Gæði loftsins – Mælieiningin Olf
Grein/Linkur: Má bjóða þér á „Olf-barinn“?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Desember 1994
Má bjóða þér á „Olf-barinn“?
Það er hægt að mæla gæði loftsins. Mælieiningin „olf“ er notuð yfir óhreinindi í loftinu.
Í gegnum tíðina hefur mannskepnan búið til ýmislega kvarða til að mæla hitt og þetta. Til að gera sér ljóst hvað kjöt kostar er ekki nóg að vita hvað lambalæri kostar, það er nauðsynlegt að vita hvað það er þungt. Verðskyn er þá háð kílógrammi, kaup á efni í gluggatjöld byggist á lengd í metrum, mjólk í lítrum.
Við mælum hitann í stofunni í gráðum, ljósstyrk perunnar í vöttum, hávaða í desíbelum og svo mætti lengi telja.
Á hverjum einasta degi er hver og einn að nota þessi stærðfræðigildi, ekkert síður þeir sem ekkert segjast botna í stærðfræði yfirhöfuð.
Maður er nefndur
Er þá hægt að búa til mælikvarða yfir alla hluti? Ekki skal því svarað hér og lengi vel datt engum í hug að búa til mælikvarða yfir gæði lofts, sem við öndum að okkur í hýbýlum og vinnustöðum.
En maður er nefndur Ole Fanger og er prófessor í verkfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur verið virkur í félagsmálum lagnamanna, bæði heima í Danmörku og á norrænum og alþjóðlegum vettvangi. Hefur verið forseti samtaka norrænna lagnafélaga, SCANVAC, í níu ár.
Ole Fanger hefur lengi fengist við rannsóknir á gæðum innilofts, sem er ekki minna mál fyrir hvern og einn heldur en hæfilegur hiti og raki eða að hafa tært ómengað drykkjarvatn.
En hvernig átti að mæla gæði loftsins?
Það var auðvitað hægt með nákvæmri efnagreiningu en það er bæði seinvirk og kostnaðarsöm aðferð.
Einskonar vínsmökkun
Hugmyndin, sem Ole fékk 1967, var bæði einföld og snjöll. Á sama hátt og vín er metið með mannlegu bragðskyni ákvað hann að að nota mannlegt lyktarskyn til að meta gæði lofts.
Þá varð „olf-barinn“ til. Til að meta gæði vínsins verður smakkarinn að súpa á víninu. En það var ekki nóg að einhver kæmi inn í hús og þefaði út í loftið. Slík vinnubrögð voru of ónákvæm.
Olf-barinn er þannig gerður að lofti, sem meta á, er pumpað inn í lítinn kút eða glerkrukku. Upp úr krukkunni stendur trekkt, „smakkarinn“ rekur nefið niður að trektinni og hleypir út lofti. Lyktarskynið segir honum samstundis hvernig loftið er.
Þannig varð til ný mælieining, olf, sem er mælieining andrúmslofts. Síðan hefur þessi aðferð verið þróuð og fengið alþjóðlega viðurkenningu og höfundur hennar nafnbótina doktor.
En það gildir það sama um vínsmökkun og loftsmökkun. Til að vera fær um að meta hvort sem er þarf langa og nákvæma þjálfun. Í dag eru til þjálfaðir loftsmakkarar eða öllu heldur loftþefarar.
Mælieiningin olf er notuð til þess að mæla hve mikil óhreinindi eru í loftinu. Við verðum að bíta í það súra epli að hvert og eitt gefum við frá okkur óhreinindi út í andrúmsloftið, meira að segja prumplaust. Til að gefa örlitla hugmynd um mælikvarðann gefur venjuleg sæmilega þrifin mannvera frá sér 1 olf. En reykingamaður gefur frá sér 6 olf þegar hann reykir ekki og 25 olf púandi.
Olf barinn
Með nefið sem mælitæki er hægt að finna út óhreinindi loftsins. Sæmilega þrifin mannvera gefur frá sér 1 olf. En reykingamaður gefur frá sér 6 olf þegar hann reykir ekki og 25 olf púandi.