Fráveitu úrgangur 2023 – 2x aukning 5 árum
Grein/Linkur: Úrgangur í fráveitum hefur aukist verulega
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
.
.
Mars 2024
Úrgangur í fráveitum hefur aukist verulega
Magn úrgangs sem berst í fráveitukerfin hér á landi hefur meira en tvöfaldast á fimm árum. Aðeins tvö þéttbýli uppfylla hreinsunarákvæði samkvæmt reglugerð.
Umhverfisstofnun birti á dögunum nýja skýrslu um stöðu fráveitumála á Íslandi. Slík skýrsla kemur út á tveggja ára fresti þar sem gögn um stöðu fráveitu í þéttbýlum hringinn í kringum landið eru tekin saman. Samantektin tekur til 29 þéttbýla, sem losa um eða yfir 2.000 persónueiningar (pe.) og ná yfir 89% íbúa landsins.
Samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp er meginreglan sú að skólp skuli hreinsað með tveggja þrepa hreinsun áður en því er veitt viðtaka. Með ákveðnum sérreglum er þó hægt að beita vægari hreinsun, þegar viðtaki er skilgreindur „síður viðkvæmur“. Einnig er hægt að ætlast til ítarlegri hreinsunar en tveggja þrepa ef viðtaki er skilgreindur „viðkvæmur“.
Í skýrslunni má finna mynd sem sýnir hreinsiaðferð skólps miðað við íbúafjölda og þar sést að 97% svæða viðhafa grófhreinsun eða enga hreinsun. Aðeins tvö þéttbýli uppfylla kröfur um hreinsun, Borgarnes og Dalvík. Í báðum tilfellum er þó aðeins um grófhreinsun að ræða sem fer út í sjó og magnið minna en 10.000 pe. og því hreinsun viðunandi samkvæmt heilbrigðisnefnd.
Fæst sveitarfélög uppfylla kröfur
Hreinsunarkröfur þeirra 29 þéttbýla sem samantektin tekur til er í allmörgum tilfellum „viðeigandi“ en núverandi hreinsun er skráð „engin“. Tíu þéttbýli eru skráð með tveggja þrepa hreinsunarkröfu í skýrslunni. Nokkur þeirra munu hafa möguleika á að vera skilgreind sem „síður viðkvæm“. Önnur uppfylla einfaldlega ekki kröfur.
Á Selfossi er til að mynda engin hreinsun þrátt fyrir að kröfur séu um tveggja þrepa hreinsun. Í skýrslunni segir að áætlanir séu í gangi um að setja upp tveggja þrepa hreinsun í bænum.
Á Egilsstöðum og Fellabæ er 60% skólps hreinsað með tveggja þrepa hreinsun og 40% með eins þreps hreinsun. Skólplosun er þó oft á yfirfalli og hreinsivirki anna ekki magni vatnsblandaðs skólps sem í þau koma. Fram kemur að vinna sé hafin við byggingu á nýrri skólphreinsistöð á svæðinu
Fjallað hefur verið um fráveitumál Hveragerðis hér í blaðinu, en þar er krafa um tveggja þrepa hreinsun ekki fullnægjandi vegna þess að hreinsivirkið annar ekki skólpmagni sem hefur aukist með árunum.
Á Hellu ætti einnig að vera viðhöfð tveggja þrepa hreinsun en í dag er aðeins grófhreinsun. Í skýrslunni segir að sveitarfélagið muni leggja fram úrbótaáætlun á næstu árum í samræmi við aðgerðaráætlun vatnsáætlunar.
Á Hvolsvelli, hvar krafa er um tveggja þrepa hreinsun, er forhreinsun sögð ófullnægjandi og viðtaki ekki talinn góður, enda skurðir og lækir með litlu vatni. Óvíst sé að hreinsunarkröfur séu uppfylltar vegna skorts á mælingum en í skýrslunni kemur fram að úrbótaáætlun sé væntanleg á árinu.
Vilji er til úrbóta
Almennt eru allir viðtakar venjulegir þar til rannsóknir og gögn sýna fram á annað. Í skýrslu Umhverfisstofnunar segir að níu þéttbýli geti fallið innan þeirrar skilgreiningar að vera „síður viðkvæmur“ en enn sem komið er hafi þrjú þéttbýli gilda skilgreiningu þess efnis. Það eru Akureyri, Hafnarfjörður og Vestmannaeyjar. Þó sé unnið nú markvisst að því að bæta úr því, sveitarfélögunum til gagns. Því verði viðtaki ekki skilgreindur sem síður viðkvæmur þarf tveggja þrepa hreinsun að vera komið á innan sjö ára, að því er fram kemur í skýrslunni.
Fram kemur að unnið sé að gagnaöflun og vöktun til að skilgreina viðtaka sem síður viðkvæma á Akranesi, Höfn í Hornafirði, Reykjavík og Sauðárkróki.
Í frétt Umhverfisstofnunar um skýrsluna segir að úrbætur í fráveitu taki oft nokkurn tíma og greina megi meiri vilja sveitarfélaga til að gera betur í fráveitumálum. Þá er bent á að sveitarfélög geti sótt um styrk úr ríkissjóði fyrir allt að 20–30% af heildarkostnaði úrbóta í fráveitu, sem hafi hjálpað til við að ýta á eftir úrbótum. Í skýrslu Umhverfisstofnunar kemur einnig fram að magn úrgangs sem berst í fráveitur, það er ristarúrgangur, hafi aukist gríðarlega milli ára. Tölur stofnunarinnar ná til þriggja þéttbýla. Árið 2018 var magnið 171 tonn en árið 2022 var 373 tonnum af úrgangi safnað saman úr ristum og urðað. Mun það sýna hversu mikilvægt er að hafa góða hreinsun til að ná sem mestu af úrgangi og aðskotahlutum úr skólpinu.