Fóðrun lagna, sagan – Endurnýjun lagna

Grein/Linkur: Endurnýjun á frárennslislögnum án þess að stinga skóflu í jörð

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Ágúst 1995

Endurnýjun á frárennslislögnum án þess að stinga skóflu í jörð

Það getur orðið mikið rask, ef endurnýja þarf frárennslislagnir undir malbikaðri umferðargötu. Kostnaðurinn felst ekki aðeins í nýrri lögn, gröftur, fylling og malbikun að nýju eru þar stærstu þættirnir.

Undiröllum götum í borgum og bæjum er víðáttumikið frárennsliskerfi, í flestum tilfellum eru þessi kerfi lögð úr steinsteyptum rörum. Ending þeirra er misjöfn, í flestum tilfellum góð, en tvennt er það sem þar ræður úrslitum; að rörin séu vönduð, úr sterkri steypu og að lögn og frágangur í upphafi sé góður.

En engin mannanna verk endast eilíflega og það getur orðið mikið rask ef endurnýja þarf frárennslislagnir undir malbikaðri unferðargötu og kostnaðurinn er ekki aðeins í nýrri lögn, gröftur, fylling og malbikun að nýju eru þar stærstu þættirnir.

En þó rörin brotni ekki saman geta þau orðið óþétt því á frárennslislögn úr steinsteyptum rörum eru mörg samskeyti.

Þetta er nokkuð sem við höfum ekki gefið mikinn gaum hérlendis, en erlendis víðast hvar í iðnþróuðum og þéttbýlum löndum eru menn vakandi fyrir þessu, því mengun grunnvatns er mikið vandamál og ekki síður mengun sjávar með ströndum fram.

Ný lögn inn í þá eldri

Það hefur verið hröð þróun í þessari lagnatækni undanfarin ár, þó ekki hafi hún borist hingað til lands svo neinu nemi.

Norðurlönd standa framarlega í þessari þróun og verkkunnáttu og er einkum um tvær aðferðir að ræða. Að sjálfsögðu hafa þarlendir gefið þessum aðferðum heiti á ensku, það þykir fínt í henni Skandinavíu að vera alþjóðlegur, ekki nefna hlutina neinu lummó dönsku orði eða syngjandi norsku.

Á íslensku skulum við tala um „beina endurlögn“ en þá er endurlagt með beinum, stuttum rörbútum, sem er skotið inn í gömlu lögnina inn úr tengibrunnum, næsti bútur tengdur við og síðan koll af kolli. Nýja lögnin er í flestum tilfellum úr polyeten plasti, en oft reynist nauðsynlegt að hreinsa gömlu lögnina áður, því innan í grófar steisteyptar lagnir safnast oft ýmiskonar hrúður.

En sú aðferð, sem við skulum kalla „sveigjanlega endurlögn“ er öllu athyglisverðari og hún er talin ódýrust og fljótlegust í framkvæmd. Sokkur úr sérstöku plastefni er dreginn inn í rörið, síðan er sokkurinn blásinn upp þannig að hann þrengir sér út í eldra rörið og það nýja síðan hert með sérstakri aðferð.

Við þetta vinnst ekki aðeins að frárennslislögnin er orðin þétt, rörveggurinn er miklu sléttari svo að segja má að flutningsgeta rörsins aukist, en það getur víða verið vandamál í eldri byggðahverfum að hún er ekki næg.

Ekki aðeins frárennslisrör

Þessi endurlagnaaðferð kemur ekki aðeins til álita við endurnýjun frárennsliskerfa, vatnsveitur geta einnig nýtt sér hana. Víða eru stofnlagnir vatnsveitna úr steypujárnsrörum, jafnvel asbeströrum, ekki er vitað til að nokkurs staðar séu tréstokkar enn í notkun hérlendis. Eftir að rörin hafa verið hreinsuð er hægt að fóðra þau að nýju og á sama hátt og í frárennslisrörunum er mögulegt að flutningsgetan aukist þó þvermálið verði örlítið minna því mótstaðan minnkar.

Fleira áhugavert: