Nýting jarðhita, samstarf – Orkuveitan, Ölfus

Grein/Linkur:  Orkuveitan og Ölfus í samstarf um nýtingu jarðhita

Höfundur: Ölfus cluster þekkingarsetur

Heimild:

.

.

Nóvember 2023

Orkuveitan og Ölfus í samstarf um nýtingu jarðhita

Orkuveita Reykjavíkur, sveitarfélagið Ölfus og Títan tilkynntu á sameiginlegum fundi sem haldinn var 28. nóvember sl. um áform um að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi með samstarf um nýtingu jarðhita í Ölfusdal í huga.

Þá var á fundinum skrifað undir viljayfirlýsingu milli OR og sveitarfélagsins Ölfus. Fram kom að í því fælist að sveitarfélagið og OR séu að snúa bökum saman í þeim sameiginlegu markmiðum sínum að nýta orkuauðlindirnar sem þeim er treyst fyrir með ábyrgum og hagkvæmum hætti.

Fáist rannsóknarleyfið með forgang að nýtingu er fyrirhugað að skrifa undir viljayfirlýsingu um nýtingu jarðhitaauðlindarinnar til framleiðslu á rafmagni og heitu vatni með ábyrgum hætti og lágmörkun umhverfisáhrifa að leiðarljósi. Einnig er lögð áhersla á að afurðir frá virkjuninni verði nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.

Fyrirhugað samstarf var innsiglað með undirritun viljayfirlýsingar í Elliðaárstöð í dag, sem er nýr áfangastaður Orkuveitunnar í Elliðaárdal.

Mikilvægt að flýta orkuskiptum og tryggja orkuöryggi

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði við þetta tilefni að hans hlutverk væri m.a. að huga að orkuöryggi í landinu og einn liður í því væri að leiða saman ólíka aðila til samstarfs.

„Það skiptir öllu máli að allir aðilar vinni saman til þess að flýta orkuskiptum og tryggja orkuöryggi á svæðinu og landinu öllu. Ég fagna því að sveitarfélagið Ölfus og Orkuveitan nái saman um að halda áfram með þessi mikilvægu verkefni í góðu samkomulagi við hlutaðeigandi aðila,“ segir Guðlaugur Þór.

Samstarfinu fagnað

Staðfest er að Ölfusdalur er ríkur af jarðhitaauðlindum en Veitur nýta þær til húshitunar í Hveragerði í dag. Rannsóknir hafa farið fram  á svæðinu um árabil og þar eru taldar líkur á því að hægt sé að nýta auðlindina betur til framleiðslu á bæði rafmagni og heitu vatni, sambærilegt því sem Veitur og Orka náttúrunnar gera á Hengilssvæðinu.

„Vegna óvissu um viðbrögð jarðhitakerfa við vinnslu er almennt séð ekki æskilegt að óskyldir aðilar nýti sömu jarðhitaauðlind. Við fögnum þessu samstarfi við Títan og þá sérstaklega með tilliti til ábyrgrar auðlindanýtingar,“ segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni.

Aðgengi að orku er forsenda

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi tók í sama streng við þetta tilefni. „Við hér í Ölfusi höfum um nokkurt skeið unnið að því að auka velferð á grundvelli umhverfisvænnar verðmætasköpunar. Við vitum og þekkjum að án verðmætasköpunar verður engin velferð. Við þekkjum það einnig að aðgengi að orku er forsenda þeirra stóru umhverfisverkefna sem við erum í svo sem hvað varðar landeldi á laxi, ræktun smáþörunga til manneldis, rekstur gróðurhúsa og fleira,“ sagði Elliði og bætti við að það vildi nú svo til að rafmagnið verði ekki til í innstungum og heita vatnið ekki í krananum.

„Ef við viljum verðmætasköpun á borð við það sem við erum nú að vinna að þá þarf að sækja orkuna og það ætlum við að gera á forsendum þeirra umhverfissjónarmiða sem við viljum standa fyrir í samstarfi við okkar góðu samstarfsaðila í Orkuveitu Reykjavíkur,“ sagði Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi.

Verðmætasköpun fyrir nærsamfélagið

Þá sagði Hera að samhliða sameiginlegri umsókn um rannsóknarleyfi færi í gang vinna við að kanna hagkvæmni, mat á vinnslugetu svæðisins og forhönnun virkjunar á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú þegar liggja fyrir.

Þar verði öll áhersla lögð á fullnýtingu jarðhitaauðlindarinnar þar sem afurðir frá virkjuninni verða m.a. nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.

Fleira áhugavert: