Þróun lagna – 20. öldin, bylting eða þróun
Grein/Linkur: Bylting eða þróun
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Ágúst 1995
Bylting eða þróun
Sá fórnarkostnaður er ógnvekjandi, sem við höfum þurft að færa vegna vatnsskaða af skemmdum lögnum, segir Sigurður Grétar Guðmundsson , sem hér rekur þróun húsalagna hérlendis á þessari öld og hvað sé framundan.
Það er fróðlegt að líta yfir þróun húsalagna hérlendis á þessari öld. Það sem vekur nokkra undrun er hvað lítið hefur breyst á sumum sviðum, þar má nefna þykku, þungu snittuðu járnrörin og klossalegu tengin, ýmist hefur þetta lagnaefni verið notað svart í hitalagnir eða gavanhúðað í neysluvatnslagnir. Frávik hafa verið sáralítil, þó tók notkun eirs (kopars) kipp um 1960, en því miður var farið heldur hratt, þekking hönnuða og pípulagningamanna fylgdi ekki á sama hraða og þess vegna urðu mörg lagnaslys. Þó hefur eirinn alltaf haldið velli og hefur notkun hans aukist á síðustu árum, en þar er betra að fara varlega; það er ekki sama hvar við erum stödd á landinu því vatnið er af mörgum gerðum, efnainnihald þess ólíkt frá einum stað til annars. Plast hefur lítið verið notað í hita- og neysluvatnslagnir innanhúss, en nú stendur það á þröskuldinum og krefst inngöngu. Því verður ekki lengur vísað á dyr, en umfram allt; förum varlega.
Frárennslislagnir
Fyrir aldarfjórðungi þekktist vart annað en að frárennslisrör í grunnum væru úr steinsteypu og víða hefur ending þeirra verið undraverð, en sumsstaðar hafa þau morknað niður á ótrúlega skömmum tíma og er enginn vafi á að þar er um að kenna lélegri steypu.
Innanhúss voru steypujárnsrör (pottrör) nær eingöngu notuð, í múffur var slegið tjöruhampi og síðan fyllt með bráðnu blýi, sem síðan var slegið, eða bráðnum brennisteini. Illu heilli skutu asbeströr upp kolli og voru þó nokkuð notuð og munu vera í notkun enn í nokkrum húsum, engin hætta stafar af þeim önnur en sú að þau hljóta að vera orðin æði léleg.
En upp úr 1970 koma frárennslisrör úr plasti og í mörg ár hefur vart annað efni verið notað, rör úr polypropen innanhúss en PVC í grunnum, vonandi fer notkun á rörum úr polyeten að aukast sérstaklega í staðinn fyrir PVC. Pottrörin er þó ennþá talsvert notuð og er það að þakka vöruþróun framleiðenda; múffurnar, sem þurfti að blý- eða brennisteinshella eru horfnar, en í staðinn komnar hulsur úr ryðfríu stáli með gúmmíþéttingu og það merkilega er að gerast að frárennslisrör úr ryðfríu stáli eru komin á markaðinn og sækja heldur á.
Hita- og vatnslagnir innanhúss
Þar stöndum við á þröskuldi nýrra tíma, þar er geysimikil gerjun og búast má við að snittvélin verði minna notuð í framtíðinni. En hvað hefur valdið þeirri miklu tregðu á að taka upp önnur vinnubrögð og ný lagnaefni?
Fyrir því eru margar ástæður, en einungis þrennt skal nefnt að sinni. Hönnuðinum finnst einfaldast að hanna lagnakerfi út frá hefðbundnum aðferðum og efnum, það tekur skemmstan tíma og krefst minnstrar hugsunar, þetta er hvort sem er alltaf sama vanabundna vinnan, það liggur allt fyrir í skúffum og „fælum“, í öðru lagi er sama afstaða hjá pípulagningamanninum, sem ætlar að sjálfsögðu að fá sem mest í aðra hönd í uppmælingavinnunni og þá er best að gera það sama og gert var í fyrra og hitteðfyrra, í þriðja lagi; húsbyggjandinn þorir ekki að fara inn á nýjar brautir, þar gildir einu hvort hann er að byggja til eigin notkunar eða til endursölu. En nú er að verða breyting og hvers vegna?
Grýla er komin
Já, svo sannarlega og hún étur börnin. Grýla er sá ógnvekjandi fórnarkostnaður vegna vatnsskaða af skemmdum lögnum og þeim lagnaaðferðum og vinnubrögðum, sem við höfum vanið okkur á í áratugi, loksins hafa menn rumskað, já, sumir jafnvel vaknað.
En þá er betra að vera á varðbergi, það er hætta við hvert fótmál, svo getur einnig verið í fjallgöngum en samt hættum við ekki við að ganga á fjöll, við hættum heldur ekki við að taka upp ný vinnubrögð eða hættum að leggja hita- og vatnslagnir úr nýjum efnum.
En þessu verður að fylgja fræðsla, það má ekki gerast að ný lagnaefni, svo sem rör-í-rör kerfið, verði seld eins og tyggigúmmi út um allar trissur, að allir fari að leggja slík kerfi án þess að hafa fengið viðunandi fræðslu. Það er margt að varast. Í þessu þarf að verða yfirveguð þróun, ekki bylting.
Verða innanhússlagnir þannig í framtíðinni? Hér eru lagnir úr stálrörum með þrykktum tengjum og síðan tekur við rör-í-rör kerfið, plaströr dregin í hlífðarrör, einnig úr plasti.
Ekkier ólíklegt að slíkar vélar eigi eftir að leysa snittvélar að nokkru af hólmi.