Hreinsistöð fráveitu Akureyri – Árið 2021
Grein/Linkur: Ný fyrsta þreps hreinsistöð fráveitu komin í gagnið á Akureyri
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir
.
.
Maí 2021
Ný fyrsta þreps hreinsistöð fráveitu komin í gagnið á Akureyri
„Við erum afskaplega stolt af þessum áfanga. Það er mikill áfangi fyrir samfélagið hér við Eyjafjörð að ná því markmiði að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til okkar í þessum efnum,“ segir Helgi Jóhannesson, forstjóri Norðurorku. Kostnaður við verkefnið nemur rúmum milljarði króna, en ávinningurinn, hreinni strandlengja, er mikill fyrir samfélagið
Ný hreinsistöð fyrir fráveitu á Akureyri var tekin í notkun í nóvember síðastliðnum. Forsgan er nokkur en fyrir 30 árum, árið 1991, var lagt af stað í heildarskipulagningu á fráveitukerfinu á Akureyri hvað varðaði hreinsun og aðskilnað, „og nú loks höfum við náð lokapunkti framkvæmdarinnar,“ segir Helgi.
Norðurorka tók við rekstri fráveitu á Akureyri árið 2014 og þá þegar var hafinn undirbúningur að gerð hreinsistöðvarinnar og hönnun hennar. Framkvæmdin þurfti að fara í gegnum umhverfismat. „Það er langur ferill að baki, en nú höfum við náð þeim langþráða áfanga að mengun við strandlengjuna verður innan þeirra marka sem skilgreind eru í reglugerð um fráveitur og skólp,“ segir Helgi.
Útrásin er um 400 metra frá landi og á rúmlega 40 metra dýpi
Hreinsistöðin er á grjótvarinni landfyllingu við Sandgerðisbót. Hún er með þeim stærri hér á landi en allt skólp frá bænum fer um stöðina og er grófhreinsað þar. Hreinsibúnaðurinn kemur frá Svíþjóð og er um að ræða þrepahreinsun, svokallaða fyrsta þreps hreinsun, sem felur í sér að allir fastir hlutir í fráveituvatninu eru síaðir frá með þriggja millimetra þrepahreinsun. Úrgangi sem berst í stöðina um fráveitukerfið er pakkað og hann fluttur til urðunar. Fráveituvatninu er síðan veitt um 400 metra frá landi og á 40 metra dýpi þar sem það fer út í sjávarstrauma og dreifist.
Mikilvægt í þröngum firði með mikla matvælaframleiðslu
Stöðin er með tvískipt innrennsli, sem þýðir að hægt er að loka helmingi hennar í einu fyrir skólprennsli og vinna að hreinsun og viðhaldi þróa án þess að stöðva reksturinn. Fráveituvatni er dælt upp á hreinsibúnaðinn og síðan tekur sjálfsrennsli við um útrennslispípu. Rásirnar eru tvær, auk áðurnefndrar 400 metra útrásar er önnur álagsútrás sem er 90 metrar að lengd og tekur toppa, m.a. þegar um ræðir asahlákur og háa sjávarstöðu. Útrásir liggja í forsteyptum sökklum á sjávarbotni.
Helgi segir það stóran áfanga að ná að hreinsa allt fráveituvatn áður en því er veitt út í fjörðinn.
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem búum við langan og þröngan fjörð þar sem stundaður er öflugur matvælaiðnaður að hafa þessa hluti í góðu lagi. Það er á okkar valdi að ganga vel um náttúruna,“ segir hann.