Grundfos dælur, hugvit – Þorskur, lambakjöt
Grein/Linkur: Dælur og danskt hugvit
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Mars 1996
Dælur og danskt hugvit
Hjá Grundfos starfa yfir 600 manns eingöngu við þróun, rannsóknir og tilraunir . Þeir eru að vinna fyrir framtíðina. Baráttan er um að vera örlítið framar en keppinautarnir.
Í Maí 1945 lauk seinni heimsstyrj öldinni að mestu, þeim hrikalega hildarleik, og vopnin þögnuðu í Evrópu og á Atlantshafi.
Meðal þeirra þjóða sem þá losnuðu undan fjötrum nasismans voru Danir, fyrrum herraþjóð okkar. Það virðist því ótrúlegt að jafnvel áður en hersetu Þjóðverja lauk stofnaði ungur maður fyrirtæki sem rúmri hálfri öld síðar er leiðandi í sinni grein á heimsvísu.
Þá varð Grundfos til, iðnfyrirtæki sem framleiðir dælur og selur framleiðslu sína um allan heim, markaðshlutdeildin er yfir 50% af heimsmarkaðinum í sölu á miðflóttaaflsdælum. Þar sem einn djarfur og framsýnn maður byrjaði í skúr er nú háþróuð verksmiðja með sölufyrirtæki í um 30 löndum.
Það er ótrúlegt hvað Danir hafa náð langt í framleiðslu á háþróaðri iðnaðarvöru, þetta land sem á engin verðmæt efni í jörðu svo sem málma og fram til þessa engar orkulindir.
Hvað veldur þessari velgengni?
Danir hafa viðurkennt og nýtt þann auð sem þeir eiga mestan og bestan, auð sem við Íslendingar virðumst eiga erfitt með að koma auga á.
Þeir hafa nýtt sér mannauðinn, hugvit mannsins, þessvegna hafa þeir náð svo stórkostlegum árangri í iðnaði.
Það sem úrslitum ræður
Til að hugvitið njóti sín þarf aðstöðu og skilning þeirra sem stjórna fyrirtækjum sem Grundfos. Það stendur enginn framarlega eða fremstur á heimsmarkaði nema að grundvöllur framleiðslunnar sé stöðug þróun og rannsóknir.
Hjá Grundfos starfa yfir 600 starfsmenn eingöngu við þróun, rannsóknir og tilraunir. Þeir eru að vinna í framtíðinni, baráttan er um að vera örlítið framar en keppinautarnir. Þessi starfsemi fer nú fram í sérstöku þróunarsetri sem er um 40.000 m að stærð, en starfsmenn Grundfos eru yfir 8.000 auk umboðsaðila sem selja dælur um alla veröld. Árlega eru framleiddar yfir 7 milljónir dæla og efnisnotkun er u.þ.b. 40 tonn ryðfrítt stál, 22 tonn ál og 12 tonn kopar.
Nýtt og gamalt
Þó margar merkar tækninýjungar sé að finna í Grundfos-dælunum er tæknilegi grunnurinn ekki nýr. Hjólið í dælunum er í raun fundið upp af Arkimedes, sem var uppi 200 árum f. Kr.
Í dælum framtíðarinnar mun líklega keramik koma í staðinn fyrir málma að nokkru. Með notkun keramiks verður hægt að framleiða dælur sem þola hærri hita og geta snúist allt að 10.000 sinnum á mínútu.
Eitt það athyglisverðasta sem fram hefur komið í stýringu á dælum á undanförnum árum er að stýra gangi þeirra sjálfvirkt eftir þörfum. Þá stýrast þær eftir því hve miklu magni þarf að dæla hverju sinni. Þetta á jafnt við um dælur á hitakerfi eða dælur í skólpdælustöðvum Reykjavíkur. Þegar skólpmagnið minnkar um nætur hægja dælurnar á sér. Þetta sparar mikla orku.
Grundfos framleiðir dælur sem settar eru niður í borholur og þar vinna þær sitt verk að dæla vatni upp á yfirborðið. Þetta kemur sér vel hvar sem er en ekki síst í þróunarlöndunum. Þar sést víða ekki deigur dropi á yfirborði jarðar, en djúpt í jörðu kunna að vera miklar birgðir af grunnvatni.
Grundfos hefur ekki aðeins þróað borholudælur heldur einnig sólarorkubúnað sem vinnur orku til að knýja dælurnar og sólin er víða það eina sem nóg er af í þróunarlöndum fyrir utan mannmergðina.
Það er líklega kominn tími fyrir okkur Íslendinga að viðurkenna að það er til fleira en þorskur og lambakjöt svo ágætt sem hvorutveggja er.