Grænlandi – Áhugaverð verkefni, áhættusöm
Grein/Linkur: Áhugaverð en áhættusöm námuverkefni á Grænlandi
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Febrúar 2016
Áhugaverð en áhættusöm námuverkefni á Grænlandi
Á Grænlandi finnast fjölmörg svæði sem hafa að geyma gimsteina og ýmis verðmæt frumefni. Þar á meðal er gull og fleiri málmar.
Allt frá því Hans Egede kom til Grænlands snemma á 18. öld hafa menn leitað svæða á Grænlandi sem kunna að vera áhugaverð fyrir námuvinnslu. Í lok 18. aldar stunduðu Þjóðverjar kolavinnslu á Grænlandi og á 19. öld komu Englendingar þar á fót koparvinnslu. Smávægilegur námurekstur átti sér stað á Grænlandi á 20. öld, en allt var þetta fremur lítið í sniðum. Enda landið erfitt yfirferðar, nánast engir innviðir og námurnar óralangt frá mörkuðunum.
Svo fór að námuvinnsla lagðist svo til alveg af á Grænlandi í upphafi tíunda áratugar liðinnar aldar (þ.e. um 1990). En eftir að ný öld gekk í garð, 21. öldin, urðu breytingar sem endurvöktu mjög áhuga á námuvinnslu á Grænlandi. Efnahagsuppgangurinn í Kína jók eftirspurn eftir ýmsum málmum og frumefnum. Og árið 2009 fengu Grænlendingar yfirráð yfir náttúruauðlindum sínum.
Þetta tvennt varð til þess að stjórnvöld á Grænlandi tóku að undirbúa útboð á leitar- og vinnsluleyfum á bæði olíu (á landgrunninu) og málmum og ýmsum jarðefnum (á landi). Og áhuginn lét ekki á sér standa. Á næstu árum fengu fjölmörg fyrirtæki leyfi til að leita málma og ýmissa annarra efna á Grænlandi (exploraition licenses) og nokkur vinnsluleyfi (exploitation licences) hafa verið veitt. Á vefsvæði grænlenska stjórnarráðsins má sjá heildarlista yfir þessi leyfi og er nýjasti listinn dagsettur 1. janúar s.l. (2016).
Það er athyglisvert að samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins í vikunni sem leið er íslenskt fyrirtæki, ARC hf (sem mun standa fyrir Arctic Resources Capital) handhafi tveggja af sex námuvinnsluleyfum á Grænlandi. Þetta er reyndar ekki í samræmi við gögn á vef grænlenska stjórnarráðsins. Því þar kemur fram að ARC (ARC Mining) er einungis skráð fyrir einu leyfi, sem er leyfi nr. 2014/08. Og þar er um leitarleyfi að ræða en ekki vinnsluleyfi. En þegar aftur á móti er farið inn á vef dönsku landfræðistofnunarinnar (GEUS) má sjá að þar er tiltekið að ARC Mining ehf. hafi sannarlega fengið úthlutað tveimur vinnsluleyfum á Grænlandi. Og þar má reyndar líka sjá að vinnsluleyfin sem úthlutað hefur verið á Grænlandi eru fleiri en sex – en það skiptir ekki öllu.
Þessi tvö vinnsluleyfi íslenska ARC eru annars vegar leyfi nr. 2014/07 og hins vegar leyfi nr. 2014/09. Þessi tvö leyfi eru vegna sinknámu við Qivaaqi eða Hudsonland, 150 norður af Meistaravík, og vegna gullnámu við Nakatagaq suður af Daneborg. En af einhverjum ástæðum eru þessi tvö leyfi ekki tilgreind á fyrrnefndum lista grænlensku landstjórnarinnar frá 1. febrúar s.l. (2016). En þau eru sem sagt skýrlega tilgreind á vef danska GEUS.
Í báðum tilvikum virðist vera um að ræða leyfi sem í reynd eru endurvakin. Þ.e. þarna hefur áður verið stunduð námuvinnsla og tækifærið liggur í því að nálgast nýjar æðar á svæðinu. Um leið eru nú þegar ákveðnir innviðir á umræddum svæðum, sem valda því að verkefnin eru ekki eins flókin eða dýr eins og ella væri.
Það er ánægjulegt að íslensk fyrirtæki og Íslendingar séu farnir að huga að nýtingu verðmæta sem Grænland hefur að geyma. Um leið er öll fjárfesting af þessu tagi á Grænlandi afar áhættusöm. Og eins og staðan er á hrávörumarkaði í dag er hæpið að umrædd vinnsluleyfi munu skapa ARC arð á næstu árum. En þar að kemur að verð á málmum mun hækka á ný. Og þá kann námuvinnsla á Grænlandi að verða ábatasöm.