Gólfhitakerfi – Geislahitunarkerfi

Grein/Linkur:  Gólfhitakerfi eru einnig geislahitunarkerfi

Höfundur: Sveinn Áki Sverrisson

Heimild: mbl

.

golfhiti

.

Desember 2003

Gólfhitakerfi eru einnig geislahitunarkerfi

Hvenær verður hitakerfi geislahitunarkerfi? spyr Sveinn Áki Sverrisson véltæknifræðingur, VSB verkfræðistofu ehf. Eðlilegt er að miða það við þegar varmagjöf í formi hitageisla er meiri en helmingur hitans frá hitakerfinu.

Sigurður Grétar Guðmundsson skrifar í pistli sínum Lagnafréttir mánudaginn 22. desember 2003 um hitakerfi, þar sem hann varar fólk við að rugla saman geislahitun og gólfhita. Þar segir Sigurður m.a: „að gólfhiti hiti með lofthreyfingu alveg eins og ofnakerfi, gólfhitakerfi hitar nær ekkert með geislum, nefnið það því aldrei gólfgeislakerfi“. Frá öllum hitagjöfum streymir hiti með geislum og með lofthreyfingu, t.d. gefur venjulegur sléttur ofn 50-60% frá sér af varma sem geislun (Rb-rit 55 Hitun húsa bls. 123, útg. 1987). En hvenær verður hitakerfi geislahitunarkerfi? Eðlilegt er að miða það við þegar varmagjöf í formi hitageisla er meiri en helmingur hitans frá hitakerfinu.Þannig er því háttað með gólfhitakerfi, enda er geislahlutinn meiri en 60-70% af heildarvarmagjöf. Það er því ekki rétt fullyrðing hjá Sigurði í grein sinni í Morgunblaðinu. Eflaust er Sigurður að aðgreina eldri loftgeislakerfi (með of háum yfirborðshita), frá nýtísku gólfhitakerfum.

Segja má að geislahlutinn sé góðu fréttirnar við gólfhitakerfin. Við kunnum að meta það að gólfflísarnar eru heitar en vegna geislunar gólfhitakerfis upplifum við innihita þægilegan og jafnan, og getum jafnvel sætt okkur við lægri lofthita en ef um ofnakerfi væri að ræða.

Í byggingum með mikla lofthæð er gólfhiti góður kostur til að koma í veg fyrir hitasöfnum við þak, með tilheyrandi orkusóun. Margir velja flísar á stofugólfið. Fæturnir eru næmir fyrir köldu yfirborði og flísar draga hratt til sín hita frá líkamanum í gegnum fæturna sem við upplifum sem kulda.

Kjörhiti á gólfi 24-26°C

Til að fyrirbyggja þetta verður að setja gólfhita undir flísar í vistarverum fólks. Kjörhiti á gólfi er 24-26°C, og er óháður því hvort sumar eða vetur er. Fólk sem býr í slíkum húsum þarf að gera sér grein fyrir því að hitareikningurinn verður hærri en í samsvarandi húsi þar sem gólfefni er parket eða teppi, ef ekki er slakað á hita á gólfum á sumrin og þegar ekki er þörf á að kynda.Oft er spurt hvort gólfhiti sé heppilegur undir parket. Því má svara játandi. Parket úr tré er lifandi efni sem þenst og dregur sig saman eftir rakainnihaldi lofts. Heppilegast er að raki innanhúss sé á bilinu 30-60% til þess að draga úr hreyfingu og hættu á sprungumyndun á parketi. Gólfhiti lækkar rakainnihald lofts við gólfið, þar sem hitinn við gólf er hærri en innihitinn.

27°C er talinn hæsti yfirborðsgólfhiti fyrir parket (Trägolv på golvvärme, Golvbranschen,GBR 1:2003, www.golvbranchen.se). Hámarksafköst eru 70-75 w/m² fyrir parketgólf, en til samanburðar geta afköst gólfhita verið 100 w/m² fyrir gólf með dúk, teppi eða flísar, en þá má yfirborðsgólfhiti vera 29°C, og hærri á jaðarsvæðum við útveggi. Því þarf lagnahönnuður að reikna út varmaþörf húss og gera ráðstafanir ef bæta þarf við hitagjöfum (ofnum) svo ekki fari illa.

Fleira áhugavert: