Áfangaúttektir 2022 – Hvernig á að standa að þeim?

Grein/Linkur: ÁFANGAÚTTEKTIR

Höfundur: Umhverfis og tæknisvið uppsveita

Heimild:

.

.

ÁFANGAÚTTEKTIR

Frá 1. janúar 2019 skulu byggingarstjórar framkvæma áfangaúttektir og skila niðurstöðum þeirra í byggingargátt. Hægt er að skila upplýsingunum með Úttektaforriti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar eða öðru sambærilegu forriti sem fengið hefur samþykki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Byggingarstjórar skulu tilkynna fyrirhugaðar áfangaúttektir í gegnum „Mínar síður“ hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða með því að senda tölvupóst á netfangið uttektir@utu.is – með a.m.k. 4 klst. fyrirvara.

.

FYRIR EIGIN ÚTTEKTIR BYGGINGARSTJÓRA MEÐ APPI ERU TVÆR LEIÐIR Í BOÐI:

LEIÐ 1: HMS BYGGINGAR ÚTTEKT

Fyrir Android snjalltæki skal nota úttektarapp Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Smáforritið gerir byggingarstjóra/skoðunarmanni kleift að skrá áfangaúttekt á skilvirkan og samræmdan hátt rafrænt í samræmi við skoðunarhandbækur og skoðunarlista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

  • Uppfylla þarf eftirfarandi fyrir stofnun notanda og notkun á úttektarforritinu:
    • Hafa tiltækt snjalltæki (farsíma eða spjaldtölvu) með Android stýrikerfi
    • Eiga aðgang hjá island.is, þ.e. Íslykil eða vera með rafræn skilríki á síma
    • Eiga aðgang hjá Google, þ.e. gmail reikning fyrir aðgang að Playstore hjá Google
  • Byggingarstjóri stofnar sig sem notanda á https://www.minarsidur.mvs.is  með rafrænum skilríkum og sækir Úttektarforrit MVS á Playstore hjá Google. Nú er hægt að setja forritið upp hvort heldur sem er á snjallsíma eða spjaldtölvu með Android stýrikerfi.
  • Farið er í PlayStore og appið heitir „Byggingargátt“ sem hlaðið er niður.
  • Hafa skal samband við embættið til að fá staðfest að byggingarmál sé komið inn í gáttina og tilbúið fyrir úttektir byggingarstjóra.

.

Góðar leiðbeiningar og myndbönd um uppsetningu og notkun úttektarapps HMS má finna á eftirfarandi slóð:  

UPPLÝSINGAR FYRIR BYGGINGARSTJÓRA

Einnig má finna góðar leiðbeiningar með því að lesa eftirfarandi leiðbeiningarbækling Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar:

LEIÐBEININGAR FYRIR STOFNUN NOTENDA SMÁFORRITS MVS ÚTTEKT

.

LEIÐ 2: ONESYSTEM APP

  • Fyrir Apple og Android spjaldtölvur skal nota úttektarapp OneSystems.
  • Senda skal inn umsókn um aðgang að appinu í gegnum þjónustugátt embættis.
    Farið inn á heimasíðu Umhverfis- og tæknisvið Uppsveita: utu.is
  • Smellið á þjónustugátt byggingarfulltrúa og þar smellt á þjónustugátt.
    Innskráning með rafrænum skilríkjum/Íslykli.
  • Efst í hægra horni er smellt á Umsóknir.
  • Farið í kafla 04 – Byggingarstjóri -App fyrir úttektir – umsókn um aðgang að OneApp.
  • Fyllið út viðeigandi upplýsingar og sendið umsókn.
  • Þá er hægt að fara í AppStore og sækja OneApp3 fyrir iPad spjaldtölvu eða í Playstore til að sækja oneapp3 fyrir Android spjaldtölvu.
  • Byggingarstjóri sér hvaða mál hann er skráður á hjá embættinu og getur skráð úttektir á þau mál.

Ef byggingarstjóri er núna að nota iPad fyrir úttektir en vill frekar nota Android spjaldtölvu þarf hann fyrst að útskrá sig úr iPad-num áður en hann skráir sig inn í Android spjaldtölvuna. Ef viðkomandi er með ósend gögn í iPad-num þarf að gæta þess að senda þau inn áður en hann skráir sig út.

EINFALDAR LEIÐBEININGAR UM NOTKUN ONE ÚTTEKTARAPPSINS

ÍTARLEGRI LEIÐBEININGAR – ONEAPP – HANDBÓK FYRIR BYGGINGARSTJÓRA, ÚTG. 1.2

.

FRAMKVÆMD ÁFANGAÚTTEKTA

Áfangaúttektir skulu gerðar á einstökum verkþáttum mannvirkjagerðar þar sem byggingarstjóri eða eftirlitsaðili kannar hvort viðkomandi þáttur sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög um byggingarvörur og reglugerðir sem settar eru skv. þeim, lög um mannvirki og ákvæði þessarar reglugerðar á grundvelli ákvæða skoðunarhandbókar og skoðunarlista. Byggingarstjóri annast áfangaúttektir í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista þegar verkþátturinn er tilbúinn til úttektar.

Leyfisveitandi getur ákveðið ef þörf er á, t.d. ef fram koma alvarlegar eða ítrekaðar athugasemdir í stöðuskoðun eða vegna vanrækslu byggingarstjóra, að hann sjálfur, eða eftir atvikum skoðunarstofa, annist áfangaúttektir.  Slík ákvörðun getur náð til allra áfangaúttekta vegna tiltekins mannvirkis eða einungis þeirra áfangaúttekta sem lenda í úrtaki í kjölfar tilkynningar byggingarstjóra um lok úttektarskylds verkþáttar. Úttekt eftirlitsaðila skal framkvæmd í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka og skoðunarlista og er heimilt að úttekt takmarkist hverju sinni við nánar skilgreint úrtak innan ákveðins verkþáttar. Niðurstöður áfangaúttekta skal skrá í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Byggingarstjóri mannvirkis skal fyrir hönd eiganda þess sjá til þess að áfangaúttektir fari fram og tilkynna eftirlitsaðila um lok úttektarskyldra verkþátta og fyrirhugaðar áfangaúttektir með skráningu í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Ef ákveðið hefur verið að áfangaúttektir séu gerðar af hálfu eftirlitsaðila skal byggingarstjóri óska eftir úttekt með minnst sólahrings fyrirvara.
Byggingarstjóri skal skrá niðurstöður áfangaúttekta í gagnasafn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Honum er skylt að vera viðstaddur allar áfangaúttektir. Ef sérstaklega stendur á, t.d. vegna veikinda, getur byggingarstjóri veitt aðila með starfsleyfi byggingarstjóra skýrt og afmarkað umboð til að mæta í eða annast tilteknar áfangaúttektir. Iðnmeistari eða sá sem hann tilnefnir í sinn stað skal vera viðstaddur úttekt á þeim verkþáttum sem eru á hans ábyrgðarsviði og undirrita úttekt nema um annað sé samið í samningi milli iðnmeistara og eiganda.
Séu gerðar athugasemdir í skoðunarskýrslu skal byggingarstjóri sjá til þess að bætt verði úr og úttekt endurtekin.

Eftirtaldir verkþættir mannvirkjagerðar skulu teknir út með áfangaúttektum:

a. Jarðvegsgrunnur, áður en byrjað er á mótauppslætti eða fyllingu í slíkan grunn, þ.m.t. plötupróf.

 b. Uppsláttur og bending undirstöðuveggja.

c. Lagnir í grunni, þ.m.t. rör fyrir heimtaugar rafmagns- og fjarskiptakerfa áður en þær eru huldar.

d. Frágangur raka- og vindvarnarlaga.

e. Grunnur, áður en botnplata er steypt.

f. Uppsláttur og bending allra steyptra byggingarhluta.

