Vorverkin – Snjóbræðsla

Grein/Linkur:   Vorið er komið

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – urbanbet.is 29.06.2021

Maí 1994

Vorið er komið

Vorverkin eru að byrja. Það kann því að þykja mótsögn að fylla einn pistil af svo kuldalegu efni sem snjóbræðslu. En það er nú einu sinni svo að framkvæmdir utanhúss fylgja fyrst og fremst vori og sumri. Þó skal því ekki neitað að framkvæmdamáti landans er svo sérkennilegur að lóðaframkvæmdir og annað sem gera þarf utandyra vill oft dragast fram á haustið. Í fyrstu snjóum eru sumir að rumska; ég sem ætlaði einmitt að helluleggja heimreiðina í ár. Og auðvitað að leggja snjóbræðslukerfi um leið.

Sjálfsagður hlutur

Hvergi á byggðu bóli eru snjóbræðslukerfi jafn sjálfsagður hlutur og hérlendis. Lögn slíkra kerfa hófst fyrir alvöru uppúr 1970 og það sem gerir þau svo almenn er hnattstaða landsins og sú ókeypis orka sem er í hitaveituvatninu þegar búið er að láta það renna um hitakerfi innanhúss.

Nokkrar leiðbeiningar

Það er öllum heimilt að nota afrennslisvatnið af hitakerfinu í snjóbræðslukerfi, gróðurhús, vaðpoll o.fl. Í flestum tilfellum rennur þetta vatn hvort sem er í frárennslið engum til gagns. Á þeim svæðum, þar sem Hitaveita Reykjavíkur tekur vatnið aftur, gildir það sama. Þú mátt kreista úr vatninu allan varma. Aðeins að því sé skilað aftur í fljótandi formi!

Það er líka heimilt að bæta við afrennslisvatnið með beinu rennsli frá mæli með sjálfvirkum ventli. Þá verður að greiða visst stofngjald til hitaveitunnar alveg eins og bætt væri einu herbergi við húsið. Hér er ekki um háa fjárhæð að ræða, en auðvitað kann þetta að auka hitakostnaðinn. Það fer þó eftir því hvaða bræðslu þú vilt hafa á stéttum og heimreið.

En Hitaveitan þarf að fá upplýsingar um þessar framkvæmdir. Þess vegna verður að teikna kerfið, það er ekki flókinn hlutur. Það verður að fylla út sérstök eyðublöð, tilkynningu til veitunnar. Það gera allir löggiltir pípulagningameistarar.

Það er heldur ekki flókinn hlutur.

Hve stórt kerfi?

Algeng spurning. Svolítil þumalputtaregla; ef þú ætlar að leggja snjóbræðslukerfi við einbýlishús og láta afrennslisvatnið nægja geturðu stuðst við stærð hússins í rúmmetrum.

8 fermetra hitaður flötur á hverja 100 rúmmetra húss!

Þetta er vissulega gróf reikningsaðferð en getur vísað þér veginn.

Hve gott snjóbræðslukerfi færðu þá ef allt er vel af hendi leyst í framkvæmdinni?

Eitt er víst, snjóbræðslukerfið hefur ekki við að bræða í blindbyl, hífandi roki. Enda eins gott. Ef slíkt snjóbræðslukerfi væri til eyddi það orku á við tíu einbýlishús.

En annað er jafnvíst; ef safnast hefur skafl á stéttina í óveðrinu mun hann bráðna með tímanum. Hver nennir að bíða eftir því? Þá tekur maður sér skóflu í hönd og mokar. Þá kemur nokkuð merkilegt í ljós; snjórinn er ekki frosinn við stéttina heldur er vatn þar undir.

Að loknum mokstri er engin hálka, hellurnar verða ekki skemmdar af pjakki með skóflunni.

Snjóbræðslukerfi af skynsamlegri stærð er því mikill kostur, þó það hafi ekki við kuldabola alla daga.

Íslenskt, já takk

Öll snjóbræðslurör sem eru notuð hérlendis eru íslensk framleiðsla. Hugvitið er að miklu leyti innlent.

En það eru margskonar lukkuriddarar sem gefa kost á sér við lóðaframkvæmdir og lögn snjóbræðslukerfa. Hvað það síðastnefnda varðar er afarsælast að skipta við fagmenn. Allavega skaltu tryggja þig í upphafi þegar tilboðið liggur á borðinu.

Getur verktakinn tryggt að kerfið sé fest á blað og getur hann annast samskiptin við hitaveituna, skrifað upp á tengibeiðni og séð um tenginguna innanhúss?

Ef ekki þá kemur hitinn seint í stéttina, rörin ein nægja ekki.

Fleira áhugavert: