Hitavenjur – Hverjar eru þínar?

Grein/Linkur:   Hverjar eru þínar hitavenjur?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Október 1994

Hverjar eru þínar hitavenjur?

Í hvert skipti sem konan á þriðju hæðinni fer um stigaganginn opnar hún alla glugga. Þegar karlinn á fjórðu hæð fer þar um lokar hann öllum gluggum. Þetta gerist næstum daglega og hefur staðið yfir í mörg ár. Hvað gengur þeim til?

Með þessu birtast þeirra hitavenjur að nokkru. Við höfum öll ákveðnar hitavenjur, sem við gerum okkur tæpast grein fyrir.

Konan er að hugsa um hreina loftið, hún vill hafa hreint, ferskt loft á stigaganginum. Með því að opna alla mögulega glugga tekst henni að mynda dragsúg. Heita loftið stígur upp og rýkur út um efstu gluggana, nýtt kalt loft kemur inn að neðan, hitnar og stígur upp, fer sína leið.

Karlinn á fjórðu gerir sér hinsvegar grein fyrir að þetta hreina, ferska loft kostar talsvert. Það er verið að hita upp loft, sem síðan er hent út jafnharðan.

Kasta krónunni, hirða eyrinn

Hitavenjur okkar geta þýtt sparnað en þær geta líka þýtt bruðl. Inn í hitavenjur spila margir þættir. Við göngum út frá því að í þessu fjölbýlishúsi sé ofnakerfi, hitagjafinn er heita vatnið frá hitaveitunni.

Mynf – powertoswitch.co.uk 2.03.2021

Eru ofnarnir lokaðir af með sólbekkjum, þykkum gluggatjöldum eða húsgögnum?

Eru sjálfvirkir ofnlokar á öllum ofnum?

Eru það framrásarlokar (túrlokar) á efri leiðslunni í ofninn?

Eru það bakrásarlokar (retúrlokar) á neðri leiðslunni frá ofninum?

Hvernig ferðu að því að loftræsta?

Læturðu gluggana standa opna allan liðlangan daginn?

Læturðu heita vatnið renna langtímum saman í vaskinn, þó aðeins sé verið að skola nokkur glös?

Víða pottur brotinn

Í þessu áðurnefnda fjölbýlishúsi er víða pottur brotinn. Upphaflega voru bakrásarlokar á öllum ofnum, en þeir koma að takmörkuðu gagni sem hitastillar. Þeir vinna sitt verk sómasamlega; að sjá til þess að vatnið renni út af ofnunum á sama hitastigi, allt eftir hvernig stillingin er. Eftir því sem stillt er á hærri tölu rennur vatnið heitara út.

Og það kostar peninga.

Konan á þriðju lætur gluggana standa opna allan daginn, hún vill finna hreint loft í sinni íbúð þegar hún kemur heim eftir vinnu. Segir líka, sem rétt er, að ef hún geri það ekki sé óþolandi heitt í íbúðinni að kveldi. Bakrásarlokarnir (retúrlokarnir) hafa unnið sitt verk allan daginn án þess að taka nokkuð tillit til þess ókeypis varma sem sólin hefur veitt allan daginn.

Karlinn á fjórðu hafði hinsvegar látið skipta um ofnloka; látið setja framrásarloka (túrloka) á alla ofna. Hann hefur alla glugga lokaða allan daginn enda enginn heima. Sólin sendir einnig sinn ókeypis varma inn í hans íbúð. En þar er hún þegin með þökkum því sjálfvirku ofnlokarnir stöðva streymi heita vatnsins.

Þeir stjórnast nefnilega af hitastigi loftsins en ekki hitastigi vatnsins. Þeir nýta varmann frá sólinni. Þeir nýta einnig allan ókeypis varma, sem getur komið frá eldavél, rafmagnsljósum, kertum, sjónvarpi, útvarpi, hárblásara o.fl. o.fl.

Það getur eigi að síður orðið of heitt vegna alls þessa ókeypis varma. En þá er minna mál að spenna upp alla glugga og svalahurðina líka til að losna við hann að hluta. Þú borgaðir ekkert fyrir hann og það er mergurinn málsins.

Hjá konunni á þriðju hafði hins vegar streymt vatn inn á ofnana daglangt, það hitaði loftið í íbúðinni og streymdi síðan rakleitt út um gluggana.

En það kostaði sitt.

Ein mikilvægasta hitavenja okkar er hvernig við loftræstum íbúðir okkar og enginn kemst hjá því, loftræsting er nauðsyn. Við þurfum að fá hreint loft og það verður að koma ýmiss konar tilfallandi raka burtu. Annars gæti hann orðið skaðvaldur.

Í hvað fer heita vatnið?

Er þetta ekki heimskuleg spurning, kann einhver að segja. En það er rétt að gera sér nokkra grein fyrir þessu.

Gefum okkur að 10% fari í bað og þvotta. Sem sagt það sem við köllum kranavatn.

Við reynum að einangra hýbýli eins vel og skynsemin segir okkur, höfum tvöfalt gler í gluggum. (Sumir setja raunar þrefalt gler í glugga em þó er víst að getur aldrei borgað sig.) En þetta er gert til að hindra, eins og mögulegt er, varmatap út í gegnum veggi, þök og rúður.

En varmatap er óhjákvæmilegt; því meira tap sem kaldara er úti.

Til að mæta þessu notum við 65% heita vatnsins.

Til að mæta loftskiptum, til að hita upp loft sem kemur ferskt að utan, fer þá 25% heita vatnsins. En þarwna er hættulegur punktur.

Venjið ykkur á að hafa alla glugga lokaða þegar enginn er heima. Hafið glugga lokaða í herbergjum þar sem enginn dvelur.

Loftræstið hressilega en stutt í einu, munið að loftskipti hækka reikninginn fyrir heita vatnið.

Fleira áhugavert: