Þjóðaröryggi, varnarmál – Japan/þýskaland 2022

Grein/Linkur: Öxulveldin hervæðist á ný

Höfundur: Sigurður Már Jónsson

Heimild: 

.

Mynd – Wikipedia 11.05.2022

.

Mars 2022

Öxulveldin hervæðist á ný

Hildarleikurinn í Úkraínu kallar á endurskoðun og endurmat á flestum þáttum alþjóðlegs samstarfs á sviði öryggismála. Margt bendir til þess að Bandaríkjamenn muni fara fram á meiri og öflugari skuldbindingu af hálfu Vestur-Evrópuríkja þegar kemur að hinni sameiginlegu öryggisstefnu Nató. Margir eru þó þeirrar skoðunar að ekkert geti komið í stað þess að hafa bandaríska hermenn á svæðinu. Sumar þjóðir Austur-Evrópu telja það lykilatriði að hafa bandarísku hermennina í löndum sínum svo að Rússar séu ekki í vafa að þeir lendi í flasinu á þeim ráðist þeir inn, nokkuð sem nú virðist ekki eins ólíklegt og áður.þyskirher

Áherslur Bandaríkjanna hafa hins vegar verið að færast til Asíu og Kína er bersýnilega að eflast á alla máta. Kína er öflugasti andstæðingur sem Bandaríkjamenn hafa horfst í augu við, því efnahagslegur styrkur þeirra gerir Kína að allt öðruvísi andstæðingi en Sovétríkin sálugu. Í reynd hefur hernaðarkapphlaup verið þreytt í Asíu undanfarin 10 ár. Hernaðarútgjöld hafa aukist um 52,7% á árabilinu 2010 til 2020 samkvæmt Stockholm International Peace Research Institue (SIPRI). Þar standa Kínverjar fremstir í flokki en en útgjöld þeirra til hernaðarmála hafa aukist á hverju ári samfleytt í 26 ár. Hér hefur áður í pistlum verið vikið að vaxandi umsvifum og hernaðaruppbyggingu Kína.

Lausnin við breyttum áherslum í Evrópu og Asíu er að knýja öxulveldin gömlu, Þýskaland og Japan, til að hervæðist. Lengst af hafa Þjóðverjar verið tregir til þess en Úkraínustríðið hefur gerbreytt viðhorfum þeirra. Nýr kanslari Þýskaland, jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, boðaði stóraukin útgjöld til varnarmála í tímamótaræðu 24. febrúar síðastliðin og hyggjast Þjóðverjar nú verja meira en 2% af vergri landsframleiðslu í varnarmál. Þá loksins uppfylla Þjóðverjar skuldbindingar sínar gagnvart Nató. Til þessa hafa Þjóðverjar varið um það bil 1,4% af VLF til varnarmála en í ár ætlar ríkisstjórnin að auka útgjöldin um 100 milljarða evra. Kanslarinn sagði þetta ekki aðeins snúast um að geta aðstoðað Úkraínumenn heldur einnig um eigið öryggi, Þjóðverjar horfi fram á nýja tíma.

Endurskoðun þjóðaröryggisstefnu JapanathediplomatInnrás Rússa í Úkraínu hefur einnig ýtt verulega við umræðu um varnarmál í Japan og þar fer nú fram mat á því hvaða þýðingu átökin hafa fyrir öryggi landsins. Þannig sagði Abe Shinzo, fyrrverandi forsætisráðherra og mikill áhrifamaður innan Frjálslynda lýðræðisflokksins (Liberal Democratic Party/LDP) stjórnarflokksins, í sjónvarpi fyrir stuttu að tímabært væri að ræða kjarnavopn í tengslum við öryggismál landsins. Sérfræðingar segja að Japan sé að ganga í gegnum fjórða tímabil utanríkisstefnu sinnar, hlutleysistíma eftirstríðsáranna sé lokið en sá tími hefur óumdeilanlega fært Japan bæði stöðugleika og efnahagslega farsæld.

Japan setti sér þjóðaröryggisstefnu til 10 ára í fyrsta sinn árið 2013 í tíð áðurnefnds Abe. Komið er að endurskoðun hennar og þarf vart miklar mannvitsbrekkur til að geta sér til um að hún muni mjög litast af vaxandi áhyggjum vegna hernaðaruppbyggingarinnar í þessum heimshluta og ekki síst í Kína, að ekki sé talað um óábyrgar kjarnavopna- og skotflaugatilraunir Norður-Kóreu sem ekkert lát virðist á. Í kjölfarið á henni verður varnaráætlun Japans (national defense plan) til næstu 10 ára einnig endurskoðuð.

Ný þjóðaröryggisstefna mun væntanlega taka á nauðsyn þess að byggja upp getu japanska hersins til gagnárása verði ráðist á landið með hervaldi. Umræðan um varnargetu Japans hefur reyndar hverfst mjög um vanmátt landsins til gagnárása og einkum gagnskotflaugaárása verði landið fyrir árásum óvinveittra ríkja. Á sama tíma og Norður-Kórea eflir skotflaugamátt sinn og Kína veitir síauknu fjármagni í her og vopn hefur lítið gerst í Japan. Þó er það yfirlýst stefna flokks forsætisráðherra, LDP, að auka framlög til varnarmála í 2% af þjóðarframleiðslu en hún er nú aðeins um 1% nú.

FriðarstjórnarskráinabeJapanir eru mjög bundnir af hinni svo kölluðu friðarstjórnarskrá sem sett var eftir seinna stríð. Stjórnarskráin átti að girða fyrir að Japanir yrðu aftur sömu hernaðarhyggju að bráð og hafði leitt til skelfilegra hernaðarátaka eins og alkunna er. Stjórnarskráin bannar að Japanir taki þátt í eða stundi hernað utan landsteina. Í raun afsalaði japanska þjóðin rétti til þess að heyja stríð eða beita valdi til þess að útkljá alþjóðlegar deilur. Endurspeglar nafn japanska hersins, Sjálfsvarnarliðið (e. Self-Defense Force), þetta með skýrum hætti.

Öryggisafstaða Japans hefur verið að taka breytingum á síðustu árum og ber endurtúlkun stjórnarskrárinnar og efling hernaðarbandalagsins við Bandaríkin þar hæst. Fyrir kaldhæðni örlaganna eru það einkum Bandaríkin, sem í raun voru á bak við friðarstjórnarskránna meðan þeir hersátu Japan, sem hafa sett mestan þrýsting á Japan um að byggja upp hernaðargetu sína til að taka á sig eitthvað af varnarbyrðum Bandaríkjanna í Austur-Asíu.

Jafnframt verður mikilvægi þess að Japan efli eigin getu til að þróa hertæki og tól tekin fyrir í áætluninni auk þess að byggja upp og þróa öryggissamstarf við fleiri þjóðir en Bandaríkin.

Fleira áhugavert: