Markaðslögmál – Dularfull, úthafsvirkjun

Grein/Linkur:  Dularfullu markaðslögmálin

Höfundur:  Ketill Sigurjónsson

Heimild:   Orkubloggið

.

.

Dularfullu markaðslögmálin

Fimm_a_Fagurey

Fimm_a_Fagurey

Dularfullubækurnar hennar Enid Blyton voru ekkert sérstakar. Ævintýrabækurnar, með páfagauknum honum Kíki, voru t.d. miklu meira spennandi. Og Fimmbækurnar voru auðvitað uppáhaldið. Með þeim Georg(ínu), Önnu, Júlla, Jonna og hundinum Tomma. Svo langaði mig lengi að verða „vísindamaður“. Eins og Kjartan, pabbi Georgínu.

Nú virðist vera komin ný Dularfullubók. Titillinn er sagður vera annað hvort Dularfullu hráefnisverðin eða Dularfullu markaðslögmálin. Ekki man ég fyrir vist hvað persónurnar í Dularfullubókunum hennar Enid Blyton voru margar. Gott ef þær voru ekki átta. Rétt eins og G8. En ef G8 ætlar að leysa málið og ná fram lækkun á olíu og matvælum, gæti það reynst snúið. Það veit nefnilega enginn fyrir víst hvað veldur hækkandi verði. Eða öllu heldur; þetta er flókið sambland margra þátta og lausnin engan veginn augljós.

Talað er um að eftirspurnin sé meiri en framboðið. Samt er nóg af öllu. Það eru t.d. engar biðraðir neins staðar við bensínstöðvar. Eins og var i orkukreppunni í upphafi 8. áratugarins. Verðið hefur bara hækkað. Kannski aðallega af því það var orðið kjánalega lágt. Það er líka nóg af korni. Það er sem sagt ekki skollin á nein olíukreppa né matvælakreppa. Vissulega kann hækkandi verð að vera undanfari slíkrar kreppu. Það er þó engann veginn víst að svo sé.

Offshore_wind_new

Offshore_wind

Að mörgu leyti er hækkandi hrávöruverð hið besta mál. Það fær t.d. fólk til að átta sig á hvar hin raunverulegu verðmæti liggja. Og það stuðlar að mörgum jákvæðum breytingum. Fyrir vikið verða t.d. fleiri tilbúnir að setja pening í matvælaþróun. Við lifum nefnilega ekki endalaust á vísindaafrekunum hans Norman Borlaug. Einhver þarf að taka við kyndlinum.

Og hátt olíuverð gerir fjárfesta spennta fyrir óhefðbundinni orkuframleiðslu. Hér á Orkublogginu í gær benti ég á öra þróun sem orðið hefur í vindorkunni síðustu árin. Nú eru horfur á, að brátt munum við upplifa nýtt risaskref í vindorkugeiranum.

wind-energy_2007-2020

wind-energy_2007-2020

Áhugi á vindorku er ekki ný tíðindi. En það sem er hvað mest spennandi við þennan geira í dag, eru möguleikar á eins konar úthafsvirkjunum (þó svo innan efnahagslögsögu sé). Í dag eru um 98% vindorkunnar framleidd á landi. Í framtíðinni kann þetta hlutfall að breytast. Þá verða hugsanlega  risastórar vindtúrbínur staðsettar djúpt útá sjó og „fljóta“ þar fyrir akkerum. Myndin hér nokkru ofar er einmitt teikning af þessari hugmynd. Og eins og sjá má af stöplaritinu er búist við miklum vexti í vindorku á sjó.

Offshore_wind_new1

Offshore_wind

Fyrir okkur Mörlanda er kannski áhugaverðast það sem Norðmenn eru að fara að gera. Með því að nýta sér tækniþekkingu úr olíuiðnaðinum, ætlar Statoil að koma stórri vindtúrbínu fyrir, um 5,5 sjómílur vestur af Rogalandi (suðvesturodda Noregs).

Þessi tilraun er unnin í samstarfi við Siemens, sem er eitt af fremstu fyrirtækjum heims í vindtúrbínum. Einnig kemur norski sjóðurinn Enova að þessu, en hann styður verkefni á sviði vistvænnar orku. Nú er verið að gera prófanir á módeli af vindtúrbínunni, sem sjálf mun framleiða um 2,3 MW og sjálf blöðin jafnast á við breiðþotuvængi. Allt verður þetta fest við hafsbotninn með þremur akkerum. Miðað hefur verið við að hafdýpið megi vera allt að 700 metrar! Ef vel tekst til mun þetta hugsanlega valda byltingu í vindorkuiðnaðinum.

En kannski ætti maður ekkert að vera að þessu vindorkuröfli. Ég held satt að segja, að í huga margra Íslendinga sé vindorka bara eitthvert pjatt. Þess vegna vil ég sérstaklega benda efahyggnum á, að maður nánast fyllist lotningu í mikilli nálægð við stærstu vindtúrbínurnar. Sannkallað verkfræðiundur.

Vissulega verður vindorkan aldrei í þeim mæli að hún leysi olíuna af hólmi. En hún getur engu að síður orðið einn af mikilvægustu orkugjöfum á tilteknum svæðum.

Fleira áhugavert: