Vatnsleiðslur Rómverja – Verkfræðiafrek fornaldar
Grein/Linkur: Vatnsleiðslur Rómverja – mikil verkfræðiundur
Höfundur: Vottar Jehóva
.
.
Janúar 2015
Vatnsleiðslur Rómverja – mikil verkfræðiundur
Hvers vegna var þörf á vatnsveitu?
Forðum daga voru borgir yfirleitt reistar við gjöful vatnsból. Róm var engin undantekning. Í fyrstu var nóg vatn að fá úr Tíberfljóti og nærliggjandi uppsprettum og brunnum. En á fjórðu öld f.Kr. var vöxtur borgarinnar orðinn mjög hraður og vatnsþörfin jókst eftir því.
Fáir voru með rennandi vatn á heimili sínu og Rómverjar reistu því hundruð baðhúsa, bæði til einka- og almenningsnota. Fyrsta almenna baðhúsið í Rómaborg fékk vatn frá Aqua Virgo sem tekin var í notkun árið 19 f.Kr. Sá sem lagði þá vatnsleiðslu hét Marcus Agrippa og var náinn vinur Ágústusar keisara. Hann var vellauðugur og notaði stóran hluta eigna sinna til að bæta og stækka vatnsveitu Rómar.
Baðhúsin urðu jafnframt félagsmiðstöðvar og við þau stærri voru meira að segja garðar og bókasöfn. Eftir að veituvatnið, sem rann stöðugt, hafði þjónað hlutverki sínu í baðhúsunum var því veitt út í skólpræsi. Þar skolaði það burt úrgangi, meðal annars úr kömrum baðhúsanna.
Lagning og viðhald
Þegar minnst er á vatnsleiðslur Rómverja hugsarðu ef til vill um mikilfenglegar bogabrýr sem teygja sig eins langt og augað eygir. Sannleikurinn er þó sá að vatnsleiðslurnar liggja að mestu leyti neðanjarðar og innan við 20 prósent eru bogabrýr. Þetta var mun hagkvæmari lausn því að þannig var vatnsleiðslunni hlíft við veðrun og áhrifin á akra og umhverfi voru í lágmarki. Sem dæmi má nefna aðAqua Marcia, sem var fullgerð árið 140 f.Kr., var um 92 kílómetra löng en aðeins 11 kílómetrar lágu um bogabrýr.
Áður en vatnsleiðsla var lögð könnuðu verkfræðingar vatnsbólið, hve tært vatnið var, straum þess og hvernig það bragðaðist. Þeir könnuðu einnig heilsufar heimamanna sem drukku vatnið. Eftir að samþykkt var að nýta vatnsbólið reiknuðu mælingamenn út hvar best væri að leggja leiðsluna, lengd hennar, vídd og halla. Þrælar voru notaðir til að vinna verkið. Það gat tekið mörg ár að leggja leiðsluna þannig að það var dýrt, ekki síst ef byggja þurfti bogabrýr.
Auk þess þurfti að viðhalda leiðslunum og verja þær. Um tíma unnu um 700 manns við það hjá vatnsveitu Rómaborgar. Þegar vatnsleiðslur voru lagðar var einnig gert ráð fyrir viðhaldi þeirra. Til dæmis voru gerðir brunnar til að menn hefðu aðgang að neðanjarðarlögnum. Hægt var að veita vatninu frá um tíma ef vatnsleiðslan þarfnaðist viðgerðar.
Vatnsveita Rómaborgar
Snemma á þriðju öld e.Kr. lágu 11 stórar vatnsleiðslur til Rómaborgar. Sú elsta, Aqua Appia, var lögð árið 312 f.Kr. Hún var rúmlega 16 kílómetra löng og lá næstum öll neðanjarðar. Enn eru varðveittir hlutar af Aqua Claudia en hún var næstum 69 kílómetra löng. Um 10 kílómetrar af henni voru bogabrýr, þær hæstu 27 metra háar.
Það var ekkert smáræði sem vatnsleiðslurnar fluttu með þyngdaraflinu einu til Rómaborgar. Aqua Marcia, sem minnst var á fyrr í greininni, flutti um 190.000 tonn af vatni til borgarinnar á degi hverjum. Innan borgar safnaðist vatnið í þrær og þaðan var því veitt í ýmsar áttir, ýmist í aðrar þrær eða beint til notenda. Sumir telja að vatnsveita borgarinnar hafi getað skilað rúmlega 1.000 lítrum á hvern borgarbúa á dag þegar mest var.
Rómaveldi stækkaði og „vatnsleiðslurnar fylgdu Rómverjum hvert sem þeir fóru,“ segir í bókinni Roman Aqueducts & Water Supply. Þeir sem ferðast til Litlu-Asíu, Frakklands, Spánar og Norður-Afríku geta enn horft með aðdáun á þessi verkfræðiundur fornaldar.