g. Uppbygging veggjagrinda burðarveggja, afstífing þeirra og festingar áður en klætt er.

h. Uppbygging léttra gólfa og festingar þeirra áður en klætt er.

i. Uppbygging þaka, loftun, afstífing þeirra og festingar áður en klætt er.

j. Frágangur klæðningar þaka, bæði úr timbri og öðrum efnum, þ.m.t. festingar, negling þakjárns og annar tilsvarandi frágangur.

k. Frágangur ystu klæðningar veggja, þ.m.t. festingar og loftun.

l. Uppbygging og frágangur eldvarnarveggja.

m. Uppbygging og frágangur niðurhengdra lofta og frágangur vegna eldvarna.

n. Frágangur, gerð og þykkt varmaeinangrunar.

o. Frágangur vegna hljóðeinangrunar.

p. Neysluvatns-, hitavatns-, hita-, gas-, gufu-, þrýsti- og kælikerfi ásamt einangrun þeirra, þrýstiprófun og frágangur vegna eldvarna.

q. Frárennslislagnir innanhúss ásamt eldvörnum og hljóðeinangrun þeirra.

r. Frárennslis-, regnvatns- og þerrikerfi utanhúss.

s. Stokkalagnir og íhlutar þeirra fyrir loftræsi- og lofthitunarkerfi ásamt varma- og eldvarnareinangrun og allur tilheyrandi frágangur vegna eldvarna og hljóðeinangrunar.

t. Tæki og búnaður loftræsi- og lofthitunarkerfa.

u. Þættir er varða eldvarnir sem verða huldir þannig að úttekt þeirra sé ekki framkvæmanleg við öryggis- eða lokaúttekt.

STÖÐUSKOÐANIR LEYFISVEITANDA

Leyfisveitandi getur gert stöðuskoðun í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka hvenær sem er á meðan á framkvæmdum stendur. Leyfisveitandi skal taka mið af stærð, umfangi og áhættu einstakra framkvæmda við mat á tíðni stöðuskoðana.

LOKAÚTTEKT

Áður en viðbygging eða nýbygging er tekin í notkun, þarf að kalla eftir öryggisúttekt hjá byggingarfulltrúa, en óheimilt er að taka byggingu í notkun án þess.
Þegar framkvæmdinni er að fullu lokið í samræmi við staðal ÍST51/2001 og búið að ganga frá húsi/viðbyggingu og lóð, á byggingarstjóri að kalla eftir lokaúttekt. Eigandi eða byggingarfulltrúi geta líka kallað eftir lokaúttekt. Við lokaúttekt þarf allt að vera tilbúið og byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti. Ef það reynist ekki vera þarf að leiðrétta uppdrætti og sækja um breytingu á byggingarleyfinu með tilheyrandi kostnaði.

Byggingarstjóri og meistarar bera 5 ára ábyrgð á verkþáttum frá og með dagsetningu á lokaúttektarvottorði. Við verklok biður húseigandi um fullnaðar- eða brunabótamat hjá Þjóðskrá Íslands – fasteignaskrá. Við matið leggst skipulagsgjald á allar nýframkvæmdir sem greiðist í eitt skipti. Hafi eitthvað komið uppá á byggingartíma eða gallar eru á framkvæmdinni, á ekki að bíða með að kvarta eða benda á gallann. Það skal gera skriflega og senda á byggingarstjórann.  Hægt er að kalla eftir úttekt byggingarfulltrúa eða fá óháðan matsmann til að taka framkvæmdina út.

HVAÐ ER LOKAÚTTEKT? 

Lokaúttekt er staðfesting með úttekt byggingarfulltrúa á að byggingu mannvirkis sé lokið og það reist í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Þegar mannvirki er fulllokið og innan þriggja ára frá því að það var tekið í notkun og öryggisúttekt gerð skal gera lokaúttekt á því. Úttektinni er ætlað að ganga úr skugga um að mannvirkið hafi verið reist í samræmi við samþykkta aðal- og séruppdrætti og uppfylli ákvæði mannvirkjalaga og þeirra reglugerða sem framkvæmdina varðar. Hafi mannvirkið ekki verið tekið í notkun fyrir lokaúttekt er hún jafnframt öryggisúttekt. Uppfylli mannvirkið fyrirliggjandi kröfur gefur byggingarfulltrúi út vottorð um lokaúttekt.

HVERJIR ÓSKA EFTIR LOKAÚTTEKT?

Byggingastjóri fyrir hönd eiganda mannvirkisins og eftir atvikum eigandi þess geta óskað eftir lokaúttekt.

FORSENDA MÁLSMEÐFERÐAR:

Sá sem óskar eftir lokaúttekt útfyllir eftirfarandi:

Útfylltum eyðublöðum er skilað til embættis byggingarfulltrúa.

Geri embætti byggingarfulltrúa ekki athugasemd við móttekna úttektarbeiðni getur úttektin farið fram.

FRAMKVÆMD ÚTTEKTAR: 

Byggingarfulltrúi í samráði við beiðenda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina auk byggingarfulltrúa skulu vera fulltrúar slökkviliðs og byggingarstjóri. Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuði mannvirkisins um lokaúttektina og gefa þeim kost á að vera viðstaddir. Byggingarstjóri skal jafnframt leggja fram frumrit eða afrit samþykktra uppdrátta sem nota skal við úttektina.

VOTTORÐ UM LOKAÚTTEKT: 

Fullnægi mannvirkið þeim kröfum sem gerðar eru lögum samkvæmt og byggt hefur verið í samræmi við samþykkta uppdrætti gefur byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð sem hann afhendir byggingarstjóra. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.

ÖRYGGISÚTTEKT

Öryggisúttekt er staðfesting með úttekt byggingarfulltrúa á að heimilt sé að taka mannvirki í notkun. Áður en mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur sem settar eru í lögum um mannvirki og öðrum lögum og reglugerðum sem málið varða. Uppfylli mannvirkið við úttekt kröfur um öryggis- og hollustuhætti gefur byggingarfulltrúi út vottorð um úttektina. Við skráningu öryggisúttektar í fasteignaskrá fer fram brunavirðing mannvirkis.

HVERJIR GETA ÓSKAÐ EFTIR ÖRYGGISÚTTEKT? 

Byggingarstjóri fyrir hönd eiganda mannvirkis og eftir atvikum eigandi þess geta óskað eftir öryggisúttekt.

FORSENDA MÁLSMEÐFERÐAR:

Sá sem óskar eftir öryggisúttekt útfyllir eftirfarandi:

EBL 220 – Beiðni um öryggis- eða lokaúttekt – Yfirlýsing byggingarstjóra.

EBL 221 – Yfirlýsing um verklok á raforkuvirki vegna öryggis- eða lokaúttektar.

EBL 222 – Yfirlýsing um stillingu hitakerfis og virkni stýritækja vegna öryggis- eða lokaúttektar.

Útfylltu eyðublaðinu er skilað til embættis byggingarfulltrúa.

Geri embætti byggingarfulltrúa ekki athugasemd við móttekna úttektarbeiðni getur úttektin farið fram.

FRAMKVÆMD ÚTTEKTAR: 

Byggingarfulltrúi í samráði við beiðenda ákveður úttektartíma. Viðstaddir úttektina, auk byggingarfulltrúa og fulltrúa slökkviliðs, skulu vera byggingarstjóri og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða byggingarstjóri/byggingarfulltrúi hafa boðað. Byggingarstjóri skal jafnframt leggja fram frumrit eða afrit samþykktra uppdrátta sem nota skal við úttektina.

VOTTORÐ UM ÖRYGGISÚTTEKT: 

Fullnægi bygging þeim öryggiskröfum sem gerðar eru gefur byggingarfulltrúi út vottorð sem hann afhendir byggingarstjóra eða eiganda. Niðurstöðu úttektar skráir byggingarfulltrúi í málakerfi sitt.

Fleira áhugavert: