Gólfhiti – Mistök, virkni, áhrif

Grein/Linkur:  Mistök við gólfhitalagnir geta orðið afdrifarík

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

.

Febrúar 2006

Mistök við gólfhitalagnir geta orðið afdrifarík

Undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á vali hitakerfa í íbúðarhús. Lengst af höfðu ofnakerfin verið nær allsráðandi, en gólfhitakerfin hafa verið að vinna á jafnt og þétt í einbýlis- og raðhúsum eða íbúðarhúsum sem eru ein hæð, í mesta lagi tvær hæðir. Á árinu 2005 hélt gólfhitinn innreið sína í fjölbýlishús og er sú þróun í fullum gangi. Þessi þróun, aukning gólfhitans, er í samræmi við það sem er að gerast í iðnvæddari löndum á meginlandi Evrópu. Það sem hefur ekki síst stuðlað að þessari þróun er tilkoma plaströra í ýmsum myndum. Með þeim verður lögn gólfhitans auðveldari og verð röranna hefur farið sífellt lækkandi.

Það er ekki hægt að stilla sig um það að fara í svolitla söguskoðun, rifja upp hvað gerðist á árum áður þegar lögð voru gólfhitakerfi og geislahitunarkerfi. Skömmu eftir 1950 ruddi sér til rúms hitakerfi sem á íslensku var og er kallað geislahitun. Spíralar úr svörtum stálrörum, sem voru beygðir og logsoðnir saman, voru lagðir í neðst í loftplötur fyrir neðan járnabindingu. Vissulega fannst mörgum þeir fá hitann úr öfugri átt, vaninn var að hann kæmi neðan frá og stigi upp.

Galdurinn við þetta hitakerfi felst í nafni þess, geislahitun, þar var treyst á geislunina frá heitri loftplötunni, ekki hreyfingu loftsins eins og frá ofnum. Á árunum frá 1950-1970 var lögð geislahitun í fjölmörg íbúðarhús af öllum stærðum og gerðum og þessi kerfi eru enn í fullu fjöri. Þrátt fyrir marga kosti geislahitunar fór þó svo að hún hvarf alfarið sem nýlögn í hús og ástæðurnar mætti rekja hér en yrði of langt mál. En fullvíst er að geislahitunarkerfin, sem nú eru við lýði, geta enst um langan aldur. Þau þarf hins vegar að yfirfara eins og önnur lagnakerfi, sérstaklega að endurnýja þau tæki sem stýra hitanum í hverri íbúð.

Fyrir um það bil fjörutíu árum var nokkuð lagt af gólfhitakerfum en lögn þeirra lagðist fljótlega af. Ekki er hægt annað en skýra nokkuð ástæður þess að svo fór. Á þeim árum voru plaströr ekki komin til sögunnar svo gólfhiti var lagður á sama hátt og geislahitun, spíralar úr stálrörum. Mistökin sem þá voru gerð voru einkum þau að hitaspíralar voru ekki lagðir nema í hluta gólfanna. Þá voru menn með reiknistokkinn á lofti og reiknuðu nákvæmlega út hvað marga metra af rörum þyrfti í hvert rými, hvort sem það var stofa, herbergi eða eldhús. Það kom reyndar í ljós að oft var knappt reiknað og þá var ráðið að hækka framrásarhitann. Þá kom hitamunur á gólfum ennþá betur í ljós, sumstaðar voru gólfin óþægilega heit, annars staðar köld og gólfhitakerfin hurfu. Reyndar var yfirleitt hafður of mikill hiti á gólfhitakerfum og þá kom í ljós það sem síðan hefur sannast, að ef yfirborðshiti gólfs, sem stöðugt er dvalið á, fer yfir 28°C þá er stutt í að þægindi verði óþægindi.

Aftur til nútímans

En nú vitum við betur. Á síðustu áratugum hefur gólfhiti og áhrif hans á mannslíkamann verið rannsakaður og prófaður svo rækilega að það ætti að vera hægt að sneiða hjá öllum fyrri mistökum. Þekkingin þá var ekki nægilega mikil.

Hér eru gólfhitarörin sett í miðja steinsteypta plötu milli hæða, fráleitur frágangur.

En það eru blikur á lofti. Fyrir skömmu birtist hér í þessu blaði grein eftir Hjálmar Jónsson, tæknifræðing hjá Byggingarfulltrúanum í Reykjavík. Þar varar hann alvarlega við þróun í lögn gólfhitakerfa í fjölbýlishús. Eins og hann lýsir því hvað er að gerast er ádrepa hans sannarlega orð í tíma töluð.

Það er gífurlega mikilvægt í fjölbýlishúsi að hitaflötur gólfsins sé slitinn frá berandi steinsteypuplötunni, að hitaslöngurnar séu ekki lagðar á í plötuna miðja eða þar um bil. Eitt af því mikilvæga við gólfhitann er að hann sé ekki í of þykku lagi af steypu. Því þykkara sem steypulagið er því svifaseinna verður kerfið, seinna að kólna og seinna að hitna. Þetta er þó hálfu alvarlegra ef hitinn er lagður í plötu milli hæða án þess að slíta steypulagið um rörin frá berandi plötunni með einangrun. Þá er varmarýmdin, sem við köllum svo, ekki 6 cm þykk eins og á annarri teikningunni heldur 28 cm eins og sést á hinni! Það má segja að ef pípurnar eru lagðar í berandi plötuna þá verður útkoman lélegt gólfhitakerfi á efri hæðinni og ekki nóg með það;
það verður einnig lélegt geislahitunarkerfi fyrir neðri hæðina. Það er þó hálfu verra fyrir þann sem á neðri hæðinni býr að hann getur engu ráðið um það hvenær hiti kemur á kerfið og hvenær fyrir hann lokast. Stýringin er á efri hæðinni að sjálfsögðu, fyrir þá hæð er gólfhitakerfið.

Þetta er hluti af þeirri ógn sem steðjar að gólfhitanum og þróun hans. Það er sú ógn að byggjendur fari á svig við sjálfsagðar tæknilegar forsendur til að spara sér nokkrar krónur. Í grein Hjálmars er fullyrt að inn
á borð þeirra hjá embætti Byggingarfulltrúans í Reykjavík hafi komið slíkar teikningar af gólfhitakerfum þar sem hitaslöngurnar átti að steypa einhvers staðar inn í plötuna án þess að nokkur vörn sé á hitastreymi niður og það sem ekki er síður slæmt; allt of þykk steypa ofan á rörunum sem gerir gólfhitakerfið of svifaseint. Vissulega er hægt að hneykslast á byggjendum sem reyna að spara sér nokkrar krónur með þessum tæknilega þjösnaskap. En hvað eru hönnuðir að hugsa að láta slíka hönnun frá sér fara? Það er með ólíkindum að slík „húsbóndahollusta“ sé til hjá einhverjum úr þeirra hópi að þeir kasti fyrir róða sinni þekkingu og sannfæringu til að tryggja lífsviðurværi sitt.

Sem betur fer er það á hreinu að slíkar gólfhitalagnir fá ekki brautargengi í Reykjavík. En hvernig er það annars staðar, það er víðar verið að byggja há fjölbýlishús en í höfuðborginni? Þeir sem kaupa íbúðir í fjölbýlishúsum, þar sem gólfhiti er, eiga skýlaust að ganga úr skugga um hvernig slöngurnar eru lagðar; eru þær í steypulagi sem er einangrað frá berandi plötunni eða eru þær í plötunni og dreifa þar með hitanum bæði upp, eins og á að vera, en einnig niður til nágrannans á neðri hæðinni.

Ef gólfhiti er lagður beint í plötu á milli hæða í fjölbýlishúsi er það galli sem enginn á að sætta sig við.

Fleira áhugavert: