Gólfhiti – Þægilegur, heilnæm upphitun
Grein/Linkur: Gólfhiti þægilegur og hollur
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Febrúar 1994
Gólfhiti þægilegur og hollur
Ekkert upphitunarkerfi hefur átt við jafnmikla fordóma að stríða hérlendis og gólfhiti. Ástæðan er sú að fyrir fjörutíu árum tókum við upp á okkar arma nýtt hitakerfi sem nefnist geislahiti. Rörakerfi, þá ætíð úr samsoðnum járnrörum, var steypt inn í loftplötur húsa. Um það rann vatn sem var 4050 stiga heitt. Upphitun húsnæðis varð að mestu með geislun niður á við, en mjög lítið með lofthreyfingu eins og frá ofnum. Af því leiddi að ef setið var lengi við borð varð mönnum kalt á fótum; borðið hindraði geislun.
Svipuð lagnatækni
Gólfhitakerfi eru lögð á svipaðan hátt og geislahiti. Þess vegna halda margir að þetta séu samskonar kerfi og þau virki eins. En það er sá stóri munur á að gólfhitakerfið er lagt í gólfið en ekki loftið. Upphitunin gerist því að mestu leyti með lofthreyfingu en ekki geislun. Það er því alrangt að kalla gólfhitakerfi geislahitun. Þessi kerfi eru nú oftast lögð úr plaströrum; þó þekkist að nota eirrör.
Það er jafn óþægilegt að standa á of heitu gólfi sem of köldu. Þar komum við að mergnum málsins.
Yfirborðshiti á gólfi á ekki að fara upp fyrir 27 stig og ekki niður fyrir 15 stig. Ef gólfhitakerfi eru rétt hönnuð, rétt lögð og með nákvæmri stýringu, fer gólfhitinn ekki upp fyrir hámarkið. Þetta er eina kerfið sem tryggir jafnan hita frá gólfi til lofts, það er tvímælalaust þægilegasta og heilnæmasta upphitunin.
Hitanemi líkamans
Í nýlegu viðtali við einn af okkar fremstu einsöngvurum var hann spurður að því hvort söngvarar væru ekki sífelt hræddir um að kvefast; gengju um dúðaðir í marga trefla. Söngvarinn sagði það ástæðulaust. Aðalatriðið væri að vera vel búinn til fótanna, þá væri annað í lagi.
Þetta þyrftu fleiri að vita en söngvarar. Það er staðreynd að fæturnir, fyrir neðan ökla, eru hitanemar líkamans. Þess vegna er gólfkuldi einn af óvinum heilsunnar.
Gerðu svolitla tilraun þegar þú sest næst í heitasta pottinn í sundlaugunum. Hann er svo heitur að þú hefst tæpast við. Sittu kyrr og réttu fæturna upp úr vatninu. Hvað gerist?
Prófaðu!
Því miður eru mörg hitakerfi þannig, bæði í íbúðarhúsnæði og ekki síður á vinnustöðum, að munur á hitastigi við gólf og loft er alltof mikill. Það líður engum vel í vistarveru þar sem hitinn er 10 stig við gólf en 30 stig við loft. Að ekki sé minnst á orkusóun sem því fylgir.
Hvað um ofna?
Á þá að sleppa ofnum? Nei, í hverju landi verður að sníða hitakerfi að þeim hitagjafa sem fyrir hendi er. Hérlendis er það í flestum tilfellum jarðvarmi.
Á þeim fáu stöðum , þar sem jaðvarmi er lághiti (50 stig), er tvímælalaust rétt að nota eingöngu gólfhita; þar þjóna ofnar engum tilgangi. En víðast hvar er jarðvarmi um eða yfir 75 stigum. Þar er vænlegur kostur að nota bæði ofna og gólfhita.
Er það ekki flókið mál? Nei, ákaflega einfalt. Vatnið rennur fyrst inn í ofna og frá þeim í gólfhitakerfi. Þannig lækkum við hitann á vatninu áður en það fer í gólfið; tryggjum að yfirborðshiti þess fari ekki upp fyrir 27 stig. Ofnarnir verða að sjálfsögðu minni; þar sem annars væru tvö- eða þrefaldir ofnar verða þeir allir einfaldir. Taka minna pláss, fara betur.
En hvernig á að stýra hitanum? Að sjálfsögðu með sjálfvirkum ofnlokum; það þarf enga sérstaka stýringu á gólfhita, þar sem ofnar og gólfhiti er eitt og sama kerfið. Það er sama hvort hitinn kemur frá ofni eða gólfi, hann hitar sama rýmið og hefur því áhrif á ofnloka annaðhvort til lokunar eða opnunar.
Þó að það sé parkett eða teppi á gólfi er ekkert því til fyrirstöðu að gólfhiti komi að gagni.