Takmarkinu náð? – Húshitunarkostnaður á svokölluðum „köldum svæðum“
Það var þann 14. janúar 2016 sem í Bændablaðinu birtist grein eftir Einar K. Guðfinnsson alþingismann undir nafninu: Langþráð baráttumál komið í höfn.
Þar lýsir hann áratuga baráttu sinni og fleiri góðra manna fyrir því að lækka húshitunarkostnað á svokölluðum „köldum svæðum“ til jafns við kostnað hjá þeim sem búa við þann munað að geta notað hitaveitu til að hita hús sín. Við lestur þessarar greinar vaknaði sú von í brjósti mínu að nú myndi rafmagnsreikningurinn lækka verulega.
Sú varð ekki raunin og kannske ekki von þar sem aðeins var tekið á öðrum aðalorsakavaldi þessa mikla húshitunarkostnaðar, en sjálfur orkukostnaðurinn var látinn óbreyttur. Enn sitjum við dreifbýlisbúar uppi með það, sem ég vil kalla óréttlæti, að orkuverð er nánast 50% hærra en hjá þeim sem í þéttbýli búa. Ég spyr. Hvers vegna? Eftir alla þessa baráttu fyrir jöfnun húshitunarkostnaðar á köldum svæðum sýnist mér að við stöndum nánast í sömu sporum og áður.
Ekki dreg ég efa einlægan vilja Einars og annarra, sem barist hafa fyrir jöfnun húshitunarkostnaðar á þessum köldu svæðum, sem ekki eru í þeirri aðstöðu að geta nýtt sér jarðhita til að hita upp hús sín, en aftur á móti fyllist maður vonleysi yfir því, að hægt verði að rétta okkar hlut í þessu mikilvæga máli, miðað við þann árangur sem þessi einarða barátta á Alþingi okkar Íslendinga hefur skilað. Í grein Einars kemur fram, að stefnt sé að því að húshitunarkostnaður í dreifbýli verði svipaður og hjá þeim hitaveitum sem dýrastar eru og þegar ég las fyrirsögn á grein hans taldi ég víst að því takmarki væri náð, sem er þó fjarri lagi. Flutningskostnaður á raforku til húshitunar hefur um árabil verið greiddur niður að hluta og ekki ber að vanþakka það og samkvæmt lögum, sem hann vitnar til, er flutningskostnaður á raforku til húshitunar greiddur niður að fullu frá 1. apríl sem vissulega er þakkar vert. Því takmarki virðist vera náð en hvernig stendur þá á því að raforkureikningur minn lækkar ekki?
Á undanförnum árum hef ég bara móttekið rafmagnsreikninginn og greitt hann án þess að grennslast eftir hvað lægi að baki þeim tölum, sem á honum voru. Ég gerðist því forvitinn og fór inn á vef Orkusölunnar til að fá yfirlit yfir taxtana, en fann þar ekki neitt annað en lýsingu á því hvernig Orkusalan breytir orkunni í STUÐ. Einhver hefur eflaust fengið eitthvað greitt fyrir þessa frábæru hugmynd, en taxtana fann ég ekki (enda eru tölvur alls ekki mitt sérsvið). Ég fór því inn á vef RARIK (er þetta ekki skammstöfun fyrir Rafmagnsveitur RÍKISINS) og þar gaf á að líta, og nú komst ÉG í stuð! Hvílík fjölbreytni! Þarna voru sem sagt allir taxtarnir og nú vaknaði spurning í huga mér hvort þetta væri í raun og veru ekki eitt og sama fyrirtækið, sem sendi bara reikninga út í tvennu lagi, annan fyrir orkuna og hinn fyrir flutninginn. Og þarna fann ég kannske skýringuna á því hvers vegna hitunarkostnaðurinn hjá mér er svona hár. Það er nefnilega ekki sama verð á orkunni hjá okkur, sem erum að þrjóskast við að dvelja í þessu dreifbýli og hinum, sem eru svo skynsamir að velja sér búsetu í þéttbýli. Kílówattstundin hjá mér kostar kr. 9.73 þegar búið er að taka tillit til dreifbýlisframlags og virðisaukaskatts, en í þéttbýli er gjaldið kr.6.46. Þarna munar nokkru (ca 50 %).
Af hverju er þessi munur á orkuverði í dreifbýli og þéttbýli? Er þetta svona miklu betra rafmagn sem ég fæ eða minni hætta á truflunum á orkuafhendingu? Þarna var að finna annan lið, fastagjald, og nú kom sama í ljós. Fastagjald í dreifbýli með virðisauka er kr. 35.188 á ári, en í þéttbýli kr. 22.318. Hvers vegna þessi munur? Getur hugsast að inni í þessum mun sé að finna dulinn flutningskostnað?
Ég hef spurt nokkra aðila um það hvernig þessi gjaldaliður hafi orðið til og hver hafi ákveðið þessa mismunun, en enginn hefur getað gefið mér skýringu á því. Það virkar stundum á mann eins og stofnanir taki jafnvel völdin af stjórnendum sínum og ákveði vissa hluti án þeirra aðkomu og ef leitað er upplýsinga þá er skýringin sú að þetta SÉ bara svona. Enn er einn liður, sem reyndar er alveg skiljanlegur, en það er jöfnunargjald, sem er kr. 0.30 á kwst. Þegar ég ræddi við starfsmann Orkustofnunar sagði hann að þetta kæmi ekkert við hvorki orkuverði né flutningskostnaði: Þetta er bara skattur! (Ég vona svo sannarlega að ég hafi nú ekki misskilið neitt.) Svo fór ég að skoða þetta á rafmagnsreikningnum mínum og þá sá ég að þessi skattur er innheimtur með 24% virðisaukaskatti á almenna orku og 11% skatti á orku til húshitunar. Ég skal viðurkenna að ég veit lítið um innheimtuaðferðir á skattheimtu ríkisins en ég man ekki eftir öðrum skatti, sem innheimtur er með virðisaukaskatti.
Ég hef í þessum orðum mínum lýst óánægju minni með mismunun og ójöfnuði milli þegna þessarar þjóðar, af hverju við sitjum ekki öll við sama borð þegar kemur að úthlutun þeirra náttúrugæða sem við eigum öll sameiginlega, hvar á landinu sem við búum. Þegar við lítum til þess að stóriðjan notar 85% af allri framleiddri orku þjóðarinnar, iðnaður og stórfyrirtæki nota 10% og við HIN notum 5% (skv. upplýsingum frá Orkustofnun) þá væri fróðlegt að fá reiknað út hversu mörg pro mill af þessum 5 prósentum fara til nota í dreifbýlinu, en mér vitanlega liggja þær tölur ekki fyrir. Það væri kannske verðugt verkefni t.d. fyrir Bændasamtökin að skipa sér í hóp með öðrum í baráttusveit fyrir bættum kjörum okkar dreibýlisbúa, því við erum jú á þeirra VERNDARSVÆÐI, – eða hvað?
Mér fyndist það t.d. vera verðugt markmið að allir landsmenn fengju almenna orku á sama verði. Mér reiknast til að við það myndi minn orkureikningur lækka um ca 120.000 á ári og væri það mikil kjarabót, jafnvel svo mikil að húshitunarkostnaður minn yrði hliðstæður við það sem er hjá þeim sem nota hitaveitu þar sem hún er dýrust.
Vel má vera að ég hafi misskilið eitthvað eða farið rangt með tölur og reynist svo biðst ég afsökunar á því og vænti þess að það verði þá leiðrétt af þar til bærum aðilum. Hitt er þó ljóst, og verður varla hrakið, að verulegur munur er á kjörum á raforkuverði eftir því hvar við búum þrátt fyrir þessa leiðréttingu á flutningskostnaðinum.
Ég vil að lokum þakka þeim sem unnið hafa að þessum málum fyrir okkur, sem í dreifbýli búum, þótt enn vanti mikið til að réttlætis sé gætt okkur til handa. En vonandi getum við áður en langt um líður tekið undir lokaorð í grein Einars Kristins þar sem hann „segist vona að þetta verði til heilla þeim byggðum og íbúum, sem hafa mátt þola sligandi kostnað á undanförnum árum við það eitt að halda á sér hita í húsnæði sínu“.
Og nú hefur síðasti rafmagnsreikningur minn, sem ég á að greiða þ. 2. júní, borist mér. Þar kemur í ljós að orkureikningurinn hækkar um rúmar 1.000 krónur, en reikningur yfir flutninginn lækkar um tæpar 1.000 krónur.
Það munar um minna.
Innri-Fagradal á vormánuðum í maí 2016
Sigurður Þórólfsson