Íslensk raforka, eðalvara – Ekki hrávara

Grein/Linkur:  Kína þarf miklu meira

Höfundur:  Ketill Sigurjónsson

Heimild:  Orkubloggið

.

.

Júlí 2017

Ketill Sigurjónsson

Hrávara verður eðalvara

Komin er fram delluhugmynd um álver í Skagabyggð. Hugmyndin er einfaldlega óraunhæf því álver þar getur ekki orðið að veruleika. Nema með niðurgreiddri fjármögnun þar sem íslensk eðalvara yrði seld sem hrávara og því á botnverði. Slíkt væri bæði andstætt eðlilegum viðskiptalegum forsendum og mjög óskynsamleg meðferð á þeim verðmætum sem íslensk orka felur í sér.

Viðskiptalegar forsendur nýs álvers eru ekki fyrir hendi

Það voru ekki viðskiptalegar forsendur til að álver yrði byggt við Húsavík. Og það voru ekki viðskiptalegar forsendur til þess að álver yrði byggt í Skagafirði. Og það eru ekki viðskiptalegar forsendur til að álver rísi í Helguvík. Sama gildir um nýjar hugmyndir um álver annars staðar á Íslandi. Þetta er sá raunveruleiki sem hefur verið að mótast á síðustu áratugum og þó hvað hraðast á síðustu tíu árum eða svo.

Alver-NV-landi-yfirlysing-juli-2015

Alver-NV-landi-yfirlysing-juli-2015 – SMELLA Á MYNDIR TIL AÐ STÆKKA

Verð á áli og kostnaður við raforkuöflun hér veldur því að allar hugmyndir um ný álver hér á Íslandi eru óraunhæfar. Nýtt álver mun ekki rísa á Íslandi nema það yrði byggt á öðrum forsendum en viðskiptalegum. Svo sem að ákveðið yrði að álverið fengi raforku sem í reynd væri niðurgreidd af hinu opinbera og/eða að fyrirtæki eða lífeyrissjóðir myndi niðurgreiða lánsfé til álversuppbyggingarinnar.

Það er næg óbeisluð orka á Íslandi til að reisa nýtt álver. Það myndi þó taka langan tíma að virkja næga orku fyrir álver (ásamt því að reisa ný flutningsmannvirki til að koma raforkunni til álversins). Af þeirri ástæðu einni gæti nýtt álver ekki verið gangsett fyrr en eftir fjölda ára. En jafnvel þó svo bygging álvers sé þannig fræðilega möguleg innan áratugar eða svo, strandar hugmyndin á viðskiptalegum forsendum. Ekkert orkufyrirtæki á Íslandi mun sjá hag í því að selja raforku til nýs álvers.

Orkubylting hefur átt sér stað – orkumarkaðir hafa gjörbreyst

Á síðustu árum og átatugum hafa geysilegar breytingar orðið á raforkumörkuðum heimsins. Þar skiptir mestu aukin og almenn áhersla á að hlutfall raforku frá endurnýjanlegum auðlindum aukist. Þetta merkir að eftirspurn eftir slíkri raforku hefur snaraukist, sem lýsir sér vel í mikilli aukningu á sólar- og vindorkuverum víða um heiminn.

BNEF-Energy-Outlook-2015-1

BNEF-Energy-Outlook-2015-1

Þessi þróun var þegar byrjuð að krafti þegar Orkubloggið hóf göngu sína árið 2008. Þá skrifaði Orkubloggarinn að við eigum eftir „að upplifa miklar og jákvæðar tækniframfarir og aukningu í nýtingu á endurnýjanlegri orku“ og að „mestum uppgangi spái ég í nýtingu sólarorku“. Þessi orð eiga jafn vel við í dag ef ekki ennþá betur. Því síðustu árin hefur t.a.m. kostnaður við framleiðslu sólarorkurafmagns lækkað verulega og slík raforkuframleiðsla því sífellt áhugaverðari og útbreiddari.

Í þessu sambandi má nefna glænýja spá Bloomberg New Energy Finance (sbr. grafið hér að ofan). Þar kemur fram að til ársins 2040 muni fjárfesting í grænni raforkuframleiðslu nema um 2/3 allrar fjárfestingar í nýrri raforkuframleiðslu. Og að þar verði fjárfesting í sólarorku langmest.

Íslensk raforka er ekki lengur hrávara heldur eðalvara

Það er eðlilegt að mestum vexti sé spáð í virkjun sólarorku. Því þar er um að ræða endurnýjanlega og óþrjótandi orkulind (þegar miðað er við tímaskyn mannkyns – sólin mun jú á endanum brenna upp en það er dulítill tími þangað til). Það er engu að síður svo að sú orkuvinnsla er og verður miklu dýrari en kostnaðurinn við að virkja íslenskan jarðvarma og ennþá frekar hið stýranlega íslenskt vatnsafl.

Helstu orkukostir Íslands eru því einhverjir þeir hagkvæmustu og eftirsóttustu sem um getur. Og þróunin á raforkumörkuðum heimsins veldur því að héðan í frá verður okkur kleift að selja íslenska raforku sem eðalvöru – í stað þess að selja hana fyrst og fremst sem hrávöru til stóriðju eins og við höfum stundað fram til þessa. Þetta merkir að arðsemi af raforkuvinnslu á Íslandi hefur alla möguleika til að fara jafnt og þétt vaxandi. Þarna liggja mikil og jákvæð tækifæri fyrir hina íslensku þjóð. En það er okkar að nýta þau tækifæri. Það gerum við ekki með því að taka eðalvöruna og selja hana sem hrávöru.

Fleira áhugavert: