Gömlu eldstæðin – Loftæsting, loftskipti

Grein/Linkur: Betra loft í eldri byggingar

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Hlóðir

.

Apríl 1996

Betra loft í eldri byggingar

Kolaeldavél

Oft hafa loftræstikerfi orðið fyrir óvæginni gagnrýni. En oft er orsökin sú, að þau eru ekki stillt endanlega og enginn hugsar um þau árum og áratugum saman.

GÖMLU eldstæðin höfðu marga kosti hvort sem það voru hlóðir, kolaeldavélar eða kolaofnar í heldri manna stofum en þeir voru jafnvel til hjá fátækara fólki. Arinmenning Bretanna fluttist ekki hingað að ráði fyrr en á þessari öld eftir að önnur upphitunarkerfi komu til sögu svo sem að nota heitt vatn úr jörðu. Arinn í stofu og Drápuhlíðargrjót varð þá stöðutákn hinna nýríku eftir miðja öldina.

En gömlu eldstæðin, sólóeldavélar og kolaofnar höfðu í raun önnur hlutverk, þótt óafvitandi væri, en að hita upp hús og skapa skilyrði til að elda mat.

Kolaofn

Þessi eldstæði voru í rauninni loftræstikerfi, þau tryggðu að nýtt loft barst stöðugt inn í hýbýli, þau sáu um loftskipti svo notað sé nýtískulegra orð.

Það er alkunna að til að eldur geti lifað þarf hann tvennt, eldsmat og súrefni. Enginn eldur brennur nema að honum streymi stöðugt nýtt loft, þannig varð óvart til loftræstikerfi þar sem þessi gömlu eldstæði voru, brunnið heitt loft streymdi upp um reykháfinn og nýtt ferskt loft streymdi inn í stofuna eða eldhúsið þar sem eldstæðið var, eldurinn brann ekki nema einhvers staðar væri opinn gluggi en stundum voru byggingar einfaldlega það óþéttar að það nægði. Það var síðan önnur hlið á þessari eldamenningu að eldsneytið nýttist illa, sóunin var gífurleg því mikill hiti glataðist upp um reykháfinn.

Þéttari byggingar

Það er mikið álitamál hvort byggingarnar sem reistar hafa verið síðustu áratugi séu betri en þær sem eru frá fyrri hluta aldarinnar. Eitt er þó víst að tvöfalda glerið er framför, byggingar eru þéttari og byltingin sem fylgdi hitaveitunum gerir loftflæði gömlu eldstæðanna óþarft.

En fáum við þá nóg ferskt loft inn í húsin, eru loftskiptin nægjanleg?

Nei, það eru þau oft á tíðum ekki og þar með hefst þróun loftræstikerfa, þau verða sjálfsögð í sumum byggingum og þá er það starfsemin sem þar fer fram sem ræður hvort slík kerfi eru valin eða ekki.

Oft hafa loftræstikerfi orðið fyrir óvæginni gagnrýni og ósjaldan með réttu. En þar hefur bakari oft verið hengdur fyrir smið, menn hafa bölvað loftræstikerfum í sand og ösku, talið þau óalandi og óferjandi, kerfi sem aldrei gera gagn.

En orsökin er oft sú að það vantar punktinn yfir iið, frá kerfunum er ekki gengið, þau aldrei stillt endanlega og svo kemur stóra brotalömin; enginn hugsar um kerfin árum og áratugum saman, enginn þjónustar þau, enginn skiptir um síur svo eitthvað sé nefnt.

Þetta er ekki séríslenskt fyrirbrigði, þetta þekkist víða erlendis. Í nýju sænsku tækniriti er greint frá könnun sem gerð var á loftræstikerfum í Svíþjóð. Samkvæmt henni er talið fullvíst að 80% af loftræstikerfum þar í landi séu vanstillt, full af skít og aldrei þjónustuð.

Er ástæða til að ætla annað en að ástandið sé svipað hérlendis?

Lausn fyrir eldri byggingar

Þar í landi eru margar eldri byggingar án loftræstikerfa þótt þeirra sé sannarlega þörf, byggingarnar orðnar þéttari með betra gleri og kolaofnarnir horfnir, miðstöðvarhitun og fjarhitun tekin við.

Þar er farin athyglisverð leið til að leysa loftþörfina, það er ekki víst að sú einfalda lausn að opna glugga sé nægjanleg.

Í stað þess að leggja loftræstikerfi í bygginguna á hefðbundinn hátt, með loftstokkum sem taka mikið rými og loftblásurum og hitaelementum, er málið leyst með staðbundnum tækjum í hverju rými.

Tökum sem dæmi að um skóla sé að ræða, þá er einfaldlega borað gat á vegg og loftræstitæki komið fyrir í hverri kennslustofu, það tengt hitagjafa og rafmagni. Þessi tæki eru algjörlega sjálfstæð og hafa enda tengingu hvert við annað.

Það er svo önnur saga hvort allir væru sáttir við að fá slík tæki inni í kennslustofu eða skrifstofu, getur kannski gengið í Svíþjóð en eru ekki Íslendingar of fínir til að þola slíkt?

Fleira áhugavert: