Fagurfræðin – Að leggju lóðrétt og lárétt

Grein/Linkur:  Er fagurfræðin týnd og tröllum gefin

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:

.

Álplaströr ætti að leggja lóðrétt og lárétt – Mynd: lafi.is 25.03.2021

.

Mars 2012

Er fagurfræðin týnd og tröllum gefin                                 

Þvílík þróun og breyting hefur orðið á lagnaefnum frá því ég hóf nám í pípulögnum fyrir 62 árum, nánar tiltekið 1952 árið sem Ásgeir Ágeirsson var kjörinn forseti í fyrsta sinn.

Þá var óþarfi að velta vöngum yfir því hvaða efni skyldi nota í lagnir; svart stál í hitalagnir, galvaniserað stál í neysluvatnslagnir og pottrör í frárennslislagnir innanhúss.

En nú er öldin önnur, úr mörgu er að velja, það er kannski vandinn.

Ég minnist þess hve mikinn metnað maður lagði í lagnir í ketilhúsum, þá var hitaveita í Reykjavík aðeins innan marka hinnar gömlu Hringbrautar. Þá var hallamálið eitt nauðsynlegasta verkfærið, allar lagnir urðu að vera annaðhvort láréttar eða lóðréttar og að sjálfsögðu beinar, enda kom það af sjálfu sér þegar gömlu efnisþykku stálrörin voru notuð.

En því miður, nú er öldin önnur allt of víða, allt of oft.

Það lagnaefni sem náð hefur einna mestri notkun síðustu ár eru álplaströr. Þau eru mjúk og sveigjanleg, enda minnstu víddir oftast í rúllum.

En þó svo sé, t. d. við tengigrindur, er auðvelt að rétta rörin og setja sér það markmið að öll rör séu lóðrétt eða lárétt ef þess er kostur. Einnig er hægt að fylgja hinni gömlu gullvægu reglu sem við fylgdum í gamla daga að öll lóðrétt rör hefðu ákveðið mál frá vegg, ef um sýnilegar lagnir var að ræða, og láréttar lagnir annað mál frá vegg, þá varð aldrei um árekstur að ræða og lagnaverkið rakti sig vel og var þannig á að sjá að sá sem sem það hafði lagt gat litið stoltur yfir sitt verk og sýnt hverjum sem var kinnroðalaust.

En þó aldraður sé þá kem ég enn að ýmsum lögnum og satt að segja finnst mér dapurlegt að sjá hvenig öll þessu gömlu lögmál, sem ég hef rakið að framan, eru látin lönd og leið. Þessi lögmál geta enn verið í fullu gildi þó lagnamenn hafi í höndum rör sem sveigja má og beygja eftir vild. Það er enn hægt að setja upp lagnir skipulegar og beinar, það er engin þörf á því að láta undan freistingunni og fara ætíð stystu og einföldustu leiðina. Sannast sagna hef ég komið að lagnaverkum þar sem nær engin leið er að greina hvað er hvað, fyrir augunum hefur maður bendu af rörum og því miður eru oft engar merkingar sem geta leiðbeint um hvað er hvað í þeim flækjufót sem við blasir. Nú hafa menn í höndum lagnaefni sem hægt er að nota í heitar og kaldar neysluvatnslagnir og einnig í hitakerfi. Þá þess heldur er þörf á að vinna skipulega og gleyma ekki fagurfræðinni, hún hefur enn sitt gíldi.

Fleira áhugavert: