Endurnýjun lagna – Sýnilegar lagnir

Grein/Linkur: Vænlegur kostur til sýnilegra lagna

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Nóvember 1995

Vænlegur kostur til sýnilegra lagna

Valið er oft erfitt þegar velja skal nýtt lagnaefni til endurnýjunar á gömlum lögnum.

Þegar kemur að því að endur leggja þarf hitalögn eða vatns lögn í húsi verður mörgum valið erfitt; hvaða lagnaefni á að nota?

Í fyrsta lagi segir skynsemin að ekki komi til greina að brjóta upp gólf og rífa veggi til að koma leiðslum þar fyrir, það er nóg komið af þeirri vitleysu, best er að „gleyma“ gamla kerfinu og gömlu lögnunum, taka þær úr sambandi, tæma og gera óskaðlegar.

Nýja lögnin verður sýnileg og þá er útlit lagnanna mikið atriði, þess vegna koma gömlu skrúfuðu lagnirnar ekki til greina, þó enn séu þeir til sem halda fast í þær.

Koparlagnir (eirlagnir) hafa löngum þótt vænlegur kostur og kunna að vera það sumstaðar hérlendis, en það er best að segja það umbúðalaust að eirinn ætti að banna með öllu á veitusvæði Hitaveitu Reykjavíkur. Í hitaveitvatninu er efni, sem tærir eirinn og þó vitað sé um dæmi þess að hann hafi enst í þrjátíu ár hefur líftími hans stundum ekki verið nema fimm til sex ár á höfuðborgarsvæðinu.

.

.

Mannesmann stálrör og þrýstitengi

Það er fagnaðarefni að þetta ágæta lagnaefni sé komið á íslenskan markað, eða réttara sagt; komið aftur á íslenskan markað.

Það vill svo vel til að það er löng og góð reynsla af þessu lagnaefni hérlendis, elsta kerfið úr Mannesmann stálrörum og þrýstitengjum var lagt í Kópavogi fyrir 25 árum og hefur ekki slegið feilpúst.

En hvergi hafa þessar lagnir verið meira notaðar en á Hvolsvelli og er saga á bak við það.

Þegar heitt vatn fannst á Laugalandi í Holtum lyftist brúnin á Rangæingum, einkum í þorpunum Hellu og Hvolsvelli.

En það er þó nokkur spölur frá Laugalandi austur á Hvolsvöll og augljóst að ekki var fjárhagslegur grundvöllur fyrir hitaveitu nema öll hús í þorpinu tengdust veitunni.

En þar var hængur á, meira en helmingur húsa var með beinni rafhitun og því nauðsynlegt að leggja í þau vatnshitakerfi og auðvitað utanáliggjandi.

Nú vandaðist málið og leitin að snyrtilegu, öruggu lagnaefni á viðunandi verði hófst og fyrir valinu varð Mannesmann stálrör með plastkápu, sett saman með þrýstitengjum, sem var nýjung á þeim tíma.

Ekki hefur heyrst að neinn Hvolsvellingur hafi séð eftir því vali og reynslan verið mjög góð af þessu lagnaefni.

Mannesmann stálrörin, sem notuð eru til miðstöðvalagna, eru í sömu málum og eirrör, í stærðunum 12 – 54 mm, húðuð með plasti, það sem er sérstæðast við Mannesmann kerfið eru tengin, þau eru völsuð en ekki steypt og eru úr sama efni og rörin. Tenging er gerð þannig að fyrst er plasthúðin skorin af rörinu, því síðan ýtt inn í tengið og þrykkt saman með sérstakri töng með skiptanlegum bökkum eftir stærð rörsins, töngin er ekki meiri um sig en naglabyssa.

Í falsi í tenginu er gúmmípakkning, en hún er þó aðeins forvörn, þéttingin verður fyrst og fremst þegar málmi er þrýst að málmi.

.

Hvolsvöllur

.

Ryðfrítt stál fyrir neysluvatn

Kerfið býður einnig upp á lagnir og þrýstitengi úr ryðfríu stáli til neysluvatnslagna, því má segja að hér sé um heildarlausn að ræða.

Lítum á einn athyglisverðan punkt; Mannesmann stálrörin eru aðeins 1,2 mm að þykkt í stærðunum 12 og 15 mm, stærðir að 65 mm eru 1,5 mm, en þar fyrir ofan 2 mm.

Gefur þetta nægilegan styrk, kann einhver að spyrja, venjuleg snittuð stálrör eru meira en helmingi þykkari.

Þar er komið að kjarna málsins, þessi veggþykkt er fyllilega nægileg til að rörið þoli 16 bara þrýsting, gömlu snittuðu stálrörin eru svona þykk til að hægt sé að snitta þau og í skrúfganginum eru þau vart meira en 1 – 1,5 mm að þykkt; engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.

Það er augljóslega efnissóun að nota svo þykk rör.

Mannesmann stálrör og þrýstitengi úr ryðfríu stáli eru framleidd í stærðunum frá 15 mm upp í 110 mm og eru þau víðustu rörin í flestum eldvarnakerfum, svokölluð vatnsúðakerfi.

Fleira áhugavert: