Vatnsúðakerfi – Besta vopnið
Grein/Linkur: Vatnið er versti óvinur eldsins
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Apríl 1994
Vatnið er versti óvinur eldsins
Í hverri viku berast fréttir af eldsvoðum. Það óhugnanlegasta við þær fréttir er að stór hluti eldanna er kveiktur vísvitandi í skjóli myrkra nátta af sjúku fólki. Svo virðist sem lögregla, slökkvilið, húseigendur og almenningur standi ráðþrota gegn þessum vágestum.
En eitt er öruggt; eldurinn verður aldrei haminn að fullu. Eldsvoðar munu áfram fylgja okkur. En það má setja á þá nokkra hlekki.
Vatnsúðakerfi besta vopnið.
Ekki er nokkur vafi á að ýmiss konar viðvörunarkerfi gera mikið gagn og hafa oftar en ekki bjargað mannslífum. En viðvörunarkerfi er ekki slökkvitæki; það sjálft slekkur ekki eldinn en heldur skaðanum í skefjum þar sem fljótar er brugðist við.
Vatnsúðakerfi, öðru nafni „sprinkler“, er hvarvetna álitið öruggasta vörnin gegn brunatjóni. Örstutt lýsing af kerfinu; röranet liggur undir lofti með mörgum stútum, allt eftir stærð rýmisins. Ef eldur eða hiti nær að hafa ákveðin áhrif á stútana opnast þeir og úða vatni.
Slökkvilið hefur tekið til starfa áður en brunaliðið er komið á staðinn.
Sofið á verðinum
Við heimsókn í eitt stærsta og framsæknasta tréiðnaðarfyrirtæki landsins vakti það athygli gesta að ekkert slökkvikerfi var í vinnusölum. Þegar spurt var hvernig á því stæði var svarið; að setja upp vatnsúðakerfi er of dýrt, við höfum ekki efni á því.
Spurningin er; hafa menn efni á því að setja ekki upp slíkt „björgunarnet“. Hver bruni er ekki aðeins skaði fyrir eiganda húseignar eða fyrirtækis. Hann er að sjálfsögðu mikill skaði fyrir tryggjandann. En þegar verðmæti hverfa í gin eldsins er það skaði alls þjóðfélagsins.
Þess vegna kemur okkur öllum við hvernig hver og einn húseigandi eða eigandi fyrirtækis ver eigur sínar gegn bruna.
Það er ekki hans einkamál.
Norskar reynslutölur
Norskur húsgagnaframleiðandi rak fyrirtæki sitt í 3.000 fermetra húsnæði. Hann greiddi árlega 1.750.000 kr. ísl. í brunatryggingu og 2.250.000 í tryggingu vegna framleiðslustöðvunar eða samtals 4 milljónir á ári.
Sjálfsábyrgð vegna brunatjóns var 1.500.000 kr.
Sá góði maður lét setja upp hjá sér slökkvikerfi, „sprinkler“. Að þeirri framkvæmd lokinni lækkuðu tryggingargjöld hans úr 4.000.000 kr. á ári í 1.650.000 kr. og sjálfsábyrgðin lækkaði úr 1.500.000 kr. í 250.000 kr.
Vonandi hefur enginn ruglast í þessari talnarunu en undirstrikað er að þetta eru íslenskar krónur.
Spurningin sem hlýtur að vakna er þessi; standa íslenskum hús- og fyrirtækjaeigendum eitthvað svipaðar kostnaðarlækkanir til boða ef þeir efla eldvarnir með uppsetningu vatnsúðakerfa?
Norðmenn hafa sett sér það takmark að efla svo brunavarnir, með uppsetningu vatnsúðakerfa, að stórbrunum fækki um 50%
Það munar um minna.
Eigum við að gera árið 1995 að ári baráttunar gegn brunatjónum?
Tvennt yrði þar árangursríkast; almenn vakning um nauðsyn brunavarna og uppsetning vatnsúðakerfa í sem flest fyrirtæki og stofnanir.