Raforka – Verð/eftirspurn mun hækka, sagan 2015
Grein/Linkur: Raforka mun hækka í verði
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Desember 2015
Raforka mun hækka í verði
Alþjóða orkustofnunin (IEA) spáir því að eftirspurn eftir raforku eigi eftir að aukast mikið í heiminum á næstu áratugum. Og það sem er ennþá áhugaverðara; IEA álítur að stærstur hluti framleiðsluaukningarinnar muni verða raforka frá endurnýjanlegum auðlindum.
Þessi þróun mun leiða til þess að losun koltvíoxíðs frá raforkuframleiðslu mun aukast miklu hægar en aukning framleiddrar raforku. Sbr. grafið hér til hliðar, sem er úr kynningu IEA sem fram fór í London í nóvember s.l. (2015), skömmu fyrir Parísarráðstefnuna um varnir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Grafið hér að neðan er einnig úr þeirri kynningu IEA.
Gangi þessi framtíðarsýn IEA eftir þá markar það mikil tímamót. Undanfarin ár hefur það að jafnaði verið raforkuframleiðsla með kolum sem hefur aukist hraðast í heiminum (sem skýrist einkum af hraðri uppbyggingu kolaorkuvera í Kína). Skv. IEA mun þarna verða gjörbreyting og endurnýjanleg raforka taka afgerandi forystu sem
hraðast vaxandi tegund raforkuframleiðslu. Og að senn muni græn raforka nema um helmingi af nýrri raforkuframleiðslu í heiminum.
Að mati IEA mun hraður vöxtur endurnýjanlegrar raforku verða til þess að um 2030 muni hlutfall raforku frá
endurnýjanlegum náttúruauðlindum verða orðið hærra en hlutfall kolaorkunnar (en í dag er hlutfall kola í raforkuframleiðslu um helmingi hærra en hlutfall grænu orkunnar). Þetta, ásamt stóraukinni nýtingu kjarnorku, muni leiða til þess að magn koltvíoxíðs frá raforkuframleiðslu sé nú nálægt hámarki og muni aukast lítt á komandi áratugum.
Eins og sjá má á neðra grafinu spáir IEA því að aukning endurnýjanlegrar raforkuframleiðslu verði mest í vindorku. Enda er það mun ódýrari aðferð til raforkuframleiðslu heldur en t.d. sólarorka eða virkjun hafstrauma. Ódýrast er að virkja vatnsaflið, en vegna takmarkaðra auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða er ekki að búast við jafn hraðri aukningu í virkjun vatnsafls eins og vindorku.
Vegna kostnaðar við virkjun t.a.m. vindorku og sólarorku er fyrirséð að raforkuverð muni hækka umtalsvert frá því sem nú er. Því annars er útilokað að unnt verði að fjármagna þær framkvæmdir sem eru forsenda þess að framtíðarsýn IEA gangi eftir (grafið hér til hliðar er úr nýlegri skýrslu IEA um kostnað vð nýja raforkuframleiðslu). Og þó svo árangurinn af Loftslagsráðstefnunnar í París sé ennþá auðvitað óviss, er sú niðurstaða í þá átt að auka líkur á því að orkubúskapur
heimsins þróist með þeim hætti sem IEA gerir ráð fyrir. Og að raforkuverð muni hækka.