Snjóbræðsla – Afrennslisvatn, fúsk

Grein/Linkur: Vorverk eiga að vera vorverk

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Maí 1996

Vorverk eiga að vera vorverk

Ef helluleggja á heimreiðina og stéttina er sjálfsagt að leggja snjóbræðslukerfi um leið. En það á ekki að bíða með þessar framkvæmdir til hausts.

ÞAÐ ER sérkennileg þjóð sem býr á þessari eyju í Atlants hafi. Af mörgum sérkennum okkar erum við ákaflega stolt, stundum með réttu. En öðrum ættum við kannski ekki að flíka um of en það er önnur saga.

Nú er vorið komið eftir einstaklega gott tíðarfar í vetur og þá fara menn að sjálfsögðu að huga að verkum utandyra, hvað á að gera á lóðinni og hvað þarf að gera í sumarbústaðnum, þeir sem þá eiga þurfa margs að gæta.

Ekki er nokkur vafi á því að margir eru farnir að hugleiða hvort ráðist skuli í viðhald eða framkvæmdir utanhúss.

Gallinn er hinsvegar sá að margir hugleiða sumarlangt, taka endanlega ákvörðun í september og síðan er farið af stað að finna verktaka.

Ár eftir ár gerist þetta, það þarf að helluleggja heimreiðina og stéttina og þá er auðvitað sjálfsagt að leggja snjóbræðslukerfi um leið. En því miður vilja framkvæmdirnar lenda í einum brennipunkti í lok sumars eða á hausti, óhagkvæmt fyrir alla aðila bæði verkkaupa og verksala.

Þessvegna má gefa þessa ráðleggingu; gerðu vorverkin á vorin!

Ótrúlegt fúsk

Það er liðinn aldarfjórðungur síðan farið var að leggja snjóbræðslukerfi á landi hér að nokkru marki. Nú eru slík kerfi sjálfsögð við hvert hús á hitaveitusvæðum en þeim hefur, því miður, fylgt ótrúlega mikið fúsk. Allar lagnir sem á einhvern hátt tengjast hitaveitukerfum, t. d. hér á höfuðborgarsvæðinu, á að leggja á ábyrgð löggiltra pípulagningameistara og öll kerfi á að tilkynna til Hitaveitu Reykjavíkur.

En á undanförnum árum hafa ótrúlegustu einstaklingar auglýst sig sem sérfræðinga í snjóbræðslulögnum, tekið að sér verk og „hent niður rörum“, þetta er svo einfalt að þeirra áliti og oftar en ekki hafa fagmenn mátt hreinsa upp eftir þá, því hver getur neitað viðskiptamanni um að koma hlutunum í lag jafnvel þótt hann hafi freistast til að skipta við fúskara, haldandi að hann væri að spara sér umtalsverðar fjárhæðir sem oftast reynist tálsýn.

En vorið er komið og hverjum og einum best að vera ekki „fúll á móti“, líta björtum augum á lífið og tilveruna og umfram allt hefjast handa sem fyrst ef á annað borð á að gera eitthvað utandyra.

Snjóbræðslukerfi

Sértu í þeim hugleiðingum að leggja snjóbræðslukerfi við húsið þitt og endurbyggja heimreiðina þarf að hyggja að ýmsu.

Það er heimilt að nota afrennslisvatnið af hitakerfi hússins í snjóbræðslu, í heitan pott, í gróðurhús, eða gróðurbeð. Sú saga er lífseig að Hitaveita Reykjavíkur banni slíkt en það er úr lausu lofti gripið, hinsvegar á Hitaveitan rétt á að fá að vita um allar slíkar framkvæmdir. Það er hinsvegar augljóst að ekki er hægt að nota afrennslisvatnið til alls þess sem upp var talið hér að framan, afrennslisvatnið er takmarkað þar sem hitakerfin eru vel stillt og í góðu lagi.

Það getur verið góð regla að miða snjóbræðslukerfið eingöngu við afrennslisvatnið, að kerfið sé ekki stærra en það að ekki þurfi að bæta við beinu rennsli, það er að sjálfsögðu ódýrast því afrennslisvatnið kostar ekkert.

Hinsvegar er það engin frágangssök að setja á kerfið sjálfvirkan ventil sem bætir aðins við beinu rennsli af fullheitu vatni, að sjálfsögðu er nokkur rekstrarkostnaður því samfara, en hann þarf ekki að vera umtalsverður.

Dýpt og lega röranna er mikilvæg til að góður árangur náist, þess vegna er það mikil óvirðing við gott handverk að tala um að „henda niður rörum“ þau orð lýsa vel afstöðu viðkomandi og þekkingu.

Ekki má gleyma garminum honum Katli. Það hefur verið rekinn mikill áróður undanfarin ár fyrir því að setja frostlög á snjóbræðslukerfi en hér er rekinn áróður gegn því. Frostlögur er bannsett eitur og fjandsamlegur sínu umhverfi auk þess sem snjóbræðslukerfi með frostlegi eru miklu dýrari í stofnkostnaði vegna aukins búnaðar og dýrari í rekstri ef notað er beint innrennsli frá mæli að hluta.

Þar að auki er engin þörf á frostlegi á snjóbræðslukerfi, það á ekki að nota önnur snjóbræðslurör en þau sem þola að í þeim frjósi við flestar aðstæður og það er hægt að uppfylla regluna gullvægu „að þannig sé gengið frá snjóbræðslukerfi að ekki verði skaði þótt í þeim frjósi, hvorki á kerfi né umhverfi“ án þess að nota frostlög.

Fleira áhugavert: