Nýbyggingar sóltúni – Skynsemi, sagan
Grein/Linkur: Skynsemin ræður við Sóltún, að mestu
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
Október 1996
Skynsemin ræður við Sóltún, að mestu
Húsið við Sóltún á hrós skilið fyrir tvennt, segir Sigurður Grétar Guðmundsson . Það er einangrað að utan en allar lagnir innan á veggjum.
Þó að sums staðar gusti um ráða menn Reykjavíkurborgar vegna nýbygginga í gamla borgarlandinu rísa nýjar byggingar í friði og spekt annars staðar. Vart þarf að fara mörgum orðum um það hve hagkvæmt það er að þétta byggðina, sú árátta margra að vilja halda í sveitina inni í þéttbýli gengur aldrei upp. Verst er þó þegar óbyggðir blettir verða að heilögum eyðistöðum og ekkert stendur gamla miðbænum í Reykjavík eins fyrir þrifum og það ólán að Arnarhóll skuli ekki hafa haldist í byggð allt frá meintri búsetu Ingólfs. Það vantar samfellda byggð frá Grófinni upp að Arnarhváli til að varna morðanbeljandanum að geysast yfir Lækjartorg og suður Lækjargötu.
En þetta er annars svolítill útúrdúr. Sóltún sem var áður Sigtún á hinu gamla athafnasvæði Eimskips við Borgartún er hafin bygging íbúðarhverfis og samkvæmt framlögðum skipulagsgögnum verður þarna hin skemmtilegasta byggð sem efalaust verður eftirsótt. Fyrsta húsið er risið og stendur það við Sóltún. Byggjendur buðu almenningi og þar með væntanlegum og hugsanlegum kaupendum til skoðunar og veittu kaffi og pönnukökur, enda var margt um manninn. Þetta er hin vandaðasta bygging en fyrir tvö atriði sérstaklega eiga byggjendur og hönnuðir hrós skilið.
Í fyrsta lagi er húsið, sem er átta hæðir, einangrað að utan. Það þarf varla að fjölyrða um það hversu risavaxið framfaraskref það er að flytja einangrunina út fyrir burðarveggina. Í átta hæða húsi er mörgum kuldbrúm lokað, einangrunin myndar heila kápu utanum húsið. Í öðru lagi hefur ekki verið falið í þá verstu gryfju og villigötu sem lagnamenn hafa farið inn á, semsagt þá að láta lagnirnar fylgja einangruninni út fyrir hússkrokkinn. Sem betur fer, mun margur segja, og að svoleiðis heimsku geri enginn, en því miður hefur það gerst og er það furðulegt að byggingarfulltrúar samþykki þá lagnaleið. Allar lagnir eru innan á veggjum og hitalögnin er sýnileg og má það kallast djarft hjá byggjendum að gera slíkt. Það væri vissulega fróðlegt að fá að fylgjast með því hver viðbrögð almennings verða, setja kaupendur þetta fyrir sig eða höfum við ætíð gert fólki upp afstöðu til sýnilegra lagna sem ekki á við rök að styðjast?
Vissulega hefði verið skemmtilegra að sjá áferðarfallegra lagnaefni en gömlu snittuðu rörin með sínum klossuðu tengjum. Í þess stað má benda á tvö lagnakerfi sem komið hefðu til greina; annars vegar Wirsbo nælonhúðuðu stálrörin með krómuðum tengjum eða Mannesmann plasthúðuðu stálrörin með þrýstitengjum. En hvort þessi kerfi komu til umræðu þagar lagnaefni voru valin er ekki vitað enda hefði það víst lítið þýtt; Byggingarfulltrúinn í Reykjavík leyfir ekki notkun þeirra enn sem komið er, þó er vandséð hvaðan honum kemur vald til að banna það. Einn mínus Ekkert er fullkomið og eitt atriði vakti furðu, svo ekki sé meira sagt, og það er val á lokum á ofnana til að stýra hitanum. Á öllum ofnum eru Danfosslokar og er ekki nema allt gott um það að segja, hins vegar eru Danfoss bakrásarlokar, í daglegu tali kallaðir retúrlokar, á öllum ofnum nema í stofunni, þar eru Danfoss framrásarlokar, sem flestir nefna túrloka.
Munurinn á þessum tveimur gerðum er sá að framrásarlokinn, sem er á efri leiðslunni við ofninn, stjórnar eftir lofthitanum, þannig er hægt að stýra nákvæmu hitastigi þar sem þeir eru notaðir. Bakrásarlokinn hinsvegar stýrist ekki af lofthitanum heldur af hita vatnsins sem rennur út af ofninum. Þess vegna heldur hann áfram að hita rýmið þó sólin eða eldavélin leggi til mikinn ókeypis hita, það kemur bakrásarlokanum ekkert við, hann heldur sínu striki. Þetta skapar oft yfirhita og er sérdeilis óþægilegt í svefnherbergjum að ekki sé talað um stofur þar sem stöðugur og jafn hiti er æskilegur. Það segir reyndar sína sögu að í stofurnar hefur verið valinn framrásarloki og hvers vegna?
Já, hvers vegna voru slíkir lokar ekki einnig valdir í eldhús, svefnherbergi og böð? Hvað ræður valinu? Framrásrloki er rétt val í íbúðarhúsi. Að velja bakrásarloka til að stýra hita frá ofnakerfi er fortíðardraugur…