Statfjord olíupallurinn – 600.000 tonn, 200m yfir sjávarmáli
Grein/Linkur: Glæsilegt mannvirki
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Maí 2008
Glæsilegt mannvirki
Statfjord olíusvæðið var uppgötvað 1974 og vinnsla frá fyrsta borpallinum á svæðinu, Statfjord-A, hófst 1979. Það er einmitt pallurinn sem leki kom að nú.
Á kortinu hér til hliðar má sjá svæðið, sem liggur vestur af Bergen. Á þessum slóðum er fjöldi borpalla, bæði hefðbundnir ofansjávar olíupallar og fjarstýrðir pallar sem liggja á hafsbotninum. Kortið að neðan sýnir svæðið nánar, ásamt aðliggjandi olíuvinnslusvæðum.
Nú eru tveir aðrir pallar á Statfjord-svæðinu, Statfjorb-B frá 1982 og Statfjord-C frá 1985. Áætlanir gera ráð fyrir að olían á svæðinu, sem liggur í 150 milljón ára gömlum setlögum á um 2.500 – 3.000 metra dýpi, dugi ca. til ársins 2019-2020. Hafdýpið á svæðinu er um 300 metrar. Pallurinn Statfjord-A er um 600.000 tonn og nær rúmlega 200 metra yfir sjávarmál.
Já – þetta eru stórbrotin mannvirki. Alls starfa um 200 manns á Stafjord-A á 12 tíma vöktum og úthaldið hverju sinni er 14 dagar. Þess á milli eiga starfsmenn mánaðarfrí.
Olían sem er dælt upp er geymd í tönkum og alls geta verið um 1,3 milljónir tunna í geymum Statfjord-A hverju sinni.
Samtals framleiða Statfjord pallarnir þrír um 150 þúsund tunnur af olíu daglega. Sem t.d. jafngildir næstum helmingi af olíuframleiðslu Dana, en er innan við 5% af olíuframleiðslu Norðmanna.
Með neðansjávarpöllunum á Statfjord-svæðinu er framleiðslan þarna reyndar nærri 500 þúsund tunnur á dag. Metið er rúmlega 850 þúsund tunnur. Það var sett 16. janúar 1987. En nú er olían á svæðinu farin að minnka og þróunin er nánast dæmigerð Hubbert-kúrfa.
Að auki eru framleidd um 6 milljón rúmmetrar af gasi daglega á Statfjord-svæðinu.