Heimilin – Raforkuöryggi

Grein/Linkur:  Raforkuöryggi heimilanna er grundvallarmál sem tryggja þarf strax

Höfundur:  Halla Hrund Logadóttir

Heimild: 

.

Mynd – safetyandhealthmagazine.com 9.04.2024

.

Mars 2024

Raforkuöryggi heimilanna er grundvallarmál sem tryggja þarf strax

Halla Hrund Logadóttir

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, vill að atvinnuveganefnd Alþingis dragi frumvarp um lagabreytingar, sem ætlað er að tryggja almenningi forgang að rafmagni ef til skömmtunar kemur, upp úr skúffunni sem því var stungið í á dögunum. RÚV – Stjórnarráð Íslands

Mjög er kallað eftir því að virkja meira til að tryggja orkuöryggi á Íslandi. Það eru þó mörg ár í að nýjar virkjanir rísi og eitthvað þarf að gera í millitíðinni. Frumvarp sem tryggja á almenningi forgang að raforku var hins vegar sett á ís.

Fyrir réttu ári kynnti umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið drög að frumvarpi til breytinga á raforkulögum. Markmið þess var að tryggja raforkuöryggi og tryggt framboð raforku, enda væri þetta grundvallarþáttur í þjóðaröryggi Íslands. Þar sem eftirspurn eftir rafmagni hafi vaxið hraðar en framboð á síðustu árum hafi svigrúm til að bregðast við áföllum í framleiðslu, flutningi og framboði rafmagns til almennra notenda minnkað.

Í frumvarpsdrögunum er brugðist við þessu með lagabreytingu sem kveður á um forgang almennings og minni fyrirtækja að rafmagni, ef til skömmtunar kemur, á kostnað stórnotenda. Þetta vakti hörð viðbrögð ýmissa samtaka atvinnurekenda, stóriðjufyrirtækja og minni raforkuframleiðenda.

Stór orð notuð í umsögnum

Í umsögnum sem bárust frá þeim þegar frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda var talað mikla afturför, hömlur á frjálsri samkeppni, mismunun og brot á samkeppnislögum, miðstýringu og skömmtunarkerfi, svo eitthvað sé nefnt.

Atvinnuveganefnd Alþingis, sem tók drögin til frekari vinnslu, brást við mörgum þessara athugasemda og til stóð að leggja frumvarpið fram til umfjöllunar á Alþingi í desember. Því var þó frestað fram í febrúar á þessu ári, en þá bar svo við að meirihluti atvinnuveganefndar hætti við að leggja það fram – í bili að minnsta kosti.

Lög um forgang almennings ekkert nýtt og ekki eftir neinu að bíða

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri er hins vegar á því að ekki sé eftir neinu að bíða. „Það þarf að útfæra svokallaða, annað hvort neyðarhemla eða skyldu á fyrirtækin til þess að selja til almennings. Og það er eitthvað sem var staðan. Það var þannig til 2003, að Landsvirkjun bar þessa ábyrgð. Bar þá ábyrgð að passa upp á að það væri alltaf til orka fyrir þennan hluta markaðarins, þannig að það væri aldrei selt of mikið til annarra, stórra notenda, á kostnað þessa hóps.“

Og Halla minnir á að heimili landsins nota einungis fimm prósent allrar framleiddar raforku og aðrir, minni notendur, þar á meðal langflest fyrirtæki landsins, stór sem smá, einungis 15 prósent. Afgangurinn, 80 prósent, fer að jafnaði allur til stórnotenda.

Neyðarhemill, sem ekki er jafn mikilvægur nú og hann var fyrir áramót?

Ákvæðið um forgang almennings og annarra minni notenda að rafmagni er hugsað sem tímabundin ráðstöfun, eins konar neyðarhemill sem stjórnvöld geta gripið til ef með þarf, þar til búið er að tryggja nægt framboð af raforku.

Sem fyrr segir ákvað meirihluti atvinnuveganefndar að leggja frumvarpið ekki fram eins og til hafði staðið. Aðspurður hverju þetta sætti, sagði Þórarinn Ingi Pétursson, formaður nefndarinnar, ekki lengur vera jafn brýna þörf fyrir þessi lög og fyrir áramót, og samfélagslega ábyrgð orkufyrirtækja betri en íþyngjandi lög.

Það væri langheppilegast að orkufyrirtækin tækju bara þessa ábyrgð til sín. Framleiðendur raforku hafa nú verið að skerða til stórnotenda en það breytir því ekkert að við verðum að hafa þennan neyðarhemil til staðar. Hvort við afgreiðum hann úr nefnd eða klárum málið og leyfum því að liggja bara inni hjá okkur, það er bara okkar að taka ákvörðun um, sagði Þórarinn í útvarpsfréttum 14. febrúar.

Ætlunin er sem sagt að treysta markaðnum til að vera nógu samfélagslega ábyrgur til að tryggja almenningi forgang á rafmagn, en eiga frumvarpið í bakhöndinni sem einhvers konar svipu sem hægt er að grípa til ef markaðurinn reynist ekki traustsins verður.

Frumskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna – líka raforkuöryggi

Halla Hrund segir að vissulega séu margar leiðir að sama markmiði. Hún undirstrikar þó, að raforkuöryggi heimila í landinu sé grundvallarmál. „Og ef við horfum á frumskyldur ríkisins, hverjar eru þær? Nú, þær eru að tryggja öryggi. Og raforkuöryggi er ekki eitthvað sem að þú tekur út úr daglegu lífi. Við sjáum það vel núna, í tengslum við jarðhræringarnar á Reykjanesi.“

Fleira áhugavert: