Lagnasafn – Safna sögu og munum
Grein/Linkur: Hvar verður Lagnasafnið?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Nóvember 1994
Hvar verður Lagnasafnið?
Samtök lagnamanna verða að vakna til vitundar um, að munir og minjar eru að glatast. Hvaða bæjarfélag vill fá Lagnasafnið til sín?
Hvað hefur söfnunargildi? Eitthvað sem er gamalt og fágætt kemur fyrst í hugann. Þurfa hlutir að vera gamlir og fágætir?
Það eru ekki allir á þeirri skoðun. Athyglisverð frétt að lottókassi er borinn inn í safn um leið og hann er tekinn úr notkun. Merkileg framsýni eða næmi fyrir gildi ókeypis auglýsingar?
Skiptir ekki máli. Sá tími kemur að þetta verður viðurkenndur gamall safngripur, sem geymir í sér merka sögu.
En til eru einstaklingar og stéttir, sem láta sig þetta engu varða.
Í þeim hópi eru lagnamenn. Örfáir einstaklingar hafa þó látið í sér heyra, en með litlum árangri. Almennar undirtektir hafa nánast engar verið.
Ör þróun
Lagnasagan hérlendis er aldargömul. Sú lagnasaga sem er samfelld. Vissulega hefur gerst ýmislegt hérlendis fyrr, einstakir atburðir og einstakar framkvæmdir, sem eru hluti merkrar sögu. En samfellda sagan um lagnir í hús og að húsum er ekki meira en aldargömul.
En á þessari öld hefur orðið ör þróun og merk saga. Svo merk að hún á sér líklega ekki hliðstæðu í henni veröld. Nýting jarðhitans skapar sérstöðu, þó vissulega finnist jarðvarmi víðar. En það er tæpast skrum að segja að nýting jarðvarma á Íslandi sé einstök, enda er þekking hérlendra lagnamanna á nýtingu jarðvarma viðurkennd og eftirsótt víða um lönd.
Það er ekki einungis hinar stóru jarðvarmaveitur sem hafa þróast ört; innanhúslagnir hafa tekið stórstígum framförum í efni og vinnubrögðum. Sá sem hefur unnið sem lagnamaður í hálfa öld (og þeir eru þó nokkuð margir) muna tímana tvenna.
En þetta sýnir að það er tími til kominn að fara að safna sögu og munum áður en meira glatast. Margt er þegar glatað.
Lagnasafn og söguritun
Nú verða menn að hrista af sér slenið og hefjast handa. Hvað vantar? Frumkvæði umfram allt. Peninga segir einhver. Það er ekki rétt. „Nógir eru andsk. peningarnir“ sagði kallinn og það er nokkuð til í því.
Það þarf frumkvæði og húsnæði. Húsnæði til að byrja söfnun gamalla verkfæra, tækja og lagna. Sumt af þessu þarf ekki að vera svo gamalt.
Hvar fæst húsnæði?
Fyrsta hugdettan er að það ætti ekki að vera stærstu veitustofnunum ofviða að leggja til húsnæði. Hvað um Hitaveitu Reykjavíkur, Vatnsveitu Reykjavíkur, Hitaveitu Suðurnesja eða Hitaveitu Akureyrar?
Safn, hvaða nafni sem það nefnist, hefur menningargildi og er tvímælalaust lyftistöng sveitarfélaginu, þar sem það er staðsett. Vill eitthvert sveitarfélag bjóða Lagnasafnið velkomið? Vissulega berast böndin fyrst að höfuðborginni, en það er víðar guð en í Görðum.
Eitt merkasta framkvæmd á fyrri hluta þessarar aldar var Flóaáveitan, stórkostlegt lagnaverk, sem vakti athygli innanlands sem utan; meira að segja páfi spurðist fyrir um verkið. Höfuðstaður Suðurlands, Selfoss, vill hann fá Lagnasafnið til sín? Bærinn sem byggðist upp í allsleysi og ekki síst vatnsleysi, Kópavogur, hvað um hann? Suðurnesjabær eða Akureyri, svo mætti lengi telja.
En umfram allt verða fjölmörg samtök lagnamenn að vakna til vitundar um að munir og minjar eru að glatast. Það er vart hægt að búast við að örfáir einstaklingar fái miklu áorkað, þó sagt sé að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.
Sænskir lagnamenn opnuðu Lagnasfn í Katrineholm fyrir ári.