Sundlaug á miðri göngubrú yfir Fossvog
Samkeppnin var hluti af alþjóðlegu keppninni Nordic Built Cities Challenge en Kársnes í Kópavogi var eitt af sex svæðum á Norðurlöndum sem valin voru til þátttöku ásamt svæðum í Malmö, Ósló, Kaupmannahöfn, Runavík í Færeyjum og í Espoo í Finnlandi. Meginmarkmið keppninnar var að efla nýsköpun og samkeppnishæfni Norðurlandanna á sviði sjálfbærni í byggðu umhverfi.
Vinningstillagan ber nafnið Spot on Kársnes og segir í umsögn dómnefndar að hún sé hvort tveggja djörf og dýnamísk og að vel sé brugðist við áskoruninni um tengingar innan höfuðborgarsvæðisins, aðgengi að Kársnesi og lífsgæði í nýju hverfi. Í vinningstillögunni er lagt til að tvær brýr tengist Kársnesi, annarsvegar yfir Fossvoginn til Reykjavíkur og hinsvegar yfir á Bessastaðanes. Brýrnar verði fyrir gangandi vegfarendur, hjólreiðarmenn og almenningssamgöngur í stað einkabílsins. Tillagan breyti tengingum innan höfuðborgarsvæðisins með róttækum hætti.
Þá sé hlutverk hvorrar brúar útvíkkað því gert er ráð fyrir sundlaug á miðri brúnni yfir Fossvog og að hin brúin yfir á Bessastaðanes verði hluti af bíllausri eyju sem sé nýtt fyrirbæri á höfuðborgarsvæðinu. Þá segir í umsögninni að tillagan sé sterk jafnvel þótt einhverjir þættir hennar verði ekki að veruleika.
Að verðlaunatillögunni standa Dagný Bjarnadóttir landslagsarkitekt, Anders Egebjerg Terp landslagsarkitekt og Gunnlaugur Johnson, arkitekt. Verðlaunaféð er andvirði tæpra 3,8 milljóna íslenskra króna.