Heitir pottar, sumarhús – Hvað verður um klórvatnið?
Grein/Linkur: Hvað verður um klórvatn úr heitum pottum í sumarhúsabyggðum?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Nóvember 2007
Hvað verður um klórvatn úr heitum pottum í sumarhúsabyggðum?
Það er engin furða þó sumarhúsaeigendur á „köldum“ svæðum fái sér rafhitaða potta á svæðum þar sem ekki er völ á jarðvarma. Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja enn einu sinni að það er jafn hlálegt að fá sér rafhitaða potta þar sem völ er á jarðvarma.
Einn af fylgifiskum þess að koma sér upp rafhituðum potti er klórblöndun. Sama vatnið er langtímum saman í pottinum og til að það verði ekki fúlt, eða „úldið“ eins og einn sölumaður slíkra potta sagði, þarf að setja í það bakteríudrepandi efni og þá er klór nærtækast.
En svo kemur að því að skipta þarf um vatn og þá má spyrja: hvað verður um klórblandaða vatnið sem henda skal, hvert á að henda því?
Sumarhús eru nær aldrei tengd við skólpkerfi eins og í þéttbýli, það er nánast regla að settar eru rotþrær við sumarhús. Víða eru rotþrær í góðu ástandi, einkum þar sem öflug félög eiga og reka sumarhúsabyggðir sem félagsmenn fá afnot af. Þar er seyra losuð reglubundið úr rotþróm og fylgst með að virkni þeirra sé í lagi og ekki síst að siturlögn skili sínu hlutverki. Skipulagðar sumarhúsabyggðir félagasamtaka eru líklega undantekningalaust á hitaveitusvæðum og þar eru hitaveitupottar við hvern bústað og ekkert vandamál með klórblandað vatn. Hinsvegar er ekki víst að allir eigendur sumarhúsa geri sér grein fyrir virkni rotþróa eða fylgist með þeirri vinnslu sem þar fer fram. Í rotþróm er magnað líf, þar eru örverur í stöðugri vinnu við að umbreyta því sem kemur frá sumarhúsunum, sérstaklega því sem frá klósettum kemur. Versti óvinur örveranna er sápa og ýmis kemísk efni og þar er klórið alverst, enda er hlutverk klórsins að drepa örverur og bakteríur. Þess vegna er frárennsli frá vöskum og handlaugum oft látið renna beint í siturlögn fram hjá rotþrónni til að sápur vinni ekki skemmdarverk á örveruflórunni.
.
En þegar steypt er úr rafhituðum potti því klórblandaða vatni sem þar er, hvað verður um það?
Eitt er víst að sá magnaði mjöður fer illa með örveruflóruna í rotþrónni sé einu til einu og hálfu tonni skellt í hana en líklega er það aldrei gert. En einhversstaðar verður vondur að vera og því miður eru sögusagnir á kreiki um að í sumarhúsabyggðum sé klórblandaða vatnið frá heitu pottunum látið gossa beint í næsta læk eða vatn til að það valdi ekki skaða í rotþró eða á gróðri.
En hvað þá um lækinn eða vatnið?
Benda má á að það er mikil sumarhúsabyggð við perluna Þingvallavatn, vatnið sem er á heimsminjaskrá og mikið er í umræðunni nú vegna lagningu Gjábakkavegar. Er öruggt að hvergi sé klórblönduðu vatnið hleypt úr pottum beint út í vatnið?
Allavega eru þær sögusagnir á lofti að svo sé, það eitt ætti að vera næg ástæða til að skoða sérstaklega rotþrær í sumarhúsabyggðum við Þingvallavatn og ganga úr skugga um að hvergi sé klórblönduðu vatni hleypt í læki sem renna í vatnið eða beint út í það.