svona: