Vatnsflaska úr vatni sem brotnar niður í náttúrunni
„Ég setti mér það markmið að búa til vatnsflösku úr vatni,“ segir Ari Jónsson nemi í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur hannað og útbúið flösku úr gelatíni, rauðþörungum og vatni sem brotnar niður í náttúrunni á nokkrum dögum.
Flaskan er útkoman úr áfanga sem Ari sótti í Listaháskólanum sem nefnist Ferli skapandi hugsunar. Þar valdi Ari sér efni til þess að vinna með.
„Ég valdi mér gelatín og agar sem unnið er úr rauðþörungum. Ég stúderaði þau og reyndi að finna veikleika og styrkleika þessara efni og hvernig þau vinna saman. Þannig reyndi ég að finna einhverja nýja vinkla á það hvernig hægt er að nota styrkleika þessara efna“, segir Ari.
Úr varð flaskan sem er gerð þannig að agar er blandað í vatn og úr verður hlaup. Hlaupið er hitað og síðan kælt, Ari mótar svo form flöskunnar áður en hann tekur innan úr henni. Úr verður flaska sem brotnar niður á nokkrum dögum í umhverfinu líkt og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan sem rúmlega fimm milljón manns hafa horft á.
„Svo lengi sem að vatnið er í henni þá heldur hún forminu, þegar flaskan er tóm byrjar hún að brotna niður og það gerist á nokkrum dögum,“ segir Ari.
Unnið að því að koma flöskunni í framleiðslu
Í raun er flaskan einnig ætileg enda er hún gerð úr náttúrulegum efnum. Ari kynnti flöskuna á viðburði í kringum Hönnunarmars og hefur hún vakið talsverða athygli fyrir utan landsteinana. Er fjallað um hana í fjölmörgum miðlum erlendis.
Ari segir að flaskan geti verið ákveðið mótsvar við gríðarlegri plastnotkun mannskeppnunnar en talið mögulegt að árið 2050 verði meira af plasti í sjónum en fiskur. Ari hefur hug á því að koma flöskunni í framleiðslu og hefur innlent fyrirtækinu sýnt verkefninu áhuga.
„Það er eitthvað aðeins í kortunum en það er á algjöru byrjunarstigi.“ segir Ari. „Það veltur svolítið á því að ég finni lausnir við ýmsum vandamálum varðandi þetta,“ en Ari á meðal annars eftir að finna upp aðferð til þess að setja tappa á flöskuna.
Heimild: Vísir