Hlandforin – Endurnýting, pempíur nútímans
Grein/Linkur: Kamarinn og hlandforin voru ekki feimnismál
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
Febrúar 1996
Kamarinn og hlandforin voru ekki feimnismál
Breytum hugsunarhætti okkar og viðhorfum. Nýtum það það, sem frá okkur kemur í föstu og fljótandi formi, til að auka gróðurþekju landsins.
Nútímaðaurinn er að missa tengslin við uppruna sinn, stórborgarlífið hefur skorið á þau. Hvernig á sá, sem situr í birtu og yl, ekur um á fjórhjóladrifnu tryllitæki, vinnur á skrifstofu daglangt og kaupir nauðsynjar sínar í stórmarkaði, að gera sér grein fyrir vegferð kjúklingsins eða lambalærisins í frystiborðið, hvaðan mjólkin kemur eða skyrið?
Hvað ætli uppi nútímans eða glanspían hugsi um það, sitjandi í dagdraumum á klósettinu, hvað verður um það sem frá þeim fer í föstu eða fljótandi formi. Þau sitja aðeins í hægindi og eru ekki að hugsa um „oj bara, klósett og s’oleiðis“.
Þessi tengslarof við fortíð og uppruna birtist víða, einkum í því að innfæddir borgarbúar telja sig vita allt um lífið og náttúruna. Það birtist í því að þeir vita allt um útigöngu hrossa og fella fávísa dóma, haldandi það að hross séu einhver puntudýr sem eigi að vera í húsum vetrarlangt helst með hita og ljósum. Það kemur ekki á óvart ef einhver hópurinn fer að berjast fyrir því að hreindýrunum verði smalað á haustin, yfir þau byggt og þau fóðruð á töðu og fóðurbæti í skammdeginu.
Það er sannarlega ekki vitlaus hugmynd að hver einasti maður fái að kynnast starfi í sláturhúsi, fengi að hræra í blóði um leið og það spýtist úr strjúpa nýslátraðs lambs, mokaði flór í fjósi eða blóðgaði spriklandi þorsk.
Pempíum nútímans væri slík lífsreynsla holl, því miður er víst ekki lengur hægt að bjóða mönnum að prófa að dæla upp hlandfor og aka henni á völl, það finnast vart lengur útikamar og hlandfor en fjári væri gaman að sjá til hvítflibbaðra borgarbúa við slíka iðju og ekki væri lakara að þeir þvæðu nokkur ullarreyfi úr sjóðandi keytu í leiðinni.
.
Ekki verður horfið aftur til fortíðar
Við lifum í nútímanum og hverfum ekki til baka, en það er hollt nútímamanninum að vita það að hamborgarar vaxa ekki á trjánum og það þýðir lítið fyrir einhverja malbiksþræla að skipa inúítum við nyrstu höf að hætta að drepa sér sel í soðið, þeir geti ræktað grænmeti og étið.
En þrátt fyrir stórlega breytta lífshætti, aukin þægindi og gífurlegar framfarir í tækni er eitt óumbreytanlegt; eins og maðurinn þarf fæði þarf hann að losna við úrganginn, frá honum kemur þvag og saur eins og frá öllum lifandi verum. Hann er hins vegar eina veran sem lítur á þetta sem feimnismál og vill sem minnst um það vita eftir að hann kemst upp fyrir flissandi kúk og piss aldurinn; sumir ná því kannski aldrei.
En vegna þessarar nauðsynjar mannsins hefur þróast mikil lagnatækni til að koma úrganginum burtu, já eitthvað sem lengst í burtu.
Það er hins vegar athyglisvert að það virðist hvergi í þróuðu landi vera jafn mikið feimnismál og á Íslandi, hvarvetna er mikil umræða í gangi í ræðu og riti um þetta efni.
En spurningin er; eigum við ekki að snúa þróuninni að nokkru aftur til fortíðar, hætta að líta á okkar eigin úrgang sem eitthvað ógurlega ljótt sem verður að koma sem lengst í burtu þegjandi og hljóðalaust og fara að líta á þetta sem einstök verðmæti.
Fram yfir miðja öld var útikamar og hlandfor sjálfsagður hlutur á hverjum sveitabæ eða því sem næst, en þeir voru til sem höfðu hvorugt. Víða var einnig til forláta tæki, hlandforardæla, sem dældi úr forinni í tank, síðan var innihaldinu dreift á tún og fór það ekki milli mála að þar varð grasspretta betri en annars staðar, kúamykja var ekki jafnvíg þótt vissulega væri hún góður áburður.
Landgræðsla er ofarlega á baugi í dag og hefur verið undanfarna áratugi, tilbúinn áburður getur komið þar að góðum notum en ekkert jafnast á við þann úrgang sem kemur frá mönnum og skepnum. Breytum hugsunarhætti okkar og viðhorfum, förum að nýta það sem frá okkur kemur í föstu og fljótandi formi til að auka gróðurþekju landsins. Sorpið, einkum matvælaúrgangur, er einnig dýrmætt til þeirrar notkunar, hættum að brenna sorpi, og hættum hernaðinum gegn votlendi landsins.
Vatnssalerni þótti mikil framför, fyrir um 100 árum, fyrst þurfti að hella vatninu í skálina og að athöfn lokinni var hleypt niður með handfangi